Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir þátttöku í þessum umræðum.
    Það sem ég var að reyna að benda á var að það væri sjálfsagt að skoða þessi mál vandlega, hvort við værum brotlegir í augum annarra þjóða og stæðum ekki við samninga okkar á alþjóðavettvangi. Á hitt leyfði ég mér að minnast að það væri e.t.v. svo í því fámenni sem hér er hjá okkur að við þyrftum stundum að hafa fleiri en eitt hlutverk á hendi. Og þess vegna --- þó að við ræktum allar okkar skyldur samkvæmt alþjóðasáttmálum --- væri ekki óeðlilegt að mál þróuðust með nokkuð sérstæðum hætti í okkar norðlæga eyríki.
    Hitt er svo annað mál að það má endalaust fjalla um hvort það eigi ekki að gæta enn meiri varúðar við að skipta störfum niður á menn. Það má t.d. benda á það hvort það sé ekki gagnrýni vert að hæstv. ráðherrar hafa á hendi bæði löggjafarvald og framkvæmdarvald samtímis. Svona má ræða málin og fara út í saumana jafnvel þar sem við teljum að réttlæti sé fullnægt.