Endurbætur forsetasetursins á Bessastöðum
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um endurbætur og framtíðaruppbyggingu forsetasetursins á Bessastöðum. Þetta mál á nokkurn aðdraganda. Ljóst hefur verið lengi að viðhaldi forsetasetursins og þeirra bygginga sem þar eru hefur verið mjög ábótavant.
    Ég held að það megi fullyrða að settar hafa verið nokkrar upphæðir af og á til allra óhjákvæmilegustu viðhaldsaðgerða, eins og t.d. nýlega til lagfæringar á gólfi í Bessastaðastofu sem var orðið mjög sigið og varla þar bjóðandi inn nokkrum manni. Skipulagt átak í þessum málum var hins vegar gert af fyrrv. ríkisstjórn og forsrh. þeirrar ríkisstjórnar skipaði svokallaða Bessastaðanefnd, mig minnir að það hafi verið í lok ársins 1987 eða seint á því ári. Formaður þeirrar nefndar er 1. þm. Reykn., hv. þm. Matthías Á. Mathiesen. Á vegum þeirrar nefndar hefur síðan farið fram ítarleg úttekt á staðnum og hefur komið í ljós að ástand staðarins er í raun langtum verra en menn höfðu gert sér grein fyrir. Svo vill oft fara þegar viðhald hefur verið vanrækt eins og vissulega er komið í ljós í þessu tilfelli.
    Nefndin hefur látið gera úttekt á staðnum öllum og fylgir hér með greinargerð húsameistara ríkisins, Þorsteins Gunnarssonar arkitekts og Ístaks hf. um endurreisn forsetasetursins að Bessastöðum.
    Ég vil taka það fram að hér er um greinargerð og hugmyndir arkitektanna fyrst og fremst að ræða sem ekki hefur verið tekin endanleg afstaða til. Mér þykir sjálfum ýmsar þær upphæðir sem þar eru nefndar mjög háar og vissulega nauðsynlegt að þær verði endurskoðaðar allar saman og það veit ég að nefndin hefur haft í huga og unnið að. En það breytir ekki hinu að flestöll hús á Bessastöðum og umhverfi eru í því ásigkomulagi að til skammar er og verður alls ekki lengur við svo búið.
    Eftir þær viðgerðir sem fóru fram á fyrstu hæð var hugað að efri hæð eða rishæð Bessastaðastofu og í ljós kom að hún má heita nánast ónýt af vatni og vindum og veðrum. Áætlun var gerð um lagfæringu hæðarinnar. Sú áætlun er eins og hér kemur fram upp á 55 millj. kr. Ég lét yfirfara hana og sá verkfræðingur sem það gerði telur að draga megi nokkuð úr þeirri upphæð, e.t.v. niður í 40--45 millj. kr. Engu að síður má öllum vera ljóst að þarna er um afar stórt verkefni að ræða.
    Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 12 millj. kr. til þessa verkefnis en heimild til að taka lán til viðbótar þannig að vinna megi samfellt að verkefninu, enda annað óhjákvæmilegt því að þegar þak og innrétting þar uppi verður rifið þarf nánast að byggja yfir Bessastaðastofu og þannig fær mannvirkið að sjálfsögðu ekki staðið til lengdar.
    Nýlega kom formaður fjvn. og formaður Bessastaðanefndar ásamt fleirum í heimsókn til Bessastaða. Það höfðu reyndar bæði fyrrv. forsrh. og núv. gert ásamt fjármálaráðherrum og fleirum. Ég held að það megi segja að eftir síðustu heimsókn komust menn að þeirri niðurstöðu að ekki væri um annað að ræða heldur en að hefjast þarna myndarlega handa og

reyna að ljúka þessu stóra verki sem alla vega er upp á einhver hundruð milljóna. Ég vil ekki slá neinni endanlegri upphæð fastri því, eins og ég sagði, þá áætlun sem liggur fyrir frá arkitektunum þarf vandlega að endurskoða. Í því sambandi varð niðurstaða manna sú að nauðsynlegt væri að aðgreina þetta frá forsetaembættinu því að jafnvel þær viðgerðir sem þar hafa farið fram, sem þó hafa ekki verið nema lítill hluti af heildinni, hafa hleypt öllum fjármálum embættisins úr skorðum og ekki eðlilegt að blanda þessu tvennu saman. Niðurstaðan varð því sú að flytja sérstakt frumvarp um endurbætur og framtíðaruppbyggingu forsetasetursins á Bessastöðum.
    Samkvæmt stjórnarráðslögum fellur framkvæmd á Bessastöðum undir forsrn. og hér er gert ráð fyrir því að heildaráætlun um nýtingu lands og uppbyggingu mannvirkja á Bessastöðum verði lokið fyrir árslok 1990 og gert ráð fyrir því að forsrh. skipi þriggja manna nefnd sem annast undir yfirstjórn ráðuneytisins áætlunargerð samkvæmt lögum þessum. Nefndin sjái með sama hætti um framkvæmdir samkvæmt lögunum og geri fjárhagsáætlanir við undirbúning fjárlagagerðar.
    Meginatriði þessa frv. eru sem sagt þessi að aðskilja viðgerð á forsetasetrinu frá forsetaembættinu sjálfu, að setja það í fast form og ákveða með þessum lögum að ráðast til þess verks og ljúka því á næstu árum, en að sjálfsögðu eru allar fjárveitingar í þessu skyni háðar samþykki Alþingis og verða þá lagðar fyrir nauðsynlegar áætlanir. Fjárveitingar hljóta að vera á fjárlögum hvers árs.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um þetta lengra mál. Hér fylgir töluverð greinargerð með þar sem menn geta kynnt sér nánar þær hugmyndir sem þarna eru uppi og sjá á þeirri greinargerð að þar er ekkert hús í raun undan skilið frá þessari viðgerð. En ég vil að lokum leggja áherslu á það að að mínu mati þarf þó að athuga enn mjög náið þær áætlanir sem þarna eru gerðar o.s.frv. og hvernig menn hugsa sér að nýta Bessastaði fyrir forsetasetur í framtíðinni.
    Ég legg svo til að máli þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.