Skógrækt
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um skógvernd og skógrækt á þskj. 772, 412. máli. Frv. þessu er ætlað að koma í stað gildandi laga um skógrækt sem eru nr. 3/1955, með síðari breytingum, en þær eru einkum viðaukalög nr. 22/1966 sem kveða á um skjólbeltaræktun og styrki til hennar, svo og lög nr. 76/1984 sem fjalla um ræktun nytjaskóga á bújörðum.
    Fyrir um 10 árum síðan skipaði landbrh. nefnd til að endurskoða lög nr. 3/1955, um skógrækt. Vann sú nefnd um tíma að endurskoðun laganna en lauk ekki störfum. Nokkru síðar var endurskoðun laganna tekin upp að nýju í samvinnu við starfsmenn Skógræktar ríkisins, landbrn., Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands, og er frv. þetta árangur þeirrar samvinnu.
    Frv. um þetta efni, frv. til laga um skógvernd og skógrækt, var fyrst lagt fram á 108. löggjafarþingi og síðan á hverju þingi síðan án þess að hljóta afgreiðslu. Frv. þetta hefur einkum það markmið að fella saman áðurnefnda þrjá lagabálka sem fjalla um skógrækt og skógvernd í ein heildstæð lög. Jafnframt felur frv. í sér breytingar á gildandi löggjöf eins og nánar verður rakið hér á eftir, enda hafa breyttar aðstæður leitt af sér nokkur nýmæli og breytingar á gildandi löggjöf.
    Orðskýringar í 2. gr. frv. eru nýmæli, en þar er að finna skilgreiningu nokkurra hugtaka sem koma fyrir í texta. Í 1. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um að aðalstöðvar Skógræktar ríkisins skuli vera á Fljótsdalshéraði. Ákvæði þetta er sett til samræmis við ályktun Alþingis frá 11. maí 1988, en þar er gert ráð fyrir flutningi aðalstöðva Skógræktar ríkisins í áföngum í samráði við skógræktarstjóra og starfsmenn stofnunarinnar. Þess má geta að þessi merka ályktun Alþingis frá 11. maí á síðasta ári var samþykkt hér samhljóða í virðulegu sameinuðu Alþingi. Til samræmis við þetta hefur verið bætt í frv. ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að flutningi aðalstöðva Skógræktar ríkisins á Fljótsdalshérað skuli vera lokið fyrir 1. jan. 1992, gefið sem sagt þetta tímabil til þeirra breytinga. Frá og með þeim tíma eiga aðalstöðvar Skógræktar ríkisins samkvæmt frv. og samkvæmt skilgreiningu að vera komnar á Fljótsdalshérað. Jafnframt er í 4. gr. kveðið á um samvinnu, rannsóknir, kennslu og leiðbeiningar á þessum sviðum, um skógvernd og skógrækt, í samstarfi við aðra aðila sem fara með þau mál og er það nýmæli.
    Í 5. gr. frv. er kveðið á um að Skógrækt ríkisins skuli hafa þriggja manna stjórn og er það einnig nýmæli. Gert er ráð fyrir að Stéttarsamband bænda, Skógræktarfélag Íslands og fastir starfsmenn Skógræktar ríkisins tilnefni hver um sig einn mann í stjórn Skógræktar ríkisins en ráðherra velji formann stjórnar.
    Þá er og nýmæli að í frv. er gert ráð fyrir tímabundinni ráðningu skógræktarstjóra, lengst til sex ára í senn. Er sú breyting í raun til samræmis við það

sem komið hefur inn í löggjöf í nokkrum tilvikum á síðustu árum, að horfið er frá ótímabundinni ráðningu í stöður af þessu tagi en innsett ákvæði um tímabundna ráðningu til tiltekins tíma, gjarnan sex ára.
    Í 7. gr. er einnig gert ráð fyrir því að við Skógrækt ríkisins starfi sérmenntaðir starfsmenn í samræmi við skipulag stofnunarinnar er hafi háskólapróf eða próf frá skógtækniskóla.
    Gert er ráð fyrir að sérmenntaðir starfsmenn Skógræktar ríkisins hafi með höndum rannsóknaverkefni, áætlanagerð, eftirlit með skógum á ákveðnum afmörkuðum svæðum landsins og eignaumsýslu fyrir Skógrækt ríkisins.
