Virðisaukaskattur
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Það kom fram í ummælum hæstv. menntmrh. í Sþ. ekki fyrir löngu að hann reiknaði með því að söluskattur yrði áfram við lýði hér á landi en ekki yrði staðið við það fyrirheit að virðisaukaskattur yrði upp tekinn 1. jan. 1990. Þegar hann var síðan inntur eftir því hvað hefði staðið á bak við þessi ummæli virðist mér sem hann gæfi í skyn að virðisaukaskattur yrði tekinn upp 1. jan. 1990. Þar sem mér þótti svar hæstv. menntmrh. óljóst en hæstv. fjmrh. var ekki viðstaddur og yfirleitt ekki mikið að græða á svörum hæstv. forsrh. þegar ágreiningur er uppi í ríkisstjórn um einhverja hluti taldi ég rétt að snúa mér beint til hæstv. fjmrh. og spyrja hann um hvað liði undirbúningi þess að virðisaukaskattur yrði tekinn upp 1. jan. 1990 og hvernig undirbúningi yrði háttað.
    Ég minni á að alþingismenn voru sammála um að óheppilegt væri að virðisaukaskattur yrði tekinn upp á miðju þessu ári. Miklu eðlilegra væri af tæknilegum ástæðum og allra hluta vegna að miða gildistöku við áramót og ég vil leggja áherslu á það með þessari fsp. að við þessa dagsetningu verði staðið.