Heræfingar varnarliðsins
Mánudaginn 03. apríl 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrir að hefja þessa umræðu og tel bæði rétt og þarft að hún sé haldin hér á þingi. Þetta er mál sem varðar bæði þing og þjóð ekki síður en hæstv. utanrrh. sem ég vona reyndar að hlýði á mál mitt. (Utanrrh.: Áreiðanlega. Hann er hér.) En hæstv. utanrrh. gegnir um stund erindrekahlutverki í utanríkismálum fyrir þjóð og þing. Því varðar miklu að ákvarðanir hans séu í samræmi við vilja þjóðar og þings. Hér í þessari umræðu birtist vilji og skoðanir þingmanna.
    Þær heræfingar sem fyrirhugaðar eru hér á landi í sumar og vakið hafa ummæli í fjölmiðlum gefa sannarlega tilefni til nánari umfjöllunar.
    Í fyrsta lagi hljóta svo fjölmennar heræfingar að vekja bæði athygli og ugg manna þar sem þær minna svo harkalega á þá staðreynd að Ísland er flækt í því hernaðarneti sem stórveldin í austri og vestri hafa lengi togast á um.
    Í öðru lagi leiða þær hugann að því hve hernaðarhyggja og hernaðarbrölt er okkur Íslendingum í raun framandi og fjarlægt. Þær heræfingar sem hér fóru síðast fram og sýndar voru í Kastljósi í fréttum á sunnudaginn, þ.e. í gær, komu mörgum spánskt fyrir sjónir og fannst mönnum þær líkjast bófahasar eða stríðsleikjum fullorðinna drengja fremur en ábyrgri hegðun þeirra sem vilja skila betri veröld til barna sinna.
    Í þriðja lagi ber upphafleg tímasetning þessara heræfinga á sjálfum þjóðhátíðardeginum vott um annaðhvort ótrúlegt dómgreindarleysi Bandaríkjamanna eða virðingarleysi gagnvart íslenskri þjóð, sjálfstæði hennar og fullveldi. Hér er um óþolandi storkun að ræða, hæstv. utanrrh., ef þú mátt vera að því að hlusta á mig.
    Í fjórða lagi mun hér um varalið að ræða, svokallaða óbreytta borgara, sem mun ætlað að verja herstöðina. Gegn hverju? Jú, mennirnir í þessum stríðsleik sem ég lýsti áðan klæddust búningum til varnar efna-, sýkla- og kjarnorkuvopnum. Hvers konar barnaleikrit er hér verið að bera á borð fyrir ósköp venjulega Íslendinga? Halda menn að sæmilega upplýst fólk hér á landi trúi því að búningar geti varið óbreytta borgara gegn kjarnorkuvopnum?
    Og þar sem ég minntist á óbreytta borgara skulum við ekki gleyma því að herlið Bandaríkjanna er hér ekki til að verja íslenska borgara heldur fyrst og fremst þá herstöð sem hér er og gegnir mikilvægu hlutverki vegna vaxandi vígbúnaðar í Norðurhöfum, enda eru Íslendingum ekki ætlaðir neinir búningar til varnar og hlutverk þeirra óbeyttu borgara sem ætlað er að koma og leika hér stríðsleik í sumar er að verja herstöðina, ekki íslenskt fólk.
    Þessi vígbúnaðarstefna, öðru nafni sóknarstefna í Norðurhöfum, hefur í för með sér aukinn fjölda kjarnorkuknúinna kafbáta sem bera að auki kjarnorkusprengjur. Af hvoru tveggja stafar mikilli ógn fyrir gjöful fiskimið okkar og mikilvæg hrygningarsvæði á landgrunni Íslands. Mönnum er það nýlega orðið ljóst að slys, t.d. einungis þannig að

kjarnorkuknúinn kafbátur missi út kælivatn sitt, gæti valdið jafnmikilli eyðileggingu og hættu og slysið sem varð í kjarnorkuverinu í Tsjernóbíl. Hvernig getum við Íslendingar valið stefnu sem beinir slíkri hættu að grundvallaratvinnuvegi okkar og þar með lífsafkomu?
