Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég álít að það sé ein af höfuðskyldum þess þingmanns sem situr í stóli forseta sameinaðs Alþingis að sjá um það að eðlilegar umræður geti átt sér stað í þinginu um efnahagsmál. Það var ekki séð um það þegar umræður fóru hér fram um yfirlýsingu hæstv. forsrh. eftir að þing kom saman eftir áramótin eins og ég hef áður rakið. Það sem ég fór fram á við hæstv. forseta var það að forseti gerði hlé á þessum fundi þannig að hæstv. forseti geti ásamt forsetum deilda rætt við stjórnarandstöðuna um vinnubrögð á þinginu í þessari viku. Það er algjörlega óþolandi að settur forsrh. eða sitjandi forsrh., hvað viljum við hann kalla, geti gefið yfirlýsingar um gengisfellingu í kjölfar kjarasamninga sem fjmrh. gerir án þess að þingmenn geti komið einhverjum athugasemdum og spurningum að. Það er fullkomlega óþolandi og ekki í neinu samræmi við þær hefðir sem hafa skapast á þinginu og get ég mjög gjarnan farið yfir þingtíðindi undanfarin ár með hæstv. forseta til að staðreyna að sanngjörnum óskum stjórnarandstöðu um efnahagsumræður af tilefni sem þessu hafa ævinlega verið leyfðar hér í þinginu.
    Hins vegar get ég vel skilið að þessi ríkisstjórn, eins og nú er komið, skuli ekki vilja leyfa umræður um atvinnumálin. Það get ég vel skilið. Það væri kannski líka meiri ástæða fyrir hæstv. utanrrh. til að ætla sér einhvern tíma á morgun til að tala út við hæstv. menntmrh. þannig að maður geti fengið að heyra hvaða skoðanir hæstv. menntmrh. hefur á þeim ummælum sem t.d. hæstv. utanrrh. lét hafa eftir sér í fjölmiðlum í kvöld. Ég held að þetta sé alveg óhjákvæmilegt.