Olís og Alþýðubankinn
Fimmtudaginn 16. mars 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Mér þykir þetta nokkuð einkennileg málsupptekt og tek undir orð hæstv. viðskrh. sem hann viðhafði hér í upphafi. Ég stend hér upp vegna aðdróttana hv. þm. Guðmundar Ágústssonar um óeðlileg vinnubrögð hjá Landsbankanum í þessu máli. Ég tel að gerðir Sverris Hermannssonar bankastjóra gefi ekki tilefni til aðdróttana af því tagi sem hv. þm. Guðmundur Ágústsson viðhafði hér í ræðustól í upphafsorðum sínum.
    Málið er það að að mati Sverris Hermannssonar bankastjóra lagði Olíuverslun Íslands ekki fram þær tryggingar sem bankinn mat gildar. Landsbankanum var neitað um innsetningargerð þegar hann vildi tryggja hag sinn og vinnubrögðin hafa að mínu mati verið fullkomlega eðlileg hjá Landsbankanum undir forustu Sverris Hermannssonar. Það er mikil djörfung sem mér finnst Alþýðubankinn sýna að ganga í þetta mál og það er gott að viðskrh. metur að hann ráði við að leysa það verk af hendi sem hann hefur tekist þar á hendur fyrir Olíuverslun Íslands.