Frsm. samgn. (Karvel Pálmason):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. samgn. þessarar hv. deildar vegna frv. til l. um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa Köfunarstöðinni hf., Dýpkunarfélaginu hf., Slysavarnafélagi Íslands og Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. innflutning á skipum. Nefndarálitið er eftirfarandi:
    ,,Nefndin hefur athugað frumvarpið og rætt við fulltrúa úr samgönguráðuneytinu. Nefndin er sammála um að mæla með samþykkt frumvarpsins.
    Egill Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins vegna annarra skyldustarfa en er samþykkur áliti þessu.``
    Undir þetta skrifa Karvel Pálmason, Jón Helgason, Stefán Guðmundsson, Skúli Alexandersson með fyrirvara, Þorv. Garðar Kristjánsson og Guðmundur Ágústsson.
    Það er rétt að geta þess að nefndarmenn ræddu talsvert þetta mál og voru um það sammála að þarna bæri, eins og auðvitað í öðrum málum, að fara með gát og voru þess sinnis að þetta yrði að skoða allítarlega. Menn hnutu sérstaklega um orðið sem stendur í næstsíðustu málsgr., þ.e. í 4. gr., varðandi fiskiskip. Menn töldu jafnvel að verið væri hér að opna fyrir veiðum annarra en Íslendinga í landhelgi og ræddu það allmikið.
    Þetta mál var rætt við siglingamálastjóra og honum gert ljóst hver hugur nefndarmanna var og er. Hann taldi hins vegar að vegna þeirrar stofnunar sem