Endurnýting á ónýtum bifreiðum
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):
    Hér er til umræðu fsp. til hæstv. iðnrh. um endurnýtingu á ónýtum bifreiðum. Eins og menn vita er það viðurkennt vandamál hve mikið safnast fyrir af hvers konar úrgangi sem erfitt er að koma í lóg. Eitt af því fyrirferðarmesta eru ónýtar bifreiðar. Það er því mikil þörf á því að mörkuð verði stefna í því hvort hægt er að nota þessar ónýtu bifreiðar til einhverra hluta og hvernig á að gera það. Það hefur verið rætt um að pressa þá og koma þeim í brotajárn, en það eru fleiri möguleikar fyrir hendi og ég bendi á það að hugsanlegt væri t.d. að sökkva þeim í sjó og búa til skjól fyrir ungviðið hér á grunnmiðum eins og hefur verið gert við úrgangshluti erlendis. Það þarf auðvitað að gera mjög ítarlega úttekt á slíkum málum. Það er mjög mikilvægt að hægt verði að nýta þessa hluti og koma þeim þannig fyrir með sem hagstæðustum hætti að öllum komi til góða.
    Spurt er: ,,Hver er stefna iðnrh. í endurnýtingu á ónýtum bifreiðum?``