Söluskattur
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Flm. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 603 legg ég ásamt hv. 7. þm. Reykn. Júlíusi Sólnes fram frv. til l. um breytingu á lögum um söluskatt, nr. 10/1960, sbr. lög nr. 1/1988. Frv. þetta er í tveimur greinum.
    1. gr. er svohljóðandi: ,,Á eftir 1. mgr. 2. gr. laganna komi ný málsgr. svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal aðeins greiða 12% söluskatt af eftirtöldum vöruflokkum: fiski og fiskmeti, kjöti og unnum kjötvörum, mjólk og unnum mjólkurafurðum, eggjum, brauði, grænmeti og ávöxtum. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar málsgr. svo og bókhald og söluskattsframtal þeirra sem versla með þessar vörur.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Með frv. þessu er lögð til veruleg lækkun á söluskatti helstu nauðsynjavara heimilanna. Þó er ekki gengið það langt að fella niður allan söluskatt á matvörum eða undanskilja matvöru söluskatti heldur farin sú leið að ákveðnir vöruflokkar sem tilteknir eru í frv. beri annan og lægri söluskatt en almenna reglan í 1. málsgr. mælir fyrir um. Miðað er við að þessir tilgreindu vöruflokkar beri 12% söluskatt. Er þarna um að ræða sömu söluskattsprósentu og greidd er af sérfræðiþjónustu, sbr. III. kafla laganna. Í raun er því ekki verið að búa til nýtt söluskattsþrep heldur einungis verið að færa ákveðna vöruflokka frá hinu almenna söluskattsþrepi yfir í sérstakan söluskatt sem samkvæmt lögunum er 12%.
    Með lögum nr. 1/1988 sem breyttu lögum nr. 10/1960, um söluskatt, var ákveðið að allar vörur skyldu bera jafnháan söluskatt og þá um leið horfið frá því meginsjónarmiði, sem ríkt hafði áratuginn þar á undan, að leggja ekki söluskatt á lífsnauðsynjar. Það er óvefengjanleg staðreynd að söluskattur á lífsnauðsynjar bitnar harðast á tekjulægri þjóðfélagshópunum af þeirri einföldu ástæðu að þeir hópar eyða hlutfallslega meira af tekjum sínum til kaupa á matvöru en hinir tekjuhærri. Einkum og sér í lagi á þetta við hér á landi þar sem framleiðslukostnaðarverð er hátt og skatturinn er stór hluti matvælaverðsins. Eru aðstæður hér á landi því ekki sambærilegar við t.d. Danmörku þar sem framleiðslukostnaður matvöru er lágur. Varan þar getur borið skatt án þess að vera mjög íþyngjandi fyrir tekjulægstu þjóðfélagshópana.
    Þrátt fyrir miklar niðurgreiðslur af hálfu ríkisins er það óhrekjanleg staðreynd að verð matvæla er óhóflega hátt hér á landi. Brýna nauðsyn ber því til að það lækki verulega. Tvær leiðir eru færar í því efni. Annars vegar að draga úr framleiðslukostnaði og hins vegar að ríkisvaldið annaðhvort auki enn frekar niðurgreiðslur eða felli niður gjöld sem það setur á þessar lífsnauðsynjar.
    Með frv. þessu er lagt til að ríkisvaldið lækki söluskatt á ákveðnum vörutegundum matvæla og lækki þannig matarverð. Auðvitað væri æskilegra að lækka framleiðslukostnaðinn með gagngerri uppstokkun á landbúnaðarkerfinu eða með meiri hagræðingu í búrekstri, en þegar ríkisvaldið tekur framleiðendur

fram yfir neytendur og heldur uppi verndarstefnu gagnvart þeim er það sjálfsögð krafa neytenda að ríkisvaldið tryggi að sú vara sem nýtur þessara forréttinda verði seld á viðunandi verði.
    Á það ber einnig að líta að besta kjarabót launþega eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu er lækkun útgjalda, sérstaklega fyrir tekjulægri þjóðfélagshópana. Fyrir þá skiptir verð helstu nauðsynjavara meira máli en óveruleg hækkun launa. Almennar og miklar launahækkanir á því samdráttarskeiði sem íslenskt þjóðfélag gengur nú í gegnum eykur aðeins á vandann sem við er að etja og breikkar enn meir bilið á milli þeirra tekjuhærri og tekjulægri í þjóðfélaginu. Almenn lækkun brýnustu nauðsynja verkar með öðrum hætti á kjör fólks. Í stað þess að breikka bilið á milli launþega leiðir hún til tekjujöfnunar og réttlátari skiptingar á þjóðartekjunum.
    Helstu rökin á móti lækkun söluskatts á matvæli eru minni tekjur fyrir ríkissjóð af þessum skattstofni og erfiðara eftirlit með skilum á söluskatti. Það sem vinnst er hins vegar aukinn kaupmáttur og minni þrýstingur á hækkun launa. Að lækka söluskatt úr 25% í 12% á þeim vörutegundum sem frv. þetta gerir ráð fyrir þýðir að ríkissjóður tapar í tekjum sem nemur 2539 milljónum á einu ári, og vísa ég í því sambandi til töflu sem er á bls. 3 í grg. frv.
    Með frv. er gengið út frá því að niðurgreiðslur haldist óbreyttar og lækkunin komi að fullu neytendum til góða. Búast má hins vegar við því að þeir peningar sem losna hjá heimilunum með lækkun á matvöru fari til kaupa á öðrum söluskattsskyldum vörum og dragi þannig úr tekjutapi ríkissjóðs. Einnig má gera ráð fyrir að lækkun á verði til landbúnaðarafurða hafi í för með sér aukna sölu og minnki á þann hátt þörfina á ýmsum styrkjum til landbúnaðarins sem nú eru greiddir, svo sem útflutningsbótum og geymslukostnaði.
    Þau rök sem hafa verið sett fram fyrir einu söluskattsþrepi í matvöruverslun eru að eftirlit með skilum verði auðveldara. Á því eina ári sem lög nr. 1/1988 hafa gilt hefur hins vegar komið í ljós að aldrei hafa verið eins léleg skil á söluskatti og það ár. Að mati flm. frv. skiptir það ekki höfuðmáli hve þrepin
í söluskatti eru mörg heldur hvernig eftirlitinu er háttað og hvaða viðurlögum þeir sæta sem skila ekki innheimtum söluskatti. Reynsla nágrannaþjóðanna sýnir að það eitt út af fyrir sig að hafa eitt söluskattsþrep leysir ekki vandann ef eftirlitið vantar.
    Ég hef nú gert grein fyrir þessu frv. og lesið upp greinargerðina með því þar sem helstu rökin fyrir lækkun úr 25% í 12% söluskatt eru tíunduð. Ég held að það sé alveg augljóst nú, þegar kjarasamningar eiga sér stað, að ríkisvaldið þurfi að koma inn í þá kjarasamninga með einum eða öðrum hætti. Og ég tel að til þess að kollvarpa ekki þjóðfélaginu þurfi ríkisvaldið að gera það með þessum hætti. Þá hlýtur sá þáttur sem hér er mælt fyrir um, að lækka söluskattinn, að koma mjög til greina. Raunar tel ég að þetta sé það réttasta í stöðunni eins og hún er í

dag.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv., en vil að lokinni þessari umræðu mælast til þess að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr.