Grunnskóli
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Mér finnst í rauninni ánægjulegt, þegar þetta frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63/1974, um grunnskóla, með síðari breytingum, kemur hér loks til umræðu í hv. deild, að þá skuli svo hátta til að í pósthólfum okkar þingmanna þennan sama dag kemur endurskoðað eða í rauninni frv. til laga um breytingu á þessum sömu lögum, nr. 63/1974, um grunnskóla, prentað sem handrit að vísu, frá hæstv. menntmrh. Það sést því að það er á ýmsum stöðum sem verið er að vinna að endurskoðun þessarar merku löggjafar.
    Löggjöf okkar um skólahald hér á landi stendur gjarnan í mínum huga í fjórum meginköflum svona þegar litið er á tímann. Elsta löggjöf okkar hygg ég að sé frá 1907 þegar skólaskyldan var lögleidd. Næsti kafli er í kringum 1930 þegar samþykkt munu hafa verið hér lög um yfirstjórn fræðslumála og þeim síðan 1936 fylgt eftir með frekari löggjöf. Þriðji kaflinn er svo frá 1946 þegar enn eru sett lög og þá var merkasta nýmælið að landsprófið var lögleitt og í rauninni mikil löggjöf um skipan fræðslumála um allt land. Landspróf miðskóla sem slíkt hafði ómæld áhrif. Menntaskólar voru þá einungis tveir í landinu, hér í Reykjavík einn og einn á Akureyri og landsprófið átti síðan eftir að auka mjög fjölda nemenda hvaðanæva að af landi til framhaldsnáms sem þrýsti aftur á um fjölgun skóla á framhaldsskólastigi. Síðan er það 1974 að grunnskólalög eru sett, þau sem hér er nú verið að leggja grunn að endurskoðun á, lög nr. 63/1974.
    Það var í rauninni ákaflega sögulegur dagur þegar grunnskólalögin voru sett. Það mun hafa verið 21. maí, á lokadegi þess þings sem þá sat. Þingrof var í þann mund og ekki færri en 23 lög, held ég, sem voru samþykkt þá þessa frægu nótt sem þetta gekk yfir. En aðdragandi hafði verið allmikill að setningu grunnskólalaganna, undirbúningur um langan tíma og mér er í fersku minni hvernig þar var að staðið. Það var óvenjulegt, held ég, í þann tíma að þannig væri staðið að verki. Nefnd hafði setið að störfum alllengi. Hún hafði farið um allt land, svo að segja í hvert fræðsluumdæmi, haldið fundi með skólafólki, haldið fundi með sveitarstjórnarmönnum og haldið almenna borgarafundi um þessa væntanlegu löggjöf. Það náðist síðan fram að fá þessa löggjöf samþykkta við að vísu misjafnan fögnuð hér á Alþingi. Sumum þótti þá að hér væri allt of nákvæmlega í sakirnar farið. Þarna væri verið að setja lög út í hörgul um hvaðeina sem menn ættu að gera og ekki að gera í íslenskum grunnskólum.
    Ef ég á að svara fyrir mig, sem hef starfað allan þennan tíma að heita má síðan við þessa löggjöf og hafði nú starfað raunar áður við skóla á þessu stigi, þá verð ég að segja það að mér finnst reynslan af grunnskólalöggjöfinni í það heila tekið góð. Það sem mér finnst skipta þarna mestu máli er í rauninni kannski það sem kemur fram í 2. gr. grunnskólalaganna þar sem fjallað er um hlutverk grunnskólans. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hlutverk grunnskólans er í samvinnu við heimilin

að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.
    Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.
    Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á mannlegum kjörum og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og skyldum einstaklingsins við samfélagið.
    Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.
    Grunnskólinn skal veita nemendunum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska.
    Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.``
    Samkvæmt þessari grein grunnskólalaganna er markmiðið ekki lítið og vissulega háleitt.
    Nú er það auðvitað öllum ljóst að það er komið víða við í þessu starfi og það frv., sem hér er lagt fram og 1. flm. var rétt í þann mund að ljúka við að mæla fyrir, grípur á einni grein og henni ekki lítilli sem tengd er 43. gr. núverandi laga. 43. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta, eins og lögin eru í dag:
    ,,Í öllum skólum á grunnskólastigi skal nemendum gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi á vegum skólans eftir því sem aðstæður leyfa, sbr. 72. gr. Í félagsstarfi skal m.a. að því stefnt að nemendur verði færir um að taka að sér félagsleg störf í þjóðfélaginu. Heimilt er skólastjórum að fela einum eða fleiri kennurum að annast sérstaklega þennan þátt skólastarfsins og lækkar við það að sama skapi kennsluskylda þeirra.
