Gjöf menntmrh. til Kennarasambands Íslands
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans sem voru kannski nokkuð sérkennileg en þó báru þau með sér að hæstv. ráðherra hyggst breyta þeirri áætlun ríkisstjórnarinnar og þeirri áætlun sinni að gefa þetta hús í dag. Hæstv. ráðherra hyggst hins vegar tilkynna að það muni verða gerð tillaga um það í næsta fjárlagafrv. að þessi ráðstöfun eigna verði gerð með næstu fjárlögum. Þarna er sérkennilega að verki staðið. Ég man ekki eftir því í annan tíma að þannig tilkynningar hafi borist á afmælishátíð einstakra aðila í landinu frá starfandi ríkisstjórn eða einstökum hæstv. ráðherra.
    En ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga að hæstv. ríkisstjórn tilkynni í dag og á morgun og alla næstu daga hvaða tillögur hún ætlar að gera í næsta fjárlagaafrv. Það er auðvitað forvitnilegt fyrir okkur að heyra í sem flestum greinum hvaða tillögur hún muni þá leggja fyrir Alþingi, en ég skil það svo að sú athugasemd sem ég hef hér gert hafi ráðið því að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki árætt að fara að með þeim óeðlilega hætti sem mér bárust fregnir um að til stæði í dag.