Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa tekið til máls og lýsa ánægju minni yfir því að þetta frv. er fram komið. Frv. fjallar um það að fella saman í eina stofnun og einn farveg hagrannsóknir í landbúnaði og úrvinnslu gagna og síðan hagfræðilegar leiðbeiningar í þessari grein. Enda þótt það sé nokkuð tvírætt orðað í frv. sjálfu, þá finnst mér að það hljóti að vera einn af a.m.k. þremur meginþáttum þessa máls að tengja saman gagnaöflun úrvinnslugagna og leiðbeiningar. Þess vegna á það allt heima í þessari stofnun og yrði til þess að styrkja hana og gera hana hagkvæmari.
    Ég tel einnig að það sé mjög við hæfi að tengja þessa starfsemi búvísindadeildinni á Hvanneyri, ekki einungis fyrir þá sök sem hér hefur komið fram, að með því sé verið að flytja starfsemi á vegum landbúnaðarins út á land eins og það er kallað, heldur ekki síst að í því felst hagkvæmni að geta tengt saman þessa starfsemi og starf búvísindadeildarinnar og þá kennslu sem þar fer fram og ekki síst hitt að á Hvanneyri í Borgarfirði hefur verið unninn mikill grundvöllur að öllum hagrannsóknum í landbúnaði hér á landi. Ég sakna þess nokkuð að í grg. með frv. skuli ekki vikið að þeirri sögu betur en gert er og hefði verið maklegt að þar væri hún rakin nokkru nánar þannig að nefnt væri nafn Guðmundar Jónssonar, fyrrv. skólastjóra á Hvanneyri. Hann er höfundur þeirra forma sem lengst af voru notuð við búreikninga hér á landi, var brautryðjandi í því að koma af stað búreikningum meðal bænda, safna þeim saman og gera þá upp og væri maklegt að hans væri getið þegar slíkt mál eins og þetta er flutt. Ég tel því að það sé til virðingar við þennan mæta mann að þessi starfsemi verði nú byggð upp á þeim stað þar sem hans lífsstarf var að meginhluta unnið.
    Mér sýnist að frv. eins og það liggur fyrir sé allvel úr garði gert og er ekki með neinar sérstakar athugasemdir við það. Þar eru þó vitaskuld álitamál eins og gengur og gerist um slíkt efni, álitamál sem verða til athugunar í þingnefnd þar sem ég á sæti og sé ekki ástæðu til að fara út í þau efni. Ég hlýt að vara við því eins og við hverja aðra nýja stofnun og nýja starfsemi sem sett er af stað, enda þótt hér sé ekki í rauninni ný starfsemi heldur verið að flytja starfsemi til og safna henni saman á einn stað og í eina stofnun, að menn leitist við að gæta í hagstofnuninni sjálfri hagkvæmni þannig að hún þenjist ekki út og verði of mikið bákn. En ég hlýt einnig að vekja á því athygli að þó að hér sé um ríkisstofnun að ræða er gert ráð fyrir að hún selji sína þjónustu að hluta þannig að hún afli sér tekna og er það ekki nema eðlilegt.
    Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um þýðingu hagrannsókna í landbúnaði og þýðingu hagfræðilegra leiðbeininga. Undir þeim kringumstæðum sem nú eru og í þeim miklu erfiðleikum sem nú steðja að landbúnaðinum og hafa gert á undanförnum árum er ekki síður nú og reyndar fremur nú en nokkru sinni nauðsyn að efla þessa

grein, hagfræðilegar rannsóknir, söfnun upplýsinga, úrvinnslu gagna og síðan leiðbeiningar og ráðgjöf. Við þurfum mjög á því að halda og að því vona ég að sú lagasetning stuðli sem hér er verið að undirbúa.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en ef ekki koma í ljós í vinnu landbn. um þetta mál einhver sérstök atriði sem ég hef ekki komið auga á enn þá sé ég því ekkert til fyrirstöðu að það mætti takast að afgreiða þetta mál á þessu þingi.