Sorpbrennslan á Skarfaskeri við Hnífsdal
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. sem er á þskj. 719 sem hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Er heilbrmrh. kunnugt um að starfrækt er sorpbrennsla án starfsleyfis á Skarfaskeri við Hnífsdal? Til hvaða aðgerða mun ráðherra grípa vegna þessa máls og hvenær?``
    Það er ekki að ástæðulausu að ég hef borið fram þessa fsp. Sorpbrennsla sú sem hér er spurt um hefur starfað frá árinu 1974 og strax þá lögðust íbúar í Hnífsdal eindregið gegn staðsetningu hennar og bentu á að mengun kæmi til með að leggjast inn yfir byggðina í Hnífsdal þar sem ríkjandi vindátt væri inn dalinn. Árið 1987 kröfðust íbúarnir með undirskriftasöfnun að gerðar yrðu úrbætur vegna mikillar mengunar þar sem ástandið var gjörsamlega óþolandi. Nú í febrúar sl. skrifuðu yfir 200 íbúar í Hnífsdal undir áskorun til heilbrmrh. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Nú hefur Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráð og umhverfis- og náttúruverndarnefnd Ísafjarðar eindregið lagst gegn starfsemi stöðvarinnar. Umsókn bæjaryfirvalda um starfsleyfi hefur verið hafnað. Ljóst er að mikil og heilsuspillandi mengun stafar frá starfseminni. Mikinn reyk, sót og ólykt leggur yfir byggðina í Hnífsdal. Það er krafa okkar undirritaðra að sorpeyðingarstöðinni verði lokað tafarlaust.``
    Það skrifa undir þetta, eins og ég sagði áðan, yfir 200 Hnífsdælingar og þetta er gert í febrúar 1989 þannig að fólk þar lítur þetta mjög alvarlegum augum.
    Ég hef líka kynnt mér að fólk á Ísafirði hefur miklar áhyggjur af þessu þannig að það eru ekki eingöngu Hnífsdælingar sem þarna er um að ræða þó að þetta varði þá sérstaklega. Ég vil auk þess vekja athygli á því að hér er ekki eingöngu um útlitsmengun og óþrifnað að ræða heldur myndast við sorpbrennsluna ákveðinn fjöldi lífrænna efnasambanda sem leysast mjög illa upp og brotna seint niður. Þessi efni geta verið krabbameinsvaldandi, valdið fósturskaða og fleiri óæskilegum áhrifum. Það er því mjög nauðsynlegt að gripið verði til aðgerða nú þegar. Ég tel aldeilis óviðunandi að ekki skuli nú þegar stöðvaður rekstur þessarar sorpbrennslu þar sem hún hefur ekki starfsleyfi og þó svo að aðrar aðgerðir geti verið dýrar þá er enn dýrara þegar heilsu fólks er stefnt í voða eins og þarna er verið að gera.