Almenn hegningarlög
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og auðvitað er það svo, eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Reykv., sem hefur starfað lengi að þessum málum og þekkir vel öll þau sjónarmið sem uppi eru í sambandi við þessi viðkvæmu mál, að í þessu frv. eru álitamál.
    Fyrsta álitamálið sem hv. þingmaður nefndi er hvort gerður skuli sá stigsmunur, sem fram kemur í 8. og 9. gr., og gert upp á milli að því er varðar blóðskyldleika. Nú er það ljóst að um mikla refsingu er að ræða í báðum tilvikum þannig að fram kemur mjög strangt mat á slíkum afbrotum. En þá kemur upp spurning í þessu sem öðru sem eru hin almennu siðferðislegu viðhorf sem ríkja. Út frá því taldi ég rétt að greina þarna á milli. Hitt er svo annað mál og um það má að sjálfsögðu deila. Aðalatriðið er þó að litið er mjög alvarlega á slík brot bæði að því er varðar 8. og 9. gr., þó að stigsmunur sé þar á milli.
    Að því er varðar 12. gr. núgildandi laga er það að sjálfsögðu álitamál hvort hún skuli haldast eður ei. Hins vegar getur það verið mikilvægt að dómstólar hafi slíka heimild og það þarf að sjálfsögðu að meta það. Ég taldi þó rétt að þessi grein væri áfram í lögunum en viðurkenni hins vegar að það er að sjálfsögðu álitamál eins og svo margt annað í frv.
    Í upphafi 13. gr. stendur að 206. gr. orðist svo: ,,Hver sem stundar vændi sér til framfærslu eða hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra skal sæta fangelsi allt að fjórum árum.`` Ég er þeirrar skoðunar að þetta skuli vera í lögum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að um er að ræða mál sem bæði er viðkvæmt og á eru margar hliðar en tel að þetta sé í samræmi við þá almennu siðferðislegu vitund sem er í okkar landi og tel nauðsynlegt að hún komi fram með þessum hætti í okkar löggjöf. Ekki vegna þess að ég sé því fylgjandi eða að það sé einhver refsigleði sem þar liggur að baki, heldur er það sú fullvissa mín að slík siðferðileg vitund eigi að koma fram í löggjöfinni.
    Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið og geri mér grein fyrir því að þetta mál þarf að ræða í nefnd og taka þessi álitamál þar til umræðu og kalla á aðila sem hafa sett sig inn í þessi mál. Ég vænti þess að nefndin geti náð um það samstöðu að afgreiða þetta mál á þessu þingi ef nokkur kostur er. Það er mjög mikilvægt að löggjöf sem þessi sé ekki lengi til umfjöllunar, heldur sé komið á vissu að því er þetta varðar og það komi skýrt fram að það sé vilji löggjafans að almennt sé tekið strangar á slíkum málum í þeirri von og trú að slíkur boðskapur frá löggjafarvaldinu geti orðið til þess að draga verulega úr slíkum brotum.
    Tilgangur frv. er að draga úr þessum alvarlegu brotum en ekki að refsa þeim enn meir sem eru svo ógæfusamir að lenda í þeim.