Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég vil að það komi fram að við þingmenn Sjálfstfl. höfðum hugsað okkur að biðja um umræður um efnahagsmál í dag að gerðum samningum við opinbera starfsmenn og hversu staða sjávarútvegsins er og töldum að sú umræða gæti vel fallið innan þess ramma sem þingmenn Kvennalistans höfðu markað og af þeim sökum báðum við ekki um utandagskrárumræður í dag um efnahagsmál. Ég hygg að þingmenn hljóti að vera sammála um að það var tímasparnaður að því að sameina þessar umræður. Ég er alls ekkert á móti því að umræður geti haldið áfram þannig að aðrir þingmenn tali þann tíma sem hæstv. sjútvrh. er á leiðinni fyrir Hvalfjörð, síður en svo. En þegar ég kom í salinn lá það ljóst fyrir að enginn maður var á mælendaskrá og af þeim sökum tók ég til máls meðan umræður héldu áfram milli hv. þm. Friðriks Sophussonar og Guðrúnar Helgadóttur.
    Ég held líka að það hljóti að vera rétt vinnubrögð á Alþingi nú sem áður, ef staða af þessu tagi kemur upp, að þingmenn tali við forseta og reyni að finna lausn á því hvernig umræðum skuli hagað.