Ábyrgð vegna galla í húsbyggingum
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svörin og þær eftirgrennslanir um þetta mál sem hann hefur látið gera. Ég sé á þessum svörum að það virðist ekki hafa verið vanþörf á að hreyfa þessu máli. Því miður hefur af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ekki verið unnið að því og tel ég það mjög miður vegna þess að málið er brýnt og brýnt að eyða óvissu í þessum efnum. Tillagan fjallaði einfaldlega um það að ríkisstjórnin skipaði nefnd til þess að endurskoða gildandi lög sem fjalla um ábyrgð þeirra er tengjast húsbyggingum. Tillagan er í fullu gildi og ég vil beina því til ríkisstjórnarinnar og þá forsrn. sem þessi tillaga mun hafa verið send, og það hefur verið gengið úr skugga um það hér á Alþingi að þessi tillaga hefði verið send héðan frá hv. Alþingi eins og aðrar tillögur sem samþykktar eru, að gengist verði fyrir því að þessi nefnd verði skipuð eins og þessi þál. gerir ráð fyrir því að auðvitað er hún í fullu gildi.
    En eigi að síður, ég þakka fyrir svörin og það var svo sannarlega ekki að ófyrirsynju að bera fsp. fram.