    Skólastjórar grunnskóla skulu árlega gera fræðslustjóra grein fyrir hversu varið var tómstunda- og félagslífi í skóla þeirra á næstliðnu skólaári. Menntmrn. gengst fyrir námskeiðum fyrir þá kennara er með þessi mál fara í skólum og sér um að gefnar séu út leiðbeiningar þeim til stuðnings.``
    Frv. sem hér er til umræðu gengur út á það að bæta þremur nýjum málsgreinum við þessa 43. gr. laganna, þ.e. 6.--8. mgr. Kjarninn í þessum greinum er í fyrsta lagi að í öllum skólum á grunnskólastigi sé nemendum gefinn kostur á að kynnast menningarstarfsemi af ýmsu tagi. Það er fyrsta meginatriðið. Annað meginatriðið er að skylda skólana, skólastjóra og kennara, til þess að þeir gangist fyrir því að listamenn og fræðimenn heimsæki skóla til að kynna nemendum íslenska menningu, sögu og arfleifð. Og þriðja atriðið, og það er í rauninni ekki þýðingarminnst, það er lögð á það sérstök áhersla að þessi starfsemi fari annars vegar fram á skólatíma, þ.e. á starfstíma skólanna, og að hinu leytinu að þessi starfsemi verði nemendum að kostnaðarlausu.
    Nú hefur það vitaskuld viðgengist lengi í íslenskum skólum og kannski ekki alltaf bundið sérstakri löggjöf

hverju sinni að listkynning, liststarfsemi og ég tala nú ekki um kynni af ýmiss konar starfsháttum fræðimanna hafa verið bundin íslenskum skólum. En það verður að segjast eins og er að þessi þáttur hefur því miður og mjög gjarnan orðið aftarlega miðað við aðra starfsemi skólanna. Það kann vel að vera að það sé af kostnaðarástæðum, en ég býst þó við að að sumu leyti sé það vegna mismunandi áherslu sem hinir ýmsu einstaklingar leggja á þennan þátt. Ástæðan fyrir því að hér er um mjög brýnt mál að ræða held ég hins vegar að komi í rauninni best fram í því sem minnt er á hér í grg. sem með frv. fylgir, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Áður erfðist reynsla, menning og tunga frá einni kynslóð til annarrar með ,,eðlilegum`` hætti í starfi og leik. Nú hafa þessi tengsl rofnað vegna breyttra samfélagshátta. Staða heimilis og fjölskyldu hefur veikst og aðrir þættir í uppeldi nýrra kynslóða orðið að sama skapi mikilvægari.`` Þarna held ég að sé í rauninni fjallað um kjarna málsins, það er þetta rof sem hefur orðið á milli þessara tveggja meginaðila sem annast uppeldi æsku, þ.e. heimilis og hins vegar skóla, og það er þarna sem þarf að tengja á milli í rauninni að nýju og ekki síst að leita til annarra stofnana og aðila en skólans og heimilisins og þá í þessu tilfelli ýmiss konar liststofnana og slíkra aðila sem starfa á þeim vettvangi.
    Ég held það sé heldur engin ástæða til þess að draga fjöður yfir það að þarna geta að ýmsu leyti fallið saman hagsmunir, a.m.k. eins og aðstæður eru í okkar þjóðfélagi í dag, og þá á ég við það atriði að með ýmsum starfsstéttum sem sinna listrænu starfi er ekki um of auðugan garð að gresja hvað verkefni snertir og ef hægt er að bæta þar úr og verða æskunni að liði í leiðinni er ekki nokkur vafi að það eru spor í rétta átt.
    Að lokum vildi ég leggja á það áherslu að ég held að það sé alveg augljóst mál að á ungum aldri, hvort sem menn eru á grunnskólaaldri eða framhaldsskólaaldri, þá eru menn móttækilegir vel fyrir hvers konar listflutningi og njóta hans ekki síður en á öðrum aldursskeiðum ævinnar og af þeirri ástæðu held ég að það sé meira en tímabært að tillaga af þessu tagi sé hér flutt.
    Það gladdi mig þegar ég fletti handriti hæstv. menntmrh. hér áðan, sem var í pósthólfinu, að í tillögum hans við 42. gr. gengur hann í rauninni til móts við eitt af þremur atriðum sem hér eru lögð til. Hann leggur til að í 43. gr. sé bætt inn þessari mgr. að varðandi listflutning sé um að ræða lið í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma, þannig að þarna er um að ræða af hálfu hæstv. menntmrh. þó alltént spor í þessa átt sem hér er lagt til.