    Áttunda gr. frv. er að ýmsu leyti skýrar orðuð en núgildandi 14. gr. skógræktarlaga. Í 1. mgr. þeirrar greinar er gert ráð fyrir að skógræktarstjóri geti einn veitt undanþágu frá banni við því að búfé sé beitt á friðað skóglendi í stað skógræktarstjóra og skógarvarða eins og núgildandi ákvæði er orðað.
    Í 4. mgr. 9. gr. frv. er að finna nýmæli sem ætlað er að stemma stigu við því geigvænlega tjóni sem hreindýr geta valdið á ungskógi í skógræktargirðingum á Austurlandi. Lagt er til að ríkissjóður bæti tjón sem skapast af völdum hreindýra samkvæmt mati dómkvaddra manna náist ekki samkomulag um bætur. Það er nú skaði, herra forseti, að hæstv. menntmrh. skuli vera nýgenginn úr salnum þegar þetta merka ákvæði sem meiningin er að setja inn í skógræktarlög um ágang af völdum hreindýra er hér kynnt, en eins og kunnugt er heyrir hreindýrabúskapur í landinu undir hæstv. menntmrh. En þetta nýmæli er sem sagt sett inn í lögin að gefnu tilefni. Gengur þá hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson fram hjá ræðustólnum en hann hefur gjarnan haft skoðun á hreindýrabúskap landsmanna sömuleiðis.
    Í 11. gr. frv. eru nýmæli sem að sumu leyti eru til komin vegna ábendinga frá Stéttarsambandi bænda fyrir hönd ýmissa bænda sem hyggja á nytjaskógrækt. Þar er gert ráð fyrir heimild fyrir sveitarstjórn til að setja reglur um vörsluskyldu búfjár og skiptingu kostnaðar sem af því leiðir þegar þannig háttar að stór landsvæði, svo sem heilar sveitir eða sveitahlutar, eru tekin til skógræktar. Minna má á í þessu sambandi að fyrir þinginu liggur lítils háttar breyting á búfjárræktarlögum sem er mjög í sama anda og færir
sveitarstjórnum lagaheimildir til hliðstæðra takmarkana þannig að segja má að þessar lagagreinar séu næsta samhljóða í því tilviki sem friðun landsins væri vegna skógræktar.
    Í 2. mgr. 12. gr. frv. er nýmæli sem gerir ráð fyrir að skógræktarstjóri leggi fyrir Alþingi fimm ára áætlun um friðun skóglenda þegar yfirvofandi hætta er á að slíkt skóglendi eyðist og alger friðun þess fyrir beit er nauðsynleg að mati skógræktarstjóra.
    Í 13. gr. frv. er nýmæli þar sem kveðið er á um fortakslausa skyldu eigenda eða notenda skóglendis til að takmarka svo notkun þess að landið rýrni ekki að stærð né gæðum. Jafnframt er skylt að hlífa nýgræðingi trjágróðurs. Í 14. gr. er kveðið á um bann við skógarhöggi án samþykkis Skógræktar ríkisins og

er ákvæði þetta til muna fortakslausara en sambærileg ákvæði gildandi laga. Jafnframt hefur greinin að geyma nýmæli um skyldur til að rækta skóg í stað þess sem höggvinn er.
    Í 15. gr. frv. er nýmæli sem gerir ráð fyrir að gróðurverndarnefndir sem starfa samkvæmt lögum nr. 17/1965, lögunum um landgræðslu, geti haft frumkvæði að sérfræðilegu mati á ástandi og meðferð skóglendis. Þá er gert ráð fyrir að skógræktarstjóri geti leitað til nefndanna og óskað eftir skýrslu um ástand og meðferð skóglendis. Þá er það og nýmæli í 17. gr. frv. að gert er ráð fyrir að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins hafi samvinnu um friðunaraðgerðir þegar þannig háttar að saman fer landeyðing og gróðureyðing á stórum svæðum.
    Í V. kafla frv. er fjallað um ræktun nytjaskóga og svarar efni kaflans til 3. gr. laga nr. 76 frá 30. maí 1984, um breytingu á lögum nr. 3/1955, um skógrækt. Með þeirri grein og nýjum kafla um ræktun nytjaskóga á bújörðum var bætt við gildandi skógræktarlög.
    Það er nýmæli í frv. að framlag ríkissjóðs til ræktunar nytjaskóga er ekki einungis bundið við bújarðir heldur getur það, ef skilyrðum kaflans er að öðru leyti fullnægt, einnig nýst öðrum jörðum. Jafnframt er lagt til að framlag ríkissjóðs hækki úr 80% í 90% stofnkostnaðar.
