Loftmengun á höfuðborgarsvæðinu
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér á þskj. 723 að bera fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. um loftmengun á höfuðborgarsvæðinu og hún er svohljóðandi:
    ,,Hvaða niðurstöður liggja fyrir úr mælingum á loftmengun á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár?
    Hvað skortir á að fullnægjandi mælingar séu gerðar á loftmengun á þessu svæði?
    Hvaða aðgerir eru í undirbúningi til þess að draga úr loftmengun við Faxaflóa, m.a. vegna útblásturs bifreiða?``
    Ég nefni það að ástæðan fyrir þessari fsp. er versnandi ástand þessara mála sem blasir við þeim sem hér dvelja, jafnvel þó ekki sé nema nokkurn tíma úr ári, og hef ég samanburð af þessu frá nokkurra ára bili, fyrst og fremst að vetrarlagi. Ég tel að orðstír Íslands og höfuðborgarsvæðisins hér sé í bráðri hættu að því er varðar hreint loft. Það er ekki lengur hreint, það er ekki lengur tært eins og við gjarnan miklumst yfir í hátíðaræðum að sé sérstaða okkar hér, að búa við slík gæði. Það er augljóslega ört vaxandi mengun á þessu svæði, litið til nokkurra ára. Og við höfum séð það og heyrt í fjölmiðlum að eftir þessu er tekið af ýmsum ástæðum. M.a. er hluti af þessari mengun sýnilegur í formi rykskýs sem yfir höfuðborgarsvæðinu grúfir, mismunandi eftir veðurfarsástæðum.
    Ég nefni það líka að mengun frá iðnaði er hér veruleg, þar á meðal það sem ég nefndi vegna fyrri fsp. í sambandi við loðnubræðslu. Þrátt fyrir nokkrar aðgerðir hér til þess að eyða slíkum útblæstri leggur peningalyktina hér yfir höfuðborgina meira og minna þegar loðnubræðsla er í gangi og við fengum hana hér inn í sali Alþingis að mig minnir í fyrradag og vorum vel minnt á þessa mengun þar.
    Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti upplýst okkur um þetta efni af tilefni þessarar fsp. því að það er áreiðanlega brýn nauðsyn að hér verði ráðin bót á og með þessum málum verði fylgst gaumgæfilega.