Seðlabanki Íslands
Þriðjudaginn 21. mars 1989

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Valgerður Sverrisdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 653 frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands nr. 36 5. maí 1986.
    Nefndin hefur athugað frv. og kallað á sinn fund Geir Hallgrímsson, Eirík Guðnason og Sveinbjörn Hafliðason frá Seðlabanka Íslands, Baldvin Tryggvason frá Sambandi ísl. sparisjóða, Tryggva Pálsson frá Verslunarbanka Íslands, Stefán Pálsson frá Sambandi ísl. viðskiptabanka og Þórð Ólafsson frá bankaeftirliti Seðlabankans.
    Nefndinni hafa borist skriflegar grg. um frv. frá Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands, Verslunarbanka Íslands, Samvinnubanka Íslands, Iðnaðarbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands hf.
    1. minni hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem birtar eru á sérstöku þskj.
    Ragnar Óskarsson var fjarverandi lokaafgreiðslu málsins.
    Undir nál. 1. minni hl. rita, auk þeirrar sem hér stendur, Jóhann Einvarðsson og Karl Steinar Guðnason.
    Ég ætla þá að gera í stuttu máli grein fyrir þeim breytingum sem 1. minni hl. leggur til að gerðar verði á frv. Það er þá í fyrsta lagi að kveðið er á um kaupskyldu verðbréfasjóða á öruggum verðbréfum sem geti komið í stað samsvarandi bindiskyldu innlánsstofnana. Þá er einnig gert ráð fyrir að þær aðstæður geti skapast að bindiskylda sé sett á verðbréfasjóði eins og innlánsstofnanir.
    Eftir mikla umfjöllun í nefndinni var samkvæmt ábendingu eins nefndarmanna ákveðið að bæta inn í greinina orðunum ,,einkum ríkisskuldabréfum`` þar sem rætt er um örugg verðbréf.
    B- og c-liðir brtt. eru óbreyttir frá frv., en það þótti greinarbetra að láta þá fylgja með þannig að öll 1. gr. frv. lægi fyrir á þskj.
    2. brtt. þarfnast ekki skýringar. Hún varðar heimild til Seðlabanka Íslands að fengnu samþykki ráðherra að binda ávöxtunarkröfur verðbréfasjóða og eignarleigufyrirtækja takmörkunum.
    Í 3. brtt. er lagt til að við bætist ný grein, er verði 3. gr., sem varðar það að sérstök endurskoðunardeild starfi við bankann og að endurskoðun verði framkvæmd af Ríkisendurskoðun og skoðunarmanni sem ráðherra skipar.
    Hæstv. forseti. 1. minni hl. leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem ég hef nú gert grein fyrir.