Þinglýsingalög
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um breyt. á þinglýsingalögum, nr. 39 10. maí 1978, frá allshn. Frv. þetta er fylgifrv. málsins sem við vorum að afgreiða til 3. umr., um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Eins og nú er í lögum telst þinglýsing dómsathöfn, en eðli málsins samkvæmt er þar öllu frekar um að ræða stjórnvaldsathöfn og því var það ákveðið þegar gengið var frá þessum frumvörpum að leggja til að sýslumenn yrðu þinglýsingarstjórar. Ákvæði frv. eru því til staðfestingar þessari stefnumörkun.
    Önnur rök fyrir því að fela sýslumönnum þessa þjónustu er að það er æskilegt að hún fari fram í sem mestri nálægð við þá sem þjónustunnar eiga að njóta og þar sem sýslumannsembættin eru staðsett á miklu fleiri stöðum eru það einnig mjög veigamikil rök í þessu máli.
    Undir nál. skrifa allir nefndarmenn, en allshn. leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu einni að í 25. gr. frv. breytist ártalið 1990 í ártalið 1992 í samræmi við þá breytingu sem við vorum að gera áðan á frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds.