Afvopnun á höfunum
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ef hæstv. utanrrh. hefði lýst því hér yfir að hann ætlaði að taka frumkvæði í þessu máli, beita sér fyrir sérstökum viðræðum, m.a. við bandalagsþjóðir, um það að þessum afvopnunarviðræðum verði komið á, og kveðja til ráðstefnu um þessi efni hefði ég ekki haft neina ástæðu til að kvarta. Slíkar yfirlýsingar komu hins vegar ekki fram. Ég er alveg sammála hæstv. utanrrh. um það að slíkt er þolinmæðisverk og tekur sinn tíma og það þarf að vanda vinnu að þessum málum, en fyrst er að hefja vinnuna og hefja starfið en engin yfirlýsing kom þar að lútandi frá hæstv. ráðherra.