Geislun grænmetis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Áður en ég svara fsp. beint vil ég hafa að því nokkurn formála. Geislun matvæla hefur nú um árabil verið rannsökuð mjög nákvæmlega hjá mörgum alþjóðlegum matvælastofnunum. Það er einróma niðurstaða að séu matvæli geisluð á tilskildan hátt sé hér um að ræða mjög örugga aðferð við að eyða ýmsum sjúkdómsvöldum úr matvælum. Hættan á að skaðlegir geislar verði eftir í matvælunum sé engin ef rétt er að málunum staðið. Það er því erfiðleikum bundið að mæla eða athuga hvort varan hafi verið geisluð eða ekki því geislunin skilur í raun engin merki eftir sig sem auðvelt er að mæla ef rétt er að hlutunum staðið.
    Geislun er aðferð sem líkja má við gerilsneyðingu eða djúpfrystingu og þar verða einnig mjög óverulegar breytingar á innihaldi eða næringargildi, t.d. varðandi fitu, eggjahvítu og vítamín. Þrátt fyrir að geislun hafi almennt verið viðurkennd sem mjög örugg aðferð hefur hún náð tiltölulega mjög takmarkaðri útbreiðslu. Bæði er að mjög erfitt hefur reynst að fá almenning til að trúa að aðferðin sé skaðlaus því geislun matvæla er lögð að jöfnu við geislavirkni eða mengun frá kjarnorkuverum sem er auðvitað ekki tilfellið, en einnig kemur til að aðferðin er dýr og ekki á margra færi að koma sér upp nauðsynlegum búnaði. Heilbrigðisyfirvöld í mörgum löndum hafa einnig verið treg til að viðurkenna aðferðina almennt þar sem talið er að það megi leyna lélegu hráefni eða slæmum framleiðsluháttum með notkun hennar.
    Aðallega hefur aðferðin verið notuð erlendis við að eyða gerlum í kryddi, en sú vara er þekkt fyrir að innihalda of hátt gerlamagn af illviðráðanlegum orsökum og stundum hafa matareitranir verið raktar til notkunar mengaðs krydds. Eldri aðferð við að minnka gerlamagn í kryddi er víða bönnuð, en felst í notkun efnasambanda sem talið er að geti skilið eftir leifar sem skaðlegar séu heilbrigði manna. Geislun krydds er því almennt talin miklu betri valkostur en efnasambandaaðferðin. Í nokkrum löndum eru matvæli eins og kartöflur og laukur geisluð og þá fyrst og fremst til að hamla gegn spírun. Hér gildir líka það sama, að það er mun betri aðferð að geisla vöruna í þessu skyni en nota ýmis efnasambönd til að ná sama árangri.
    Í einstaka tilfellum hafa matvæli eins og alifuglar, rækjur, froskalappir og fiskur verið geisluð til að hafa stjórn á sýklum og auka geymsluþol. Ávextir, svo sem mangó, jarðarber og sveppir, hafa verið geislaðir til að eyða skordýrum og auka geymsluþol og sama má segja um kornmeti, svo sem hrísgrjón, hveiti og kakóbaunir.
    Við skoðun á gögnum sem fyrir liggja hjá Hollustuvernd kemur í ljós að hvergi er minnst á lönd sem leyfa að staðaldri að venjulegt grænmeti, gulrætur, rófur, hvítkál o.s.frv., sé geislað.
    Varðandi löggjöf hér má segja að á Íslandi hafi ekki verið tekin afstaða til þess hvort leyfa skuli innflutning á geisluðum matvælum. Fylgst hefur verið

með þróun mála á Norðurlöndunum og í Danmörku er til reglugerð frá 1985, en í löggjöf hinna Norðurlandanna er ekki mikið að finna um þetta efni. Á vegum Norðurlandaráðs hefur starfað fastanefnd um matvælamálefni og á fundum ársins 1987 var mótuð eftirfarandi stefna í þessu sambandi: Mælt er með að aðferðin, þ.e. geislun matvæla, verði notuð sem allra minnst þar sem með geislun megi leyna aldri matvælanna og óhreinlegum aðstæðum á framleiðslustað eða notkun lélegs hráefnis. Ekki virðist þörf á að leyfa notkun aðferðarinnar á Norðurlöndum nema vegna kryddvara og til að útbúa vissan dauðhreinsaðan mat fyrir sjúkrahús. Geislun matvæla í sjálfu sér virðist óskaðleg fyrir neytendur.
    Varðandi svör við fsp. beint vil ég segja þetta:
    1. Er geymsluþol innflutts grænmetis aukið með geislun og sé svo, hvers konar geisla er hér um að ræða? Svar: Ekkert er vitað til þess að geymsluþol innflutts grænmetis sé aukið með geislun í framleiðslulandinu og það er ekki gert hérlendis. Í þessu sambandi skal þó bent á að unnið er að því að komið verði upp innflutningseftirliti á vegum Hollustuverndar ríkisins eins og kveðið er á um í lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    2. Hefur geislun grænmetis skaðleg áhrif á heilsu manna? Svar: Ekkert bendir til þess að neysla geislaðs grænmetis geti skaðað heilsu manna. Þvert á móti er þessi aðferð oft notuð til að eyða skaðlegum örverum, svo sem bakteríum og sveppum, sbr. það sem að framan hefur verið sagt.
    Að lokum skal svo á það bent að gefnu tilefni að ofangreind lög nr. 81/1988, um Hollustuvernd ríkisins, falla undir heilbr.- og trmrn. og það fer með yfirstjórn þessara mála samkvæmt þessum lögum og ber því í raun og veru aðgerðaskyldu gagnvart því efni sem hér er spurt um þó að það hafi verið landbrh. sönn ánægja að svara þessari fsp.