Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Nefnd sú sem samdi frv. um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði var ekki sammála um að taka upp ákvæði sem 30. gr. gerði ráð fyrir um bindiskylduna og skilaði frv. af sér til viðskrn. án þessarar greinar. Viðskrh. tekur aftur upp þessa grein í frv. og þegar hann fylgir því úr hlaði í byrjun þings hljóðaði greinin á þann veg að ráðherra getur heimilað Seðlabanka Íslands að láta sömu reglur gilda um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði að því er varðar bundið fé og settar eru innlánsstofnunum skv. 1.--3. málsgr. 8. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands.
    Um þetta atriði varð ekki samkomulag og því síður eftir að a.m.k. þrír ráðherrar kokkuðu upp þessa grein og sendu fjh.- og viðskn. hana til að leggja blessun sína yfir. Eftir það mátti engu breyta, eftir að þessir ágætu þrír matreiðslumenn gengu frá þessum rétti, og þannig kom þetta hingað inn í hv. deild og þetta var knúið hér fram.
    Burtséð frá því hvort það eigi að fara inn á þessa braut eða ekki er ég alveg sammála nefndinni í Ed. og einnig hæstv. viðskrh. um að auðvitað eiga þessi ákvæði öll heima fyrst og fremst í seðlabankalögunum og er miklu eðlilegra þó ég sé efnislega andvígur því að taka þessa grein inn eins og hún er. Það er alveg óbreytt. Ég fagna því afgreiðslu Ed. á þessu máli. Í raun og veru sé ég ekki að það þurfi endilega að bregða fæti fyrir fyrsta mál þingsins og gera það að einhverju skilyrði að seðlabankafrv. sé komið í hendurnar á ákveðnum mönnum og afgreitt áður en þetta frv. á að sjá dagsins ljós. Ég sé enga ástæðu til þess. Hins vegar hélt ég að það væri þó einhver metnaður í þessu ríkisstjórnarliði að reyna að knýja einhver mál fram sem þeir hafa verið að flytja í þingið en ekki alltaf setjast sitt á hvað á málin, en það er ekki mitt að dæma um hvar skipið tekur niðri því að skerin virðast vera mörg og þeim fer heldur fjölgandi en hitt.