Lögbókandagerðir
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég hygg að hæstv. forseti fari rétt með að það er ekki alltaf sem mál eru tekið fyrir í réttri töluröð og einkanlega á það við ef það kemur ráðherrum vel að rugla dagskránni. Það hefur meira að segja gengið svo langt, þessi ruglingur forseta við þingstörf í vetur í sambandi við slíka hluti, að þó svo að mál séu eins og í Sþ. 1. mál á dagskrá og þó svo að forseti hafi slitið í sundur fyrir manni ræðu, þá hefur maður ekki fengið orðið á nýjan leik vegna þess að hæstv. forseti Sþ. kann ekki þingsköp og talar tóma vitleysu úr forsetastóli oft og einatt.
    Hitt hélt ég að hæstv. forseti skildi, að vaxtamálin eru mjög umdeild og það er veruleg ástæða til þess að ræða sérstaklega um þau mál einmitt vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur sagt mjög mikið um vextina, hefur látið í ljós alls konar markmið og lýst margvíslegum tilgangi í sambandi við vaxtamálin. Það er þess vegna fullkomin ástæða til að gera þau mál ítarlega að umræðuefni í þingdeildinni.
    Nú vill svo illa til að hæstv. forseti kýs að stjórna störfum þessarar deildar svo að þetta umdeilda mál fær ekki eðlilega umfjöllun við 1. umr. og harma ég það. Auðvitað hlýtur það að valda því að bæði umfjöllun í nefnd verður með öðrum hætti en ella mundi þar sem nauðsynlegar upplýsingar vantar frá ráðherranum og auðvitað er þetta líka vísbending um hvaða kæruleysi stjórnarmeirihlutinn hefur fyrir því að stjórnarandstöðunni sé sýnd eðlileg tillitssemi. Hitt vantar ekki að formaður þingflokks Framsfl. vill fá að láta ljós sitt skína. Þá eru opnar fyrir honum allar gáttir í Sþ. og honum leyft að tala þindarlaust. En það er eins um utanríkismálaumræðuna, sem formaður þingflokks Framsfl. efndi til í gær, og um stefnuyfirlýsingu hæstv. forsrh. sem lögð var fram eftir að þing kom saman í febrúar og forsrh. talaði fyrir í febrúar. Þá er bara einhvers staðar slitið á og eðlilegar umræður mega ekki halda áfram. (Gripið fram í.) Ég er að tala um stjórn þingsins yfirleitt.
    Ég veit ekki hvort það er meira um þetta að segja. Ég harma það að mér skyldi hafa orðið á að halda í gær að þessi mikla framtakssemi að senda þingmönnum dagskrá fundar Ed. inn á miðjan þingflokksfund væri ekki meiningarlaus og að ekki bjó á bak við það sá vilji forseta að taka málin fyrir í þeirri röð sem þar var gert ráð fyrir.