    Og í fimmta lagi vil ég minna á börnin. Þykir mönnum ekki nóg komið af stríðsleikjum og ofbeldi í fjölmiðlum sem matreitt er daglega þar fyrir viðkvæmar barnssálir? Ætlar fullorðna fólkið nú að flytja þessa stríðsleiki inn á íslenskt landsvæði, fullorðna karlmenn sem leika sér í skrýtnum búningum og halda að þeir geti varist því sem engin vörn er til gegn? Hvenær verða blessaðir litlu íslensku drengirnir farnir að fá slíka búninga í jólagjöf og meðfylgjandi eiturefna- eða sýklahylki? Þeir fullorðnu gefa fordæmið.
    Síðan vil ég einnig minna enn á fréttir frá því í gærkvöldi og svo aftur í morgun, en þær greindu frá því að börn að leik hefðu fundið vélbyssuskot eða sprengjuskot í fjöru neðan við barnaskóla í Keflavík. Einhver skotanna voru talin virk og hafði lögreglan í Keflavík tekið málið í sínar hendur og bað foreldra vinsamlegast um að grennslast fyrir um það hvort börn þeirra hefðu slík skot í fórum sínum. Hvernig líst ykkur á þessar afleiðingar stríðsleikjanna, hv. þm.? Væri okkur ekki nær að gefa börnunum okkar friðsamlegri fordæmi með ákvörðunum okkar og hegðun, ákvörðunum sem við tökum fyrir þau? Væri okkur ekki einnig nær að gera Ísland að griðlandi friðar, eins og hæstv. forsrh. hefur oft minnst á, fremur en að draga það æ þéttar inn í hernaðarnet og vígbúnaðarbrölt? Það er þeim mun undarlegra athæfi að Íslendingar skuli leyfa vaxandi hernaðaruppbyggingu á landi sínu þegar tími slökunar er hafinn á milli stórveldanna og önnur lönd Evrópu leitast við að stuðla að afvopnun og losa sig við vígbúnað fremur en að auka hann. Slíkt er ekki í þágu íslenskra hagsmuna.
    Þeir menn hér á þingi sem helst aðhyllast hernaðarhyggju hafa sumir hverjir lagt mikla áherslu á að Íslendingar öðlist færni til að meta sjálfir hernaðarlegar þarfir sínar og verði dómbærir á ýmsar hernaðarframkvæmdir, fylgist með þeim og taki þátt í þeim. Sumir þessara þingmanna hafa átt aðgang að utanrrn. og getað tekið þátt í stefnumótun þar. Það er þeim mun undarlegra
að þeir skuli vera svo andvaralausir og fylgjast svo lítið og illa með að þeir láti yfir sig dynja svo ótímabæra fjölmenna heræfingu án þess að hafa lágmarksupplýsingar í höndunum fyrr en knúið er dyra hjá þeim af fréttamönnum.
    Hingað komu menn og höfðu uppi ýmis orð. Tveir hv. þm. viku sérstaklega að tali hv. þm. Kristínar Einarsdóttur sem talaði hér fyrr í kvöld fyrir hönd Kvennalistans. Það voru hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson og hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason. Mér fannst þeir báðir vera í kaldastríðsbúningunum sínum hér í kvöld og veit ekki hvað ég nenni að elta ólar við aðfinnslur þeirra og ásakanir. Þó vil ég svara hv. 8. þm. Reykv.

