Vörsluskylda búfjár á Reykjanesskaga
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Ég svara hv. 5. þm. Suðurl. játandi. Ég held það og veit að búfjáreigendum er vel kunnugt um tilvist þessa frv. Ég get hins vegar að sjálfsögðu ekki fullyrt að þeir séu því allir samþykkir eða endilega allir ánægðir með það. Bæði sveitarstjórnirnar og búfjáreigendur, eða a.m.k. ákveðnir forsvarsmenn þeirra vissu mjög vel um það að þetta frv. yrði lagt fram. Síðast á fundi í Grindavík á sunnudaginn var rökstuddi ég það einmitt hvers vegna ég teldi æskilegt að frv. yrði lagt fram þrátt fyrir og samhliða því að samkomulag tækist. Ég get út af fyrir sig farið með helstu röksemdirnar fyrir því einu sinni enn ef menn vilja og þar er náttúrlega sú mikilvægust, sem ég hef hérna nefnt einum þrisvar eða fjórum sinnum, að ætlunin er að þetta verði varanleg friðunaraðgerð. Það má auðvitað segja að með vissum hætti sé verið að gera skagann að tilteknum fólkvangi eða friðlandi hvað þetta snertir, að lausaganga búfjár verði þá með varanlegum hætti afnumin. Og þá liggur það þannig að komandi íbúum Reykjanesskaga, sem e.t.v. vilja taka upp búfjárhald á svæðinu, verða þá ljósar þessar kvaðir. Þá þarf ekki nýja samninga við hvern og einn þeirra, þeir verða sem sagt bundnir af hinum almennu ákvæðum laganna. Þannig er það nú einfaldlega þegar lög eru sett sem ná fram í tímann og binda hendur eða takmarka umsvif komandi kynslóða jafnvel ef svo ber undir.
    Varðandi það að hér sé farið inn á nýja braut hvað það snertir að lögin snerti eingöngu tiltekið landsvæði eða atvinnugrein á tilteknu svæði, þá er það held ég alls ekki tilfellið að það hafi aldrei áður verið gert að setja lög sem taka til tiltekins landsvæðis eða tiltekinna hópa. Ég nefni mjög nærtækt dæmi sem hér hefur komið upp í umræðunni. Lög um takmörkun á búfjárhaldi í þéttbýli er auðvitað löggjöf sem kemur eingöngu við ákveðinn hluta landsmanna, þ.e. þá búfjáreigendur sem búa í þéttbýli en ekki hina. Þá voru sveitarfélögum fengnar lagaheimildir til að grípa til ýmiss konar takmarkandi aðgerða o.s.frv.
    Það þarf víst ekki að rifja upp fyrir hv. þm. þau dapurlegu dæmi þegar hér eru sett lög trekk í trekk á ákveðnar starfsstéttir sem eru t.d. í kjaradeilum. Ætli hv. 5. þm. Suðurl. hafi verið --- nei, hann hefur sennilega ekki verið kominn á Alþingi þegar Framsfl. t.d. studdi það að sett væru lög á flugfreyjur sem voru þá að berjast fyrir því að fá kaupið sitt hækkað. Það voru nú bærilega lög sem snertu tiltekinn hóp fólks. Það held ég nú. Þau voru a.m.k. nógu varanleg hvað þær vinnudeilur snerti.
    En þannig er það auðvitað að löggjöf og lagasetning er í eðli sínu afar fjölbreytileg og ég held að í 1100 ára sögu landsins --- af því að hv. þm. fór nú svo langt aftur eða langleiðina það, vitnaði m.a. í Njál á Bergþórshvoli og fleiri ágæta menn --- þá mundu nú finnast ærið mörg fordæmi fyrir flestu, held ég, sem mönnum dytti í hug í lagasetningu ef það væri allt saman kembt, þannig að ég held að það sé ekki rétt og alls ekkert skynsamlegt og engin ástæða

til að vera að gera þessa lagasetningu að einhverju tímamótaverki eða fordæmi sem skáki öllu öðru út og sé alveg einstæð í sögu löggjafar á Íslandi. Svo er ekki. Hér er um tiltölulega einfalda aðgerð að ræða sem á að festa í sessi með löggjöf. Það er nú allt og sumt.