    Í 2. mgr. 19. gr. frv. er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði allan stofnkostnað að frátöldum kostnaði við girðingar þegar margir landeigendur koma sér saman um að rækta skóg eftir samþykktri áætlun og því fylgir friðun á landi í stórum stíl. Gert er ráð fyrir að þeir sem styrks njóta til ræktunar nytjaskóga endurgreiði Skógrækt ríkisins hluta af verðmæti afurða þegar þær falla til og skal það fjármagn sem þannig fæst renna í sérstakan endurnýjunarsjóð viðkomandi skóglendis sem Skógrækt ríkisins varðveitir. Það er enn fremur nýmæli í frv. að framlag ríkissjóðs til ræktunar nytjaskóga greiðist á hvern hektara lands hverju sinni, en í gildandi lögum er ekki gert ráð fyrir því fyrirkomulagi. Þetta atriði er til þess fallið að einfalda stórlega framkvæmd laganna. Þá er það nýmæli í þessum kafla frv. að landeiganda er gert kleift að leysa land sitt undan þeim skyldum sem á það yrðu lagðar vegna ræktunar nytjaskóga með því að endurgreiða það framlag sem innt hefur verið af hendi eftir ákvæðum kaflans.
    Í 29. gr. frv. er nýmæli, en þar er lagt bann við sölu skógarjarða án vitundar Skógræktar ríkisins. Er Skógrækt ríkisins tryggður forkaupsréttur að skógarjörðum að frágengnum þeim aðilum sem forkaupsrétt eiga samkvæmt ákvæðum jarðalaga, nr. 65/1976. Þá er nýmæli í 27. gr. frv. sem ætlað er að koma í veg fyrir skiptingu skóglendis eða að skóglendi sé tekið undir mannvirki án leyfis ráðherra.
    Þá er rétt að benda hér á að endingu það nýmæli sem felst í 33. gr. frv. en þar er kveðið á um að nánari framkvæmd laganna skuli ákveðin með reglugerð en svo merkilegt sem það nú er er slíkt heimildarákvæði ekki að finna í eldri lögum.

    Herra forseti. Hér hef ég rakið nokkrar helstu breytingar sem felast í frv. frá gildandi lögum. Eins og ég hef þegar gert grein fyrir hefur þetta frv. áður birst hér á hinu háa Alþingi, fyrst á 108. löggjafarþingi og síðan á hverju þingi síðan. Eru ýmsir vissulega orðnir langeygðir eftir því að sú tímabæra endurskoðun og samræming ákvæða sem hér er á ferðinni nái nú fram að ganga. Þá er ekki síður ástæða til að benda á hitt að miklar vonir eru nú bundnar við það að takast megi að gera á næstu missirum alvöru úr áformum um umtalsverða nytjaskógrækt og er þá sérstaklega horft til þess að bændur geti horfið frá störfum í hefðbundnum búgreinum þar sem framleiðslutakmarkanir gilda nú og gripið hefur verið til ýmiss konar samdráttaraðgerða og að einhverju eða verulegu leyti fært sig yfir í þau störf sem til falla með tilkomu umtalsverðs átaks í skógrækt.
    Þegar hefur verið unnið nokkuð að því á einstökum svæðum á landinu að kanna bæði skilyrði til skógræktar sem og að undirbúa áætlanir um slíkt. Ég vil þar sérstaklega nefna Fljótsdalshérað. Þar hefur nú nýlega verið skipuð sérstök verkefnisstjórn til að fara með gerð áætlunar um nytjaskógaátak á Fljótsdalshéraði. Þó að sjálfsagt megi til sanns vegar færa að ýmsum ákvæðum kaflans um nytjaskógrækt í frv., V. kafla sem fjallar um ræktun nytjaskóga, mætti betur fyrir koma hygg ég að lítill vafi sé á því að frv. eins og það
liggur nú fyrir er til muna betra og samræmist betur aðstæðum og hugmyndum manna um það hvernig að þessum nytjaskógaáætlunum skuli staðið en gildandi lög eða lagaákvæði. Það er því einlæg von mín að takast megi að lokinni vandaðri meðferð málsins hér á hinu háa Alþingi að afgreiða þetta frv. og gera það að lögum og yrði það þá innlegg í þá vinnu sem fram fer þessa mánuðina og gæti vonandi hjálpað til að gera alvöru úr þeim áformum og koma til framkvæmda einhverju af því sem menn hafa látið sig dreyma um að gæti gerst hér á sviði skógræktar á næstu árum.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að frv. verði vísað til hv. landbn.