Aðstæðurnar voru allt aðrar þegar Atlantshafsbandalagið var myndað. Nú eru komin ný viðhorf í heiminum, önnur framtíðarsýn í kjölfar breyttra tíma og gjörólíkra vopna. Þíðan og slökunin milli stórveldanna á sér ýmsar orsakir. Veigamikil orsök þeirra er sú staðreynd að vígbúnaður og hergagnaiðnaður er orðin ánauð á ríkissjóðum stórveldanna þannig að skuldastaðan og fátæktin sem áður var fyrst og fremst hlutskipti þriðja heimsins er farin að vitja heimaslóða þessara stórvelda. Þau eiga fullt í fangi með greiðsluhalla sinn ár eftir ár. Þetta er orðið vandamál á heimaslóðum. Og þessi langvarandi greiðsluhalli hefur knúið stjórnvöld til að breyta um stefnu. Það birtist í Morgunblaðinu nú um helgina viðtal við Íslending sem hefur dvalist lengi í Bandaríkjunum, Búdda Backmann. Mér datt í hug, vegna þess að ég býst við að hv. 8. þm. Reykv. þekki þennan mann, ég þekki hann ekki sjálf, að vitna í það sem hann segir, með leyfi forseta. Spyrillinn í viðtalinu spyr: ,,Treystir þú á Reagan?`` Og viðmælandi, Búddi Backmann, svarar: ,,Í upphafi gerði ég það, en það traust hvarf fljótt. Hann lofaði að ná endum saman á fjárlögum, en fjárlagahallinn hefur aukist og margfaldast ár frá ári. Nú kennir hann demókrötum um fjárlagahallann, en sannleikurinn er sá að hann lagði aldrei fram hallalaust frumvarp til fjárlaga hvað þá að hann reyndi að fá slíkt frumvarp samþykkt. Nú vill Bush hafa möguleikann á að frysta útgjöld ríkisins á grundvelli liðins árs, öll nema útgjöld til varnarmála. Þau vill hann verðtryggja þannig að þau hækki sem verðbólgunni nemur. Verðbólgan er nú 7,2% og mitt persónulega álit er að hún aukist þegar á árið líður. Útgjöld til varnarmála eru *y2/3*y hlutar fjárlaganna og ef verðtryggja á þann hluta dylst engum ábyrgum manni að allt stefnir í aukinn fjárlagahalla en ekki minni.``
    Orð um þennan vanda hef ég oft haft yfir hér úr þessum sama ræðustól, en það er stundum öðruvísi að vitna í fólk sem aðrir þekkja. Síðan segir örlítið seinna og ég mun ekki tefja umræðuna með því að lesa nánar það sem sagt er um hin stóru vandamál Bandaríkjanna og varðar fjármálin þar: ,,Í öðru lagi má nefna kostnaðarsama hreinsun mengaðra svæða víðs vegar um Bandaríkin þar sem úrgangurinn frá kjarnorkuvopnakapphlaupinu hefur eitrað jörðina. Þessu vandamáli skaut Reagan-stjórnin á frest árum saman, enda kostar lausn þess hundruð milljóna dollara.``
    Hér er aðeins tekið eitt lítið nærtækt dæmi. Ég gæti haft yfir fleiri tölur og ástandið er svipað ef ekki verra í Sovétríkjunum. Þetta er ein af meginástæðunum eða a.m.k. ein af ástæðunum fyrir því að ráðamenn hafa verið knúnir til nýrrar hugsunar.
    Varðandi það sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði vil ég einungis segja að það er grófleg móðgun við Norðmenn að halda því fram að meðal þeirra fari ekki fram umræða og deilur um vígbúnað, herlið, þátttöku í hernaðarbandalagi og veru hers í þeirra landi. Ég veit að það fara (Gripið fram í.) fram miklar og heitar og hafa farið fram miklar og heitar umræður um þessi

mál í Noregi.
    Að lokum, hæstvirtur forseti. Í huga kvennalistakvenna er enginn vafi í þessum efnum. Íslendingar eru friðsöm smáþjóð sem aldrei hefur borið vopn á aðrar þjóðir. Hún gegnir þó veigamiklu hlutverki til áhrifa í alþjóðamálum og þar eigum við að beita okkur í þágu friðar og mannréttinda. Fyrirhugaðar heræfingar eru svo sannarlega tímaskekkja. En ég tók eftir því í fyrsta lagi að hæstv. utanrrh. sagði ,,þegar`` en ekki ,,ef`` þessar heræfingar fara fram. Þó að hann gæfi ekki upp að hann væri búinn að taka ákvörðun þá sagði þann ,,þegar`` en ekki ,,ef``. Og hann talaði um að það væri kjörið að Almannavarnir á Íslandi tækju þátt í slíkum heræfingum. Almannavarnir á Íslandi gegna allt öðru hlutverki en herliðið vegna þess að Almannavarnir eru eins og nafnið bendir til varnir fyrir almenning. Heræfingarnar varða um varnir fyrir herstöð. Þetta tvennt á í raun ekkert skylt. Almannavarnir geta haft sínar æfingar og eiga að hafa sínar æfingar alveg óháð því hvort herlið kýs að láta heræfingar fara fram eða ekki. Þessu á ekki og þarf ekki að blanda saman.
    Við kvennalistakonur viljum senda hæstv. utanrrh. skýr og skorinorð skilaboð um að leyfa ekki þessar heræfingar en beita sér þess í stað, beina kröftum sínum og áhrifum að því að draga úr vaxandi vígvæðingu Norðurhafa. Það væri þarft verk í þágu íslenskra hagsmuna.