Fasteignamat og brunabótamat
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Hv. fyrirspyrjandi Alexander Stefánsson greindi hér frá störfum nefndar sem fyrst var skipuð 1983 og þeim tillögum sem hún skilaði. Niðurstaða þessarar nefndar var kynnt í þeirri ríkisstjórn sem hér sat að völdum 1985 og var af hálfu þeirrar ríkisstjórnar samþykkt að vinna að framgangi málsins á grundvelli þessara tillagna og var þáv. félmrh. falið að skipa sérstaka nefnd í þessum tilgangi.
    Þessi nefnd skipuð fjórum mönnum var skipuð í október 1986 og var hennar hlutverk að smíða lagafrv. til þess að hrinda þessu fyrrgreinda nefndaráliti, sem hv. þm. Alexanders Stefánsson rakti hér, í framkvæmd. Hins vegar verður að segja þá sögu eins og er að þessi nefnd mun lítt eða ekkert hafa starfað.
    Það er hins vegar rétt, sem hv. þm. vék að, að það er mikil nauðsyn að breyta skipan þessara mála. Við ákvörðun fasteignamats húss notar Fasteignamat ríkisins svonefnt endurstofnverð sem grunnverð að mati viðkomandi húss. Endurstofnverðið er nánast sama stærð og brunabótamat. Í dag eru þessi möt framkvæmd af tveimur aðilum, þ.e. Fasteignamati ríkisins og dómkvöddum brunabótamatsmönnum sem eru um 450 talsins. Í þessu er fólginn mikill og óþarfur tvíverknaður sem allur almenningur á erfitt með að skilja að þörf sé á. Einnig er á það að líta að mat Fasteignamatsins á að vera samræmt. Hins vegar gætir oft mikils ósamræmis í brunabótamatinu sem er ekki óeðlilegt þegar þess er að gæta að þekking brunabótamanna á þessum málum er ærið misjöfn sem eðlilegt má telja um menn sem koma úr nær öllum stéttum þjóðfélagsins og lítt hefur verið unnið að að samræma eða þjálfa með ákveðnum hætti.
    Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, eins og reyndar kom fram í því nál. sem hv. þm. vék að, að það mundi efla mjög það starf sem unnið er að á þessu sviði að koma á fót einni stofnun sem hefði með að gera samræmt mat á fasteignum. Útgjöld ríkisins vegna fasteignamatsins mundu minnka þó að tekjur þess í heild mundu aukast. Stofnunin fengi því meira svigrúm til þróunar á matsaðferðum og matskerfum, tölvuvæðingar, menntunar starfsfólks, aukinnar og bættrar þjónustu við viðskiptavini og margs annars.
    Ég hef þess vegna að lokinni umræðu minni um þessi mál við hæstv. núv. félmrh. ákveðið að leggja fram í ríkisstjórninni innan tíðar tillögu um það að skipuð verði ný nefnd til að vinna að framgangi þessa máls og semja það lagafrv. sem nauðsynlegt er að liggi fyrir. Vona ég að störfum þeirrar nefndar verði lokið á þessu ári svo að hægt sé að taka á síðustu mánuðum þessa árs eða á fyrstu mánuðum næsta árs ákvörðun um það að koma á fót nýrri stofnun sem sinnir þessum verkefnum og knýr á um þá hagræðingu sem í þeirri nýskipan mundi felast.