Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegi forseti. Hér hefur hv. þm. Salome Þorkelsdóttir mælt fyrir frv. til laga sem hefur í för með sér breytingu á þeim kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt sem fjallar um rétt til húsnæðisbóta. Eins og fram kom í ræðu flm. hér áðan eiga rétt til húsnæðisbóta þeir sem kaupa, byggja eða eignast á annan hátt í fyrsta sinn íbúðarhúsnæði til eigin nota. Húsnæðisbætur eru sem sagt bundnar því að sá sem þær fær sé að eignast húsnæði í fyrsta sinn.
    Nú gerist það þó af og til eins og hv. þm. þekkja að íbúðarhúsnæði er úrskurðað óhæft til íbúðar og eigendur verða að byggja eða kaupa nýtt húsnæði. Vissulega eru í slíkum tilvikum veitt sérstök lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins til þess að létta þann vanda sem eigendur húsnæðisins standa frammi fyrir. En oft er um að ræða efnalítið fólk sem á erfitt með nokkra fjármögnun framkvæmda sjálft auk þess sem greiðslubyrði skammtímalána sem fengin eru á kaup- eða byggingartíma íbúða reynist oft þung.
    Lög um tekjuskatt og eignarskatt gera ráð fyrir og viðurkenna erfiðleika þeirra sem eru að kaupa eða byggja húsnæði í fyrsta sinn, en vandi þeirra sem verða að kaupa eða byggja af þeim ástæðum sem nefndar eru í frv. sem hér er til umræðu er hins vegar ekki viðurkenndur á sama hátt. Á því tekur frv. hv. þm. Salome Þorkelsdóttur.
    Hvort þessi breyting hefur í för með sér mikinn kostnað verður að skoða. Ég tel þó afar ólíklegt að það sé þar sem hver sá sem nú á rétt á húsnæðisbótum fær aðeins um 38 þús. kr. á ári og sá hópur sem á ári hverju missir húsnæði sitt af þessum ástæðum er ekki stór og upphæðin sem um ræðir ekki há, en getur þó skipt það fólk sem hér um ræðir verulegu máli. Ég fagna þess vegna að málinu sé hreyft hér og kann hv. flm. þakkir fyrir.
    Virðulegi forseti. Þau eru mörg málin flutt hér í hv. deild sem eru til hagsbóta og leiðréttingar á kjörum fólksins í landinu. Sum frv. til laga á mörgum blaðsíðum, flutt og rædd af hv. þm. með hávaða og látum, fá mikla og langa umræðu. Þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér og ekki hefur hávaði eða fyrirgangur einkennt málflutning hv. flm. Þó er hér um að ræða engu minna réttlætismál en þau sem athygli hv. þm. eiga og fjölmiðla. Ég vona að viðvera þingmanna hér og þátttaka í umræðunni sé ekki til marks um framgöngu þessa máls hér í þinginu.