Aðstoð við leigjendur
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Ég hygg að hér sé hreyft við þörfu máli. Það er sennilega svo um flesta að þeir þurfa einhvern tíma á lífsleiðinni á leiguhúsnæði að halda og þó að það sé stefna flestra stjórnmálaflokka, a.m.k. Sjálfstfl., að sem flestir geti komist í eigið húsnæði er það þannig að ýmsir annaðhvort kjósa heldur að verja fjármunum sínum í annað en að komast í eigin íbúð eða hafa ekki aðstæður til að byggja og þurfa nauðsynlega að búa í leiguhúsnæði. Það er þess vegna nauðsynlegt og eðlilegt að það sé virkur markaður fyrir leiguhúsnæði í landinu eins og er víðast hvar í nálægum löndum. Þar er það raunhæfur valkostur fyrir fólk að taka sér húsnæði á leigu.
    En það kemur margt til og þarna eiga aðild að markaði eins og alls staðar annars staðar tveir aðilar, þ.e. húseigendur og leigjendur, og starfsemin á þessum markaði byggist á því að það sé ekki bara eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði heldur líka framboð. Framboðshliðin veltur á ýmsum þáttum sem snúa að húseigandanum eða eigendunum eins og t.d. því hvernig hagað er skattlagningu þeirra eigna sem hafðar eru til leigu.
    Nú er það þannig að í vetur hafa verið samþykktir á Alþingi þyngri eignarskattar og meiri hækkanir á slíkum sköttum en sennilega nokkru sinni áður í einu lagi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessar hækkanir munu orsaka tvennt. Þær munu bæða hækka húsaleigu vegna þess að húseigendur munu telja sig til þess knúna að velta þessum hækkunum út í verðlagið og einnig verða til þess að margir þeirra munu hreinlega gefast upp á því að leigja og taka húsnæði sitt úr leigu eða selja það og ráðstafa sínum peningum í annað.
    Ég held að það verði að huga að þessari hlið málsins líka vegna þess að til þess að skapast geti eðlilegur húsaleigumarkaður verða að vera þau skilyrði fyrir hendi að menn sjái sér hag í því að bjóða fram húsnæði til leigu á sanngjörnum kjörum þannig að hvorki sé um að ræða okurleigu fyrir leigjandann né það lága leigu fyrir húseigandann að húseignin standi ekki undir kostnaði, sköttum, afskriftum og fleiru sem hann þarf að standa undir.
    Það eru þess vegna margar hliðar á þessu máli eða a.m.k. þessi hlið til viðbótar því sem fram kom hjá fyrirspyrjanda og ég tel að það sé eitt af ógæfuverkum þessarar ríkisstjórnar hvað hún hefur beitt sér fyrir miklum hækkunum á þessu sviði. Það mun bitna mjög á þeim sem síst skyldi, sem ekki hafa möguleika á því að taka á sig hækkanir á húsaleigu sem óhjákvæmilega munu koma í kjölfarið. Þeir sem á annað borð hafa efni á því að greiða slíkt láta sig eflaust ekki um það muna.
    Ég tek undir það meginsjónarmið sem fram kemur í ályktunartillögunni að það eigi að efla húsaleigumarkaðinn, gera það að raunverulegum og eðlilegum valkosti, sem enginn þurfi að skammast sín neitt fyrir, að leigja húsnæði. Það er eðlilegt og er hlutur sem flestir þurfa á að halda einhvern tímann á

lífsleiðinni, annaðhvort þegar fólk er að hefja sinn búskap eða þegar aðstæður fólks breytast í hjúskap eða af öðrum ástæðum. Því verður þessi valkostur að vera fyrir hendi og hann verður að vera fyrir hendi með eðlilegum hætti án þess að stjórnvöld með skattpíningu eða öðrum beinum og óbeinum ráðstöfunum grafi undan þessari starfsemi. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að komi fram í þessu sambandi.