Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Vegna ummæla hæstv. ráðherra hér áðan um hækkun á sköttum þá get ég ekki gert að því þó að hann hafi ekki vitað hvað hann var að samþykkja þegar hann samþykkti og hækkaði íbúðarskattinn núna um áramótin. Staðreyndin er hins vegar sú að hjá einstaklingum sem eiga skuldlaust íbúðarhúsnæði var hækkunin eitthvað í kringum 320% fyrir 14 millj. kr. eign. Ráðherrann hefur auðvitað ekki vitað það að þetta eru verulegar hækkanir. Það er alveg ljóst að ráðherrann verður að fara í gegnum þau skattalög sem hann hefur samþykkt vegna þess að hann hefur ekki gert sér grein fyrir því að íbúðarskatturinn hefur hækkað svona mikið. Ég vil taka hér sem dæmi að þessi skattur hefur hækkað allverulega frá síðustu árum og er sennilega sá hæsti sem um getur í heiminum. Ráðherrann veit náttúrlega ekkert um það því að hann greiddi bara atkvæði með þessum skatti. Væri nú fróðlegt að rifja upp svolítið af þeim skatti fyrir ráðherrann við þessa umræðu.
    Það er alveg ljóst að þessi skattur, fyrst ráðherrann veit það ekki, hefur hækkað gífurlega mikið og ég ætla að leyfa ráðherranum, ef hann hefur tíma til, að heyra hvernig þessi skattur hefur hækkað af því að hann veit það ekki. Við atkvæðagreiðslu um íbúðarskattinn benti ég á að þessi skattur hefði með nýju lögunum hækkað um 320% hjá ákveðnum einstaklingum. Þetta eru staðreyndir sem hæstv. ráðherra hefði átt að kynna sér áður en hann samþykkti þennan skatt. Og ég ætla að minna ráðherrann á það einnig, fyrst hann vissi þetta ekki, að íbúðarskatturinn leggst fyrst og fremst á íbúa á svæðinu hér í kring, Reykjavík og Reykjanes, með miklum þunga. Íbúðarskatturinn er mikil hækkun og langt fram yfir það sem eðlilegt er. Og í verðstöðvun er þetta langt frá því að vera eðlilegt. Ég ætla að minna ráðherrann á það, fyrst hann veit það ekki, að einstaklingur kemur til með að greiða gífurlega háa skatta af þessu. Einstaklingur sem á síðasta ári greiddi 72 þús. í eignarskatt af íbúðarhúsnæði greiðir núna 231 þús. sem eru 320% hækkun. Ef ráðherrann veit ekki meira um þetta, þá ætti hann að kynna sér málið. Ég bendi honum á grein sem ég reit í Morgunblaðið 4. jan. sl. þar sem eru töflur um þessa hækkun og einnig um það hvernig þessi skattur mun sérstaklega bitna á kjósendum hæstv. ráðherra hér í Reykjavík og á kjósendum af Reykjanesi fram yfir aðra á landinu. Ég held að ráðherranum væri hollt að kynna sér mál þetta áður en hann fer að halda því fram að það sé ekki farið rétt með tölur. Í þessu sambandi gæti ég líka reiknað út fleiri hækkanir sem hafa orðið langt umfram eðlilegar verðhækkanir.
    Þetta eru staðreyndir málsins. Ráðherrann verður að kynna sér þetta mál betur og þá getur hann séð að þetta er rétt.