Framkvæmdasjóður á sviði menningarmála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Vegna ummæla frummælanda, hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar 2. þm. Reykv., að hér væri ekki um nýjan skatt að ræða og hér væri framhald á þeim eignarskatti sem lagður var á í ríkisstjórnartíð minni sem fjmrh., vil ég upplýsa hv. þm. að á þeim tíma ... ( BÍG: Ég sagði það ekki. Ég sagði að þú hefðir setið í ríkisstjórn.) Setið í ríkisstjórninni. Það er nákvæmlega það sama. Það er tíminn sem ég var fjmrh. ( BÍG: Nei, þú varst iðnrh.) Nei, ég var fjmrh. þegar þetta var rætt svo það er ekki rétt. En hvort sem um fjármálaráðherrasetu mína eða iðnaðarráðherra er að ræða skiptir það ekki máli. Ég var í ríkisstjórn þegar þetta mál var rætt og mjög mikið á móti þessum skatti og tafði málið í nokkra fundi, nokkrar vikur í ríkisstjórninni vegna þess að ég var á móti þessum eignarskattsálögum. Ég er enn þá á móti þeim og tel það nýjan skatt að honum skuli haldið áfram, og í hliðstæðu hlutverki, eftir að hann á að vera fallinn úr gildi. En það er gömul hugmynd sem er endurvakin þegar hún á að falla úr gildi. Það er nýr skattur fyrir því og heitir sama nafninu áfram þó hann fái víðtækara hlutverk.
    En ég tók ekki til máls og ég hugsa að þingmenn geri það ekki yfirleitt til að fá áskorun um að koma með nýrri og betri tekjuhugmynd en flm. Það má segja að ég sé að biðja flm. um að færa sig frá þessari hugmynd, sem er afskaplega andstæð hugsjónum Sjálfstfl. í gegnum tíðina, yfir í einhverja aðra sem er þá nær hugsjónum Sjálfstfl. Ég get tekið að mér það hlutverk. Það er enginn vandi. Ég er svo mikill sjálfstæðismaður að ég hugsa að hugmyndir mínar og flokksins gætu enn þá farið saman.
    En hann vitnaði í lög um þennan sérstaka eignarskatt sem sett voru í minni ráðherratíð. Nú vill svo til að þau lög sem leggja til þennan nýja skatt eru skv. 4. gr. frv., sem nú er á dagskrá, svohljóðandi: ,,Sérstakur eignarskattur skv. 3. gr. skal lagður á eignarskattsstofn, sbr. lög nr. 75/1981.`` --- Þá sat ég ekki í ríkisstjórn. Aftur á móti er í öðru frv. ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 2. gr. laga nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu`` o.s.frv. Hér erum við ekki að tala um sömu lögin því þjóðarbókhlöðulögin eru frá 1986 og eiga að falla úr gildi 1989, en sá skattur sem lagt er til að verði innheimtur í þeim tilgangi sem frv. sem er á dagskrá segir til um er samkvæmt lögum nr. 75/1981. Þau segja að það skuli vera sérstakur eignarskattur 0,25% o.s.frv. Ég sé ekki ástæðu til að lesa það upp. Ég get ekki betur séð en þau lög haldi áfram að vera í gildi. Samkvæmt því frv. sem hefur verið lagt fram hér og nú um þennan byggingarsjóð til menningarmála er þetta viðbót. Það er ekki lagt til að þessi 0,25%, sem lögð eru á samkvæmt lögunum nr. 75/1981, séu felld niður árið 1989. Það eru allt önnur lög. Það eru lög um þjóðarbókhlöðuna frá 1986. Ég get ekki séð annað en að þetta sé hrein viðbót við lögin frá 1981. Við erum ekki að tala um sömu lögin. Ég var ekki í ríkisstjórn þegar lög frá 1981 sem vitnað er til í 4. gr.

í frv. sem er á dagskrá voru sett þannig að við erum ekki að tala um sama hlutinn. Ég vona að það sé alveg ljóst, enda er hér annars vegar frv. á þskj. 571 frá Hreggviði Jónssyni og Inga Birni Albertssyni sem vitna í lög um þjóðarbókhlöðuna og svo hins vegar það frv. sem er á dagskrá á þskj. 195.
    Virðulegur forseti. Ég vona að það sé skýrt í framhaldi af ummælum hv. 2. þm. Reykv. að ég var ekki þátttakandi í mótun þeirrar stefnu sem kemur fram í lögunum 1981 sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands.