Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. 5. jan. sl. gaf heilbr.- og trmrn. út reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 432/1987, um starfsheiti og starfsréttindi matvælafræðinga. Við 1. gr. kemur ákvæði til bráðabirgða um starfsleyfi til handa einstaklingum sem gegndu störfum matarfræðinga við gildistöku reglugerðarinnar frá 1987. Í þeirri reglugerð er hins vegar tekið skýrt fram hverjir hafa rétt til að kalla sig matvælafræðinga og starfa sem slíkir, en í 2. gr. reglugerðarinnar frá 1987 segir, með leyfi forseta:
    ,,Starfsleyfi skv. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hafa BS-prófi í matvælafræðum frá Háskóla Íslands. Ráðherra getur að fenginni umsögn Matvæla- og næringarfræðingafélags Íslands og þeirrar deildar Háskólans þar sem matvælafræði er kennd veitt þeim starfsleyfi ótakmarkað eða tímabundið sem lokið hafa sambærilegu háskólaprófi erlendis. Í þeim tilvikum skal umsækjandi sanna þekkingu sína í íslenskri matvælalöggjöf og mæltu og rituðu íslensku máli sé um erlenda ríkisborgara að ræða.``
    Þessi grein reglugerðarinnar kveður skýrt á um að matvælafræðingar skuli hafa lokið viðurkenndu háskólaprófi. Matvælafræði var fyrst kennd við Háskóla Íslands 1977 og útskrifuðust fyrstu matvælafræðingarnir 1979. Stéttin er því ný og tók ekki við af neinni annarri stétt. Þeir vinna við hlið annarra stétta sem þegar voru komnir til starfa í matvælaiðnaði, en matvælafræðingar hafa skapað sér sinn eigin starfsvettvang með sinni sérþekkingu sem gerir þeim kleift að stunda rannsóknir, t.d. í efnafræði og næringarfræði. Menntun matartækna er hins vegar af öðrum toga. Þeir ljúka sínum prófum af matvælatæknibrautum fjölbrautaskóla eða sambærilegum viðurkenndum prófum. Er því engan veginn hægt að ætla þeim að ganga inn á starfssvið matvælafræðinga sem hlotið hafa minnst þriggja ára sérhæfða háskólamenntun í matvælafræði. Vegna útgáfu þessarar reglugerðar hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. sem er á þskj. 464 til hæstv. heilbrrh.:
,,1. Hver er ástæðan fyrir þeirri breytingu sem heilbrrh. gerði á reglugerð nr. 432/1987, um starfsheiti og starfsréttindi matvælafræðinga 5. jan. sl.?
    2. Á hvaða forsendum telur heilbrrh. unnt að leggja nám matarfræðinga og matvælafræðinga að jöfnu og veita þeim sömu starfsréttindi?
    3. Hefur heilbrrh. í hyggju að nýta sér þessa heimild? Ef svo er, um hve marga aðila gæti verið að ræða og hvaða menntun hafa þeir?``