Viðskiptabankar
Miðvikudaginn 22. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum nr. 86 frá 4. júlí 1985, um viðskiptabanka, sem ég mæli nú fyrir eins og það kemur frá hv. Ed., felur það í sér að gerðar verði nokkrar breytingar á gildandi lögum um viðskiptabanka.
    Ég geri þessar tillögur í ljósi reynslu af framkvæmd laganna frá því þau tóku gildi 1. jan. 1986. Breytingarnar miða m.a. að því að kveða skýrar á um hlutverk bankaráða við mótun stefnu bankanna, m.a. hvað varðar vaxtastefnu og ákvarðanir á þjónustugjöldum viðskiptabanka. Þá eru í frv. nánari ákvæði um fyrirgreiðslu viðskiptabankanna við einstaka viðskiptavini sína, ákvæði um starfsábyrgð stjórnenda til að girða fyrir hagsmunaárekstra og loks ákvæði sem snerta hlutfall fasteigna og búnaðar af heildareignum bankanna. Þá gerði hv. Ed. þá breytingu á frv. að 19. gr. viðskiptabankalaganna verði breytt þannig að framvegis skuli bankastjórar ráða útibússtjóra, en samkvæmt gildandi lögum er það á verksviði bankaráða.
    Ég sný mér þá að einstökum greinum frv. Í 1. gr. eru ákvæði sem skýra nánar hvað felist í þeirri takmörkun sem núgildandi viðskiptabankalög setja varðandi þátttöku bankastjóra í atvinnurekstri. Tilefni þessa er mál sem nýlega hefur komið upp og því þótti ástæða til að ákveða að hlutafjáreign, þótt ekki ráði meiri hluta, geti verið þess eðlis að í krafti hennar megi hafa veruleg áhrif á rekstur fyrirtækis, t.d. með hliðsjón af stærð eignarhlutarins eða tengslum eigandans við aðra eigendur eða stjórnendur í fyrirtæki. Í öðrum tilfellum hins vegar getur eignarhald á smáhlut í félagi, t.d. í almenningshlutafélagi, talist hrein ávöxtun sparifjár en ekki þátttaka í atvinnurekstri í skilningi bankalaganna. Hvert einstakt tilfelli hlýtur að vera háð mati og í frv. er lagt til að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skeri úr hvort hlutafjáreign brjóti í bága við þessa grein laganna.
    Í 2. gr. frv. er gerð tillaga um nýtt og nákvæmara orðalag á 4. mgr. 21. gr. viðskiptabankalaganna, um hlut bankaráðanna í mótun stefnu þeirra í vaxta- og gjaldskrármálum og varðandi reglur um hámark lánveitinga til einstakra lántakenda. Ég tel það mikilvægt að skylda bankaráðanna til að taka ákvarðanir um jafnþýðingarmikil atriði sem vexti og þjónustugjöld sé alveg ótvíræð og einkum að mótun á vaxtastefnu banka taki mið af öllum tekjum hans. Þessi tillaga felur ekki í sér breytingu á verkaskiptingu á milli bankaráða og bankastjóra. Bankastjórarnir eru framkvæmdastjórar og taka allar daglegar ákvarðanir um einstök mál. Bankaráðin móta hins vegar stefnuna í meginatriðum.
    Þá er í lögum um viðskiptabanka nú ákveðið að í 4. mgr. 21. gr. segir að bankaráð viðskiptabanka setji að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar bankans sem senda skuli bankaeftirlitinu. Um skyldu til að kveða á um hámark lána til einstakra viðskiptaaðila er hins vegar ekki að ræða í gildandi lögum. Ég tel hins vegar að það sé til bóta

og dragi úr líkunum á stóráföllum í rekstri bankanna að kveða á um skyldu bankans til þess að hafa í reglum ákvæði um hámark lána til einstakra lántakenda og tryggingar fyrir lánum. Jafnframt væru tekin af öll tvímæli um það að ábyrgðir séu settar á sama bekk hvað þetta varðar og lánveitingar.
    Þá er mælt fyrir um það í frv. að endurskoða skuli reglurnar eigi sjaldnar en árlega og bankaeftirlitið skuli láta í té álit sitt á þeim hverju sinni. Með 3. gr. frv. er stefnt að því að lögfesta reglur til að girða fyrir hagsmunaárekstra stjórnenda viðskiptabanka annars vegar og hins vegar aðila sem tengjast þeim fjárhagslega eða hagsmunalega. Í þessari grein er lagt til að bankaráðsmenn skuli ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eigi hlut í, sitji í stjórn hjá, séu fyrirsvarsmenn fyrir eða þeir eða aðilar þeim tengdir eigi að öðru leyti verulegra hagsmuna þar að gæta. Ákvæðið í frv. er hliðstætt ákvæðum sem finna má í bankalöggjöf nágrannalandanna um þetta efni, en í okkar bankalöggjöf eru ekki slík ákvæði nú.
    Þá kem ég að 4. gr. frv. Þar er lögð til sú breyting að endurskoðun ríkisviðskiptabanka skuli framkvæmd af Ríkisendurskoðun eða þeim sem hún tilnefnir og af skoðunarmanni sem ráðherra skipar í stað þess að kjósa, eins og nú er gert, skoðunarmenn ríkisviðskiptabanka á Alþingi. Þessi breyting er reyndar í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 12/1986, um ríkisendurskoðun. En samkvæmt þeim lögum heyrir nú Ríkisendurskoðun stjórnarfarslega undir Alþingi eins og kunnugt er. Tillaga þessi er flutt að ósk ríkisendurskoðanda og reyndar að tilmælum forseta þingsins.
    Þá kem ég svo að 5. gr. frv. Þar er leitast við að eyða ágreiningi um það hvernig skilja beri 1. mgr. 54. gr. laga um viðskiptabanka. Gert er ráð fyrir að virði fasteigna og búnaðar sem bankarnir nota til starfsemi sinnar verði eigi hærra en 65% af eigin fé bankanna á því aðlögunartímabili sem ákveðið var í lögunum og er nú senn á enda runnið. Í undantekningartilvikum er ráðherra þó fengin heimild til að víkja frá þessum skilyrðum 54. gr. viðskiptabankalaga. Í frv. til laga um breytingu á lögum um sparisjóði, sem ég vænti að ég fái hér
tækifæri til að mæla fyrir í deildinni í beinu framhaldi af þessu, er gert ráð fyrir samsvarandi breytingum og ég hef nú gert grein fyrir varðandi viðskiptabankalögin.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessa frv. og tel ekki þörf á að hafa þau orð öllu fleiri. Ég legg því til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.