Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu sem fram fer einmitt um undanþágur. Það er eflaust rétt sem fram hefur komið að rétt væri að undanþiggja ýmislegt fleira, en ég get lýst stuðningi við frv. sem hér var mælt fyrir af hv. 4. þm. Suðurl. Hún kom inn á hugtak sem við tölum oft um þegar við ræðum um landbúnað, þ.e. hefðbundinn búskap, og ég held að það sé kominn tími til að við förum að bæta fleiri greinum inn í þennan hefðbundna búskap. Við þurfum á því að halda því að það þarf að fjölga búgreinum og þess vegna sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu að þessi hefðbundni búskapur, sem ég tel garðyrkjubúskapinn vera, njóti sömu undanþáguákvæða og okkar rótgróni, hefðbundni íslenski búskapur.
    Ég fagna því sérstaklega að hæstv. fjmrh. er kominn hér í salinn og vissulega þætti mér sem óbreyttum hv. þm. gott að hafa slíkt samband við fjmrh. að ég vissi fyrir fram um hverjar undirtektir yrðu við þeim málum sem ég kann að finna upp á að flytja hér í þessari hv. deild, en ég þakka þær stuðningsyfirlýsingar sem komu varðandi mitt mál, bæði frá hv. 6. þm. Reykn. og einnig 4. þm. Vesturl. og vænti þess að heyra viðhorf hæstv. fjmrh., fyrst hann er kominn hér í salinn, til beggja þessara frv.