Þingfararkaup alþingismanna
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 45 frá 1980, um þingfararkaup alþingismanna.
    Í umræðum á Alþingi við setningu ákvæða um biðlaun alþingismanna kom fram sú skilgreining á biðlaunum að þar væri ekki um að ræða kaup heldur væru þau greidd til þess að mönnum gæfist tóm til að fá sér aðra vinnu til að framfleyta sér og sínum á. Af þeim sökum er það ljóst að miklu máli skiptir fyrir aðstöðu manna til nýrra starfa hvort þeir afsala sér þingmennsku áður en kjörtímabili lýkur og ráða þá sjálfir hvenær þeir hætta störfum eða starfstíma lýkur vegna þess að þeir eru ekki endurkjörnir í alþingiskosningum, þ.e. hvort þeir segja sjálfir upp starfinu eða er sagt því upp af öðrum.
    Hins vegar hefur komið í ljós að orðalag gildandi laga gerir ekki nægilegan greinarmun á þessari gjörólíku aðstöðu. E.t.v. stafar það af því að það sé ekki einfalt að finna orðalag sem tryggir þennan greinarmun án þess að skerða æskilegan og sjálfsagðan rétt. Vænti ég þess að hv. nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, athugi hvort finna megi æskilegra orðalag á efni frv. en þar kemur fram. Frv. er flutt í samráði við þá hæstv. forseta Alþingis sem sæti eiga í hv. Nd.
    Að öðru leyti tel ég að efni frv. sé auðskilið og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.