Bann við kjarnavopnum
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Það hefur lengi verið yfirlýst stefna Íslendinga að hér skuli ekki leyfð kjarnorkuvopn og kemur sú yfirlýsta stefna fram á mörgum stöðum, m.a. í umræðum hér á Alþingi 16. apríl 1985 þegar þáv. utanrrh. Geir Hallgrímsson sagði sem svar við fsp. um stefnu okkar: ,,Það er skýr stefna ríkisstjórnar Íslands að kjarnorkuvopn séu ekki geymd hér á landi og tekur hún einnig til herskipa í íslenskri lögsögu.`` Hann segir einnig síðar, með leyfi forseta, þegar verið er að spyrja um komu herskipa hingað til lands e.t.v. með kjarnorkuvopn: ,,Fullljóst er að sigling herskipa með kjarnorkuvopn um íslenska lögsögu er óheimil og þá jafnframt koma þeirra til hafna hérlendis og mun ég framfylgja þeirri stefnu.``
    Í ályktun Alþingis um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum frá 23. maí 1985 segir, með leyfi forseta: ,,Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því sem liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu.``
    Þann 20. okt. 1987 sagði þáv. utanrrh. Steingrímur Hermannsson m.a., með leyfi forseta, á Alþingi: ,,Það er margyfirlýst stefna okkar Íslendinga að hér á landi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn. Það hafa fjölmargar ríkisstjórnir gert.``
    Jafnframt segir hann síðar í umræðunni. ,,Ég staðfesti það, sem ég hef áður sagt, að mér sýnist að allar gerðir, öll orð, allt sem frá okkur hefur komið sé afdráttarlaust og geri engan greinarmun á friðar- eða ófriðartímum.``
    Og þann 10. nóvember sama ár segir hæstv. utanrrh. þáv.: ,,Ég lít svo á að samþykkt Alþingis frá maí 1985 sé afgerandi. Hún lýsir Ísland kjarnorkuvopnalaust og það er afdráttarlaust og engir fyrirvarar þar gerðir.``
    Og þann 3. desember segir utanrrh. þáv. jafnframt: ,,Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda hefur það komið greinilega fram í ræðum mínum að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn, hvorki á friðar- né ófriðartímum.``
    Jafnframt hefur núv. forsrh. á fundi á Hótel Borg fyrir skömmu staðfest þetta sama þannig að þetta er líka að því er virðist stefna núv. ríkisstjórnar. Þann 3. desember segir hins vegar utanrrh. í lok máls síns sem svar við ákveðinni fsp.: ,,Hins vegar hef ég kannað innan Atlantshafsbandalagsins og fengið upplýst að þeim er mjög vel kunnugt um þessa ákvörðun íslenskra stjórnvalda.``
    Það hefði kannski ekki verið mikil ástæða til fyrirspurnar nema að ég hef það eftir heimildum sérfróðra íslenskra aðila um utanríkis- og varnarmál að hjá NATO sé ekkert mark tekið á orðum íslenskra ráðherra og samþykktum Alþingis þess efnis að Ísland skuli vera kjarnorkuvopnalaust og ekki megi fara með kjarnorkuvopn inn í íslenska landhelgi og lofthelgi.

    Mér finnst mjög nauðsynlegt að öllum sé ljós stefna Íslendinga og því hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. utanrrh. á þskj. 629 sem hljóðar svo:
    ,,Hvernig hefur af Íslands hálfu verið komið á framfæri á alþjóðavettvangi, m.a. við Atlantshafsbandalagið og Bandaríkjastjórn, afstöðu Alþingis og íslenskra stjórnvalda varðandi þá stefnu að á Íslandi skuli ekki geymd kjarnavopn?``