Vörsluskylda búfjár á Reykjanesskaga
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég verð að gera smáathugasemdir við ræðu hæstv. ráðherra og spyrja hann enn frekar um ýmis atriði.
    Hann sagði hér áðan að hann hefði á tímabili dregið frv. til baka, hann hefði komið með það fyrir jól og þá hefði það farið í þingflokka en þá hefði hann dregið að sér höndina vegna þess að málið var á viðkvæmu stigi í samningagerðinni við búfjáreigendur á svæðinu. Nú spyr ég: Er frv. flutt með vitund og vilja búfjáreigenda í Gullbringusýslu? Hefur ráðherrann á fundi með þeim rætt um það, þegar hann var að semja, að hann muni eigi að síður leggja frv. fram? Og hvað hefur það að segja þar sem samkomulag virðist nú ekki enn þá liggja á borðinu? Raskar það möguleikum á samkomulagi? Eða verður kannski ekkert hugsað um að semja þegar búið verður að koma þessu í lög? Ég spyr.
    Hann ræddi um að þetta mál hefði farið í þingflokka. Það er rétt. Hafi ráðherra ekki vitað það fyrr þá greiddi ég atkvæði gegn því í mínum þingflokki að þetta mál yrði lagt fram sem stjórnarfrumvarp af þeirri einföldu ástæðu sem ég hef hér rakið í dag að ég er andstæðingur slíkrar lagasetningar.
    Ráðherrann gerði mikið úr því og sagði mönnum að taka mark á orðum sínum að hér væri um sérstök lög að ræða og að það gæfi ekkert fordæmi fyrir framtíðina og að löggjafarvaldið yrði hjá Alþingi. En ég hef nú ekki betur séð en að hér skapist farvegir nýrra vinnubragða á mörgum sviðum. Það er stundum eins og hlutirnir hér eins og annars staðar í veröldinni og úti í þjóðfélaginu verði að tísku og að opna litla gjá eða skarð í stíflu þýði að það komi flóð. Ég ítreka því þá skoðun mína að ég óttast mjög að þetta skapi fordæmi og þetta skapi einmitt kröfur um það að fólk geti heimtað lög um hina ólíklegustu þætti.
    Það hafa fleiri komið að því efni hér við þessa umræðu, þar á meðal hv. 1. þm. Reykn. Síðan finnst mér það undarlegt sem kemur bæði fram í máli ráðherrans og víðar, að það er eins og búfé og útivera fari alls ekki saman. Búfé og útivera fer mjög víða ágætlega saman. Ég sé ekkert athugavert við það þar sem ég tjalda þó að sauðfé sé í nágrenninu. ( Gripið fram í: Það er heldur skárra.) Það er heldur skárra. Það var öðruvísi hér áður fyrr þegar mannýgir tuddar voru í högum en nú eru þeir sem betur fer horfnir þannig að ég tek nú ekki mark á þessu.
    Þrátt fyrir samkomulagið sem ráðherrann ræddi um að væri þegar að líta dagsins ljós þá eyddi hann heilmiklum tíma í það í ræðu sinni að hann gerði þetta til þess að friða Reykjanesbraut. Það væri stór þáttur í málinu. En verður hún ekki friðuð um leið og búið er að ná samkomulaginu? Fyrir utan hitt að ég hygg að það sé í lögum að Vegagerðinni ber skylda til að girða af aðalumferðaræðarnar í landinu. Síðan er það kannski spurning hvað verður um það búfé sem kann að slæðast inn á þetta friðaða svæði. Aldrei verður það stöðvað þannig að það mun halda áfram að gerast.

    Ég vil að lokum ítreka það að hv. nefnd sem fær málið til umfjöllunar skoði það frá öllum hliðum og ekki síst frá þeirri hlið að hér eru menn að opna dyr að nýstárlegri og óvenjulegri lagasetningu, lagasetningu sem aldrei hefur átt sér stað með þessum hætti í 1000 ára sögu Alþingis.