Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Þeirri fyrirspurn var beint til mín. Af hverju hefur ekki verið farin leið launajöfnunar? Ég hygg að verkalýðshreyfingin eða forusta hennar hafi í nokkuð mörgum tilvikum farið þá leið, en hún hefur ekki tekist. Og af hverju tekst hún ekki? Vegna þess að það er rangt hugarfar í þjóðfélaginu. Vegna þess að þeir sem eru betur settir geta aldrei unnað hinum að nálgast. Þetta hélt ég að hv. þm. vissi. Það er þetta sem kemur í veg fyrir að það sé í framkvæmd hægt að koma á launajöfnuði í landinu. Það hefur margoft sýnt sig. Ég hef talað hér á þingi nokkrum sinnum um að ég teldi að það gæti komið til að Alþingi setti beinlínis lög um laun. Já, já, fólk getur nikkað. Ég hef velt því mikið fyrir mér. En hvað kann það að þýða? Það er nú einu sinni svo í okkar landi að þó menn setji góð lög þarf að vera hægt að framfylgja þeim og við sjáum víða misbresti á framkvæmd laga, ég tala ekki um að því er þetta varðaði. Er hugsanlegt t.d. að það væru sett lágmarkslaun og það mætti ekki fara upp fyrir tiltekna upphæð sem menn mættu hafa mest? Er eitthvað sem kemur í veg fyrir að vinnuveitandi með góðan einstakling í vinnu mundi borga honum meira? Þá er launaskriðið komið af stað. Ég hef allra síst á móti því að þarna sé hægt að grípa inn í, en það dugar bara ekki með einfaldri lagasetningu. Það verður að vera hægt að fylgja því eftir í framkvæmd. Ég man það þegar við gerðum Bolungarvíkursamninginn á sínum tíma. Þá hækkuðu þeir langmest sem voru neðstir í skalanum og 80--90% af þeim sem hækkuðu mest voru konur. Ég heyrði tóninn þá frá hinum sem höfðu meira. Það er þetta sem er við að glíma. Ég held að til þess að koma á jöfnun í launum þurfi í reynd mikla hugarfarsbreytingu hjá almenningi og það á líka við innan verkalýðshreyfingarinnar og kannski ekkert síður.
    Ég veit ekki hvort þetta svar nægir af minni hálfu, en frá mínum bæjardyrum séð lítur málið svona út.