Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður, en mér þykir ástæða til þess að koma inn á örfá atriði vegna umræðna sem hér hafa farið fram og sérstaklega með tilliti til þeirrar vinnu sem hefur staðið yfir í nokkuð marga mánuði í nefndum sem hafa það hlutverk bæði að endurskipuleggja starfssvið Búnaðarfélags Íslands, búnaðarsambanda og aðra starfsemi því tengda og eins nefnd sem er að vinna og skila núna tillögum til ráðherra um starfsemi búnaðarsambandanna og leiðbeiningaþjónustu og nýtt skipulag á henni í landbúnaði í landinu.
    Það sem hefur verið talað um hér, eins og hv. 1. þm. Reykv. hefur komið inn á í sambandi við að flytja þá starfsemi sem hér er verið að ræða um til Hagstofunnar eða Þjóðhagsstofnunar, er einmitt atriði sem hefur verið tekið sérstaklega til athugunar og á fundum sem hagstofustjóri hefur átt með þessum nefndum hefur hann lýst því yfir að það væri ákaflega óheppilegt að flytja þessa starfsemi til Hagstofu Íslands einvörðungu vegna þess að svona starfsemi ætti að fara fram í tengslum við greinina, þ.e. við samtök í landbúnaði, og síðan yrði greiður upplýsingagangur milli þessara stofnana og Hagstofu Íslands. Ég tel að þær viðræður sem hafa farið fram við hagstofustjóra um þetta mál hafi sannað fyrir okkur, sem höfum verið í þessum nefndum, að þetta er rétt skoðun. Ég vil líka upplýsa að jafnhliða þessu er verið að endurskipuleggja starfsemi og skipulag búnaðarsambanda í landinu sem eiga að taka til sín upplýsingaöflun meðal bænda víðs vegar um landið sem verði svo tengiliður við hagstofnun landbúnaðarins á Hvanneyri.
    Ég skal ekki hafa mikið mál um þetta, en ég vil aðeins geta þess vegna þess að hæstv. ráðherra kom ekkert inn á það sem ég beindi að hluta til til hans eða til umhugsunar við afgreiðslu þessa máls, en það er sú samþykkt sem nýafstaðið búnaðarþing gerði í sambandi við þessi mál. Það er að því er varðar stjórn þessarar væntanlegu stofnunar. Þar samþykkti búnaðarþing, með leyfi forseta: ,,Búnaðarþing telur afar mikilvægt að hagstofnun landbúnaðarins verði óháð stofnun á faglegum grunni og njóti trausts ólíkra hópa í þjóðfélaginu. Því telur búnaðarþing ekki rétt að hagsmunasamtök bænda, Stéttarsambandið, eigi fulltrúa í stjórn hagstofnunar. Lagt er til að í stað fimm manna stjórnar fyrir hagstofnun skipi stjórnina þrír menn. Einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands sem fulltrúa faglegra málefna bænda, annar tilnefndur af Hagstofu Íslands sem fulltrúa hagmála hins opinbera og hinn þriðja skipi landbrh. án tilnefningar.``
    Ég held að þetta sé umhugsunarefni og tel ástæðu til að landbn. skoði í samráði við ráðherra hvort ekki sé rétt að athuga málið út frá þessu. Þetta tengist í sjálfu sér því sem hér hefur komið fram sem gagnrýni á þessa stofnun að hún verði ekki of háð þeirri grein sem hún á að afla upplýsinga fyrir, faglegra upplýsinga. Þess vegna hef ég a.m.k. þá skoðun að við ættum að skoða þessa breytingu með það fyrir augum hvort ekki sé réttara að taka þetta form upp en

það sem er í frv.
    En ég endurtek að hér er mjög mikilvægt mál sem er nauðsynlegur þáttur, ekki síst fyrir landbúnaðinn í heild og fyrir hagstjórnun og það sem frá honum kemur, að hér séu sett upp kerfi sem ekki er hægt að vefengja því að til þessa dags hefur það viljað brenna við og því haldið fram að það séu bændasamtökin sjálf sem ákveði alla hluti í sambandi við verðlagningu á landbúnaðarvörum. Það þarf vissulega að kveða niður þessa fullyrðingu og það er best gert með því að hafa nógu hagrænar upplýsingar sem byggjast á víðtækri athugun sem menn geta tekið fullt tillit til.