Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Já, ég þakka virðulegum forseta fyrir að leyfa mér að gera athugasemd. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í þessa umræðu, en allmargir þingmenn hafa nú tekið til máls og hæstv. viðskrh. talað eigi sjaldnar en þrisvar, alllangt mál í hvert sinn, þar sem hann m.a. gaf þá skýringu helsta á lágu matvælaverði í Bretlandi að Bretar heimiluðu innflutning á matvöru þaðan sem hún fengist ódýrust í heiminum. Hæstv. viðskrh. bað menn að forðast alhæfingar og forðast t.d. þá alhæfingu að skattlagning væri aðalskýringin á háu matvælaverði á Íslandi. Ég bið hæstv. viðskrh. að forðast alhæfingar hvað varðar matvælaverð í Bretlandi og upplýsa hæstv. viðskrh. um að það er ekki rétt að innflutningur sé óheftur á matvælum til Bretlands. Þannig gerðist það þegar Bretland gekk í Efnahagsbandalagið að að stórum hluta til lokuðust þeir markaðir sem til að mynda Ný-Sjálendingar höfðu áður haft á Bretlandseyjum fyrir kindakjöt. Það var vegna þess að Bretar gengu inn í hinn mikla markað Evrópubandalagsins og urðu að taka á sig gagnkvæmar skuldbindingar þar sem hefur síðan leitt til þess að miklar takmarkanir hafa verið settar á einmitt innflutning ýmissa matvæla til Bretlands sem mér er vel kunnugt um m.a. eftir að hafa kynnt mér landbúnaðarvandamál þeirra á Nýja-Sjálandi.
    Um þá annars fróðlegu umræðu sem fór fram vil ég bara segja að það er vissulega rétt að verð á matvælum er nokkuð hátt á Íslandi og hærra en víða í nágrannalöndunum, en það vill oft gleymast, svo merkilegt sem það er, að það á sammerkt með verðlagi á öðrum vörum hér að vera svona hátt. Vegna þess að Glasgowborg er hér nefnd til samanburðar um matvælaverð leyfi ég mér að fullyrða, kemur reyndar fram á þessum töflum, að munurinn á vöruverði annarrar gerðar hér og í Glasgow er mun meiri en munurinn á matvælunum. Þannig er það t.d. ekki óvenjulegt að vefnaðarvara sé tvöfalt til þrefalt ódýrari í Glasgowborg en hér í Reykjavík.
    Að öðru leyti vil ég tímans vegna og þess þrönga ramma sem hér er markaður um þessa umræðu ekki ganga meira á þolinmæði forseta en segi um kannanir og samanburð á vöruverði: Hann er góðra gjalda verður, en segir þó aldrei nema takmarkaða sögu nema menn fínkembi þær ástæður sem að baki liggja.
    Ég hefði talið að ef eitthvað væri brýnt væri það að framkvæma ítarlega úttekt á vinnslu-, heildsölu-, dreifingar- og smásölukostnaði í matvöruverslun á Íslandi.