Tryggingasjóður fiskeldislána
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Það er heppilegra að landbrh. svari spurningum varðandi fiskeldið. En hv. fyrirspyrjandi svaraði sér sjálfur eða svaraði því með því að vitna til þeirra staðreynda að í raun er hvort tveggja komið til framkvæmda sem spurt er um í fsp. á þskj. 520. Stjórn Tryggingasjóðs fiskeldislána var fullskipuð með bréfum dags. 8. febrúar sl. Reglugerð var gefin út í fyrri viku, 8. eða 9. mars, og auglýst hefur verið eftir umsóknum, eyðublöð hafa verið prentuð og eru farin út til umsækjenda og umsóknir reyndar þegar farnar að berast eftir því sem mér er best kunnugt um.
    Það er vissulega rétt að það tók allnokkurn tíma að ganga frá öllum atriðum varðandi undirbúning að stofnun og starfrækslu tryggingasjóðsins. Það er þó enginn vafi á að það að lög voru sett þegar í janúar flýtti fyrir málinu. Þá þegar var hafinn undirbúningur ekki bara að setningu reglugerðar heldur einnig að ýmissri annarri undirbúningsvinnu sem óhjákvæmilegt var að vinna og hrinda í framkvæmd. Ég nefni sem dæmi: gera drög að samstarfssamningi við Stofnlánadeild landbúnaðarins um þjónustu við sjóðinn. Ég nefni undirbúning að skilmálum í sambandi við umsóknir, prentun eyðublaða. Ég nefni vinnu að ákvörðun iðgjalda sem verulegur tími hefur farið í og tillögur munu berast mér í dag eða á næstu dögum um iðgjöld sem ég mun síðan samkvæmt laganna hljóðan staðfesta í samráði við fjmrh.
    Allt hefur þetta þurft sinn tíma. Stjórn tryggingasjóðs hefur lagt mikla vinnu í þetta verkefni sl. mánuð eftir að hún tók formlega til starfa. Ég hygg að hún hafi haldið eina tíu fundi sem samtals hafi staðið í upp undir 40 klukkustundir. Auk þess hefur gríðarleg vinna verið unnin utan funda. Tryggingastærðfræðingur hefur verið að störfum til að reikna út iðgjöld. Fundir hafa verið haldnir með bönkum, fundir hafa verið haldnir með landbn. Alþingis til að kynna þeim reglugerðarsetninguna eins og loforð var gefið um við afgreiðslu laganna þannig að reynt hefur verið með öllum tiltækum ráðum að bæði hraða vinnu að þessu máli og koma þessu til framkvæmda. Afgreiðsla lánsumsókna á að geta tekið mjög stuttan tíma eins og þessari vinnu er nú komið og sjóðsstjórnin hefur fullvissað mig um að það eigi að geta gengið greitt fyrir sig núna þegar öll þessi undirbúningsvinna að starfrækslu sjóðsins hefur verið unnin. Það er einlæg von mín og ég deili von minni með fyrirspyrjanda að þetta geti komið til framkvæmda innan mjög skamms tíma.