Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Hér hefur borið margt á góma og það væri tilefni til að ræða ýmislegt sem hér hefur verið sagt og jafnvel að fara nokkuð ítarlega út í sumt. En ég ætla ekki að gera þetta. Ég ætla að neita mér um það og ekki lengja umræðuna.
    Ég ætla t.d. ekki að fara að ræða sérstaklega við hv. 6. þm. Norðurl. e. Í hans ræðu áðan gætti töluverðs misskilnings eins og fram kom þegar hann talaði fyrir þáltill. varðandi ráðhúsið í byrjun nóvember á þessu þingi. Við áttum þá orðaskipti um hin margvíslegustu efni, m.a. netlög Alþingis í Tjörninni. En ég ætla ekki að fara að ræða það nú.
    Það væri ástæða til þess sérstaklega að ræða það sem hér hefur komið fram hjá ýmsum sem eru að velta fyrir sér hvaða hús í nágrenninu væri rétt að kaupa og þá annað en Borgina. Síma- og pósthúsið hefur t.d. verið þar nefnt og fleira. Látum þetta vera ef menn eru að hugsa um bráðabirgðalausn. En ég undirstrika það: Ef menn eru að hugsa um framtíðarlausn sem byggist á því að þetta gamla Alþingishús verði notað til frambúðar er það ekki hægt nema með byggingu í næsta nágrenni og slíkum tengslum að það svari til þess eins og um eina byggingu sé að ræða. Það er ekki hægt fyrir Alþingi til frambúðar að búa við öðruvísi húsakost. Það er ekki hægt fyrir Alþingi annað en hafa húsakost sem getur á þennan veg hýst alla starfsemi Alþingis eins og er hvarvetna þar sem er þokkalega búið um þjóðþing að þar er ein bygging sem rúmar alla starfsemi þingsins.
    Ég stóð raunar upp einungis til að leiðrétta hæstv. forseta Sþ. Mér finnst að það sé nauðsynlegt að gera það um eitt atriði sem fram kom í ræðu hennar. Hún sagði að þegar samkeppnin um nýbyggingu Alþingis hafi farið fram hafi ekki verið vitað um ráðhúsið, eins og hún sagði orðrétt. Þetta er misskilningur sem er nauðsynlegt að leiðrétta. Það hefur verið vitað um ráðhúsið síðan 1967 að ráðhúsbygging var tekin inn í aðalskipulag Reykjavíkur. Síðan hefur verið vitað um ráðhúsið. Og þá var gert ráð fyrir og lengst af var gert ráð fyrir að ráðhúsið væri fyrir miðju enda Tjarnarinnar. En nú er gert ráð fyrir ráðhúsinu í norðvesturhorni Tjarnarinnar og það þýðir að þessi staðsetning er hagstæðari fyrir Alþingi en sú sem menn hafa búist við í nálega 20 ár.
    Það segir í álitsgerð sem húsameistari ríkisins gaf fyrrv. forsetum snemma á síðasta ári, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Núverandi tillaga að ráðhúsi er öllu hagstæðari fyrir hagsmuni Alþingis en vænta mátti eftir staðfestingu aðalskipulags Reykjavíkur frá 1967.``
    Við þetta vil ég svo bæta að þegar gengið var frá útboði og útboðslýsingu vegna samkeppni að nýbyggingu fyrir Alþingi var gert ráð fyrir ráðhúsi og þá var gert ráð fyrir ráðhúsinu á þeim stað sem það er nú að rísa. Þetta vil ég að komi fram til þess að það sé ekki misskilningur um grundvallaratriði og öllum megi vera það ljóst.
    Hæstv. forseti sameinaðs þings taldi --- ég heyrði

ekki betur en hún segði að það væru góðar undirtektir undir þetta mál í þessum umræðum. En við erum búin að ræða þetta mál allt síðdegið í dag og það vekur athygli mína að það eru einungis þrír flm. sem mæla með samþykkt tillögunnar. Hins vegar er víðtæk samstaða um það sem hv. 2. þm. Suðurl. sagði. Hann sagði að það væri samstaða um að vísa þessu máli til hv. fjvn. Um það verður að sjálfsögðu víðtæk samstaða og ég vænti þess að málið fái þar verðuga meðferð.