Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Efni þessarar þáltill. er tvíþætt eins og fram hefur komið í máli fyrri ræðumanna. Annars vegar felur hún í sér tillögu um sameiningu RARIK og Landsvirkjunar og hins vegar tillögu um aukna verðjöfnun á raforku. Ég ætla að fara nokkrum orðum um hvorn þessara þátta og sný mér að þeim fyrri.
    Ég vil benda þingheimi á að með þeim samningum sem gerðir voru um skipun orkumála á árunum 1980--1983 má segja að á hafi verið komið allgóðu skipulagi hvað varðar raforkuvinnslu og megindreifingu raforkunnar. Þessu skeiði endurskoðunar lauk með samþykkt nýrra laga um Landsvirkjun í mars 1983. Frá þeim tíma hefur það gerst að Landsvirkjun hefur tekið við rekstri Kröfluvirkjunar frá RARIK og Hitaveita Suðurnesja hefur tekið við rafveiturekstri á Suðurnesjum af sveitarfélögum og Rafmagnsveitum ríkisins jafnframt því sem hún hefur hafið eigin raforkuframleiðslu. Ég tel að sú þróun sem þarna hefur orðið sjálfkrafa að segja má í samningum milli eigenda og hagsmunaaðila stefni í rétta átt.
    Ég bendi svo hins vegar á að smásöludreifing raforku er nú í aðalatriðum í höndum nokkurra dreififyrirtækja sem flest eru algerlega í eigu sveitarfélaga. Síðan eru tvö fyrirtæki sem eru í sameign ríkis og sveitarfélaga og loks RARIK sem er í eigu ríkisins. Mín skoðun er sú að sameining, samsteypa Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins mundi hafa í för með sér ýmiss konar vandamál, t.d. í verðlagningu á raforku til sveitarfélagaveitnanna. Þá vil ég líka taka undir þá skoðun, sem hér hefur komið fram, að Landsvirkjun sé e.t.v. nægilega stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Það er dregið í efa að stækkun þess með óskyldri starfsemi sé hyggileg því smásöludreifing á orku er alls ekki sama verkefni og orkuvinnsla og stofnlínudreifing. Ég óttast að flækjur mundu koma upp varðandi eignarhald að hinu sameiginlega fyrirtæki Landsvirkjun/Rafmagnsveitur ríkisins.
    Í þessu felst þó ekki að menn eigi ekki að líta á skipulagsmál raforkumálanna með opnum huga. Það þarf sannarlega að gera alla tíð og í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er einmitt hugað að endurskoðun á skipulagi orkuvinnslu og dreifingar með sameiningu orkufyrirtækja að markmiði og jafnframt að orkulindirnar verði nýttar til atvinnuuppbyggingar. Ég legg ekki síst þá merkingu í þessi orð að hér sé m.a. vikið að því að reka saman dreifiveitur fyrir raforku og jarðvarma eins og tíðkast t.d. hjá Hitaveitu Suðurnesja og hjá nokkrum sveitarfélagaveitum. Í sumum héruðum háttar svo til eins og mönnum er kunnugt að þar er hitaveita rekin með góðum rekstrarhagnaði en hins vegar rafveita með tapi. Í öðrum héruðum er þetta öfugt, og þarf ég ekki að taka dæmi um þetta, þar sem tap er á hitaveiturekstrinum en góður hagur á orkuvinnslu og dreifingu. Þarna virðist mér augljóst að sameining í héruðum sé skynsamlegur kostur. Það er margvíslegt hagræði sem fylgir því að samnýta vatnsafl og

jarðvarma og það eru ekki eingöngu landshagir og hagkvæmni í efnahagslegum skilningi heldur liggur þetta bókstaflega líka í eiginleikum jarðvarmans og varmafræðinnar.
    Ég tel að áherslu eigi að leggja á þessi mál sem lúta að sameiningu orkudreifingarfyrirtækja í héruðum. Ég bendi á að Rafmagnsveitur ríkisins urðu á sínum tíma til vegna brýnnar þarfar fyrir rafvæðingu í strjálbýli. Þá voru sveitarfélögin miður burðug en þau eru í dag. Nú segir mér hugur um að ef menn stæðu frammi fyrir líkum vanda á okkar dögum mundu menn snúa sér að því að leysa hann --- eða freista þess að leysa hann --- með stofnun héraðsbundinna byggðasamlaga í anda þeirra sveitarstjórnarlaga sem nú gilda.
    Ég bendi líka á það að Rafmagnsveitur ríkisins hafa á undanförnum árum starfað að því allskipulega að draga úr miðstýringu í fyrirtækinu með því að flytja ýmsa þætti starfseminnar út á land og koma þannig til móts við óskir viðskiptavinanna. Ég hugleiði --- og það hafa ýmsir gert á undan mér --- hvort ekki sé rétt að stefna að því í framtíðinni að breyta Rafmagnsveitum ríkisins að rekstrarformi í einhvers konar hlutafélag þar sem hlutaféð gæti í fyrstu verið algerlega í eigu ríkisins en fyrirtækið gæti síðan í einhverjum mæli fjármagnað nýjar framkvæmdir með útgáfu bréfa sem seld yrðu á frjálsum markaði. Þetta er fjármögnunarleið sem víða er notuð í öðrum löndum í raforkubúskapnum með góðum árangri. Þannig mætti með tíð og tíma dreifa eignaraðild og e.t.v. stjórnaraðild að fyrirtækinu. Til dæmis þannig að sveitarfélög sem njóta þjónustu þess kæmu þannig inn sem hluthafar.
    Ég er hins vegar ekki trúaður á það að unnt sé að skipta Rafmagnsveitum ríkisins upp eftir landafræðinni þannig að ákveða frá miðjunni að í héruðum skuli vera héraðsveitur eins og menn hafa nú um sinn verið að hreyfa. Eins og hv. 2. þm. Reykv. vék að hafa verið gerðar nokkrar athuganir sem hníga í þá átt í tíð forvera míns í iðnrn. Þær athuganir og önnur mál sem lúta að fjárhagslegri stöðu og skipulagi raforkuvinnslu og dreifingar eru nú til athugunar í ráðuneytinu. Þetta tengist ekki síst viðræðum sem nú fara fram á milli iðnrn., fjmrn. og fjvn. við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða um endurskipulagningu á fjárhagsgrundvelli þessara fyrirtækja með yfirtöku
ríkisins á skuldum þeirra að einhverju leyti þannig að rekstrarhæfni þeirra verði aukin.
    Þar með er ég kominn að síðari þætti tillögunnar, verðjöfnun á raforku. Ég er stuðningsmaður þess að dregið sé úr verðmun á raforku í landinu og hef á starfstíma mínum sem iðnrh. verið að vinna að því eftir því sem fjárhagsramminn leyfir. Ég hef þegar nefnt eitt mál sem stuðla mun að meira jafnræði í orkuverði, þ.e. endurskipulagningu á fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Þá vil ég minna á að nú eru veittar um 200 millj. kr. úr ríkissjóði til verðjöfnunar á raforku og Landsvirkjun veitir afslátt af raforku til húsahitunar á móti sem nemur um 100 millj. kr. Ég vil vinna að því að fá

þessar fjárhæðir nokkuð auknar, sem nemur verðbreytingum á orkunni, en jafnframt vil ég minna á að það er þörf fyrir að endurskoða sölustaðakerfi Landsvirkjunar, afhendingarstaði hennar, og vinna þannig að aukinni verðjöfnun á heildsöluverði raforkunnar því að það er ekki alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Reykv. sem reyndar er einnig stjórnarmaður í Landsvirkjun, að heildsöluverð á raforku sé jafnt um allt land. Það er það ekki. Það er rétt að það er jafnt hjá Landsvirkjun, en hins vegar háttar sums staðar svo til að sveitarfélagarafveitur taka við raforku fyrir milligöngu Rafmagnsveitna ríkisins um tiltölulega stuttar háspennulínur sem þeir telja að þeir borgi of mikið fyrir. Þetta er vel kunnugt mál.
    Ég vil freista þess að vinna að jöfnun í þessu efni og að verðið verði hið sama til allra dreifiaðila sem kaupa raforku með sambærilegu móti, þ.e. varðandi afhendingarspennu o.fl. Ég held að það sé hyggilegast að stefna að þessu í nokkrum áföngum. Í þessu felst að það þarf að skilgreina að nýju afhendingarstaðina, mörkin milli Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og bæjarveitnanna. Ég hef einmitt nú þessa daga verið að undirbúa með aðilum sem málið varðar áætlun um það hvernig hægt sé í nokkrum áföngum á nokkrum næstu árum að ná þarna meiri jöfnuði í orkuverðinu.
    Með þessum orðum, virðulegi forseti, lýk ég máli mínu um þessa þáltill. sem hreyfir þörfu máli þótt ég telji orka tvímælis að tillagan um sameiningu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins sé ótvírætt til þess fallin að stuðla á farsælan hátt að jöfnun orkuverðs í landinu.