Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Í umræðunum hér áðan hefur fjmrh. sennilega ekki heyrt til okkar þar sem hann var upptekinn við annað, en það voru bornar fram spurningar um viðhorf hans til þessara frumvarpa beggja. Þær fjalla um sama lagabálkinn. Bæði frumvörpin eru stutt, einföld og skiljanleg alveg eins og tollalögin sem við fjölluðum um hérna áðan. Þá var hæstv. fjmrh. því miður ekki staddur hér, en ég benti m.a. á það í máli mínu að með því að afnema söluskatt á námsbókum mætti e.t.v. spara ríkissjóði á öðrum sviðum. Ég bendi á þann mikla fjölda nemenda sem er t.d. núna inni á fyrsta ári framhaldsskólans. Það mun vera einn og hálfur árgangur. Ef nemendur þyrftu ekki að vinna svo mikið sem þeir gera þessi árin, þá má búast við að námið gengi heldur hraðar og það hlýtur að vera ódýrara fyrir ríkissjóð. Ég benti líka á það að afnám á söluskatti á námsbókum mundi lækka útreikningana á framfærslu til þeirra sem námslána njóta og það sparar ríkissjóði væntanlega líka eitthvað. Ég hef ekki tölur um það en það kom fram í svari hæstv. fjmrh. við fyrirspurn minni í vetur að tekjur ríkissjóðs af söluskatti af námsbókum voru 45--55 millj. árið 1987.
    Ég vil knýja á um að fá svör frá hæstv. fjmrh. um viðhorf hans til þessa frv. um afnám söluskatts á námsbækur og ítreka það, sem ég tók fram áðan, að auðvitað voru menn mjög ósáttir við marga þá þætti sem lagður var söluskattur á í fyrra. Bækur voru einn af þeim en því hefur verið lýst fyrir okkur í vetur að heldur eru horfurnar slakar fyrir ríkissjóð og þess vegna ákvað ég að stíga þetta skref um afnám söluskatts af námsbókum í hógværð og af ábyrgð og ég vænti þess að heyra einhver svör frá fjmrh. um hans viðhorf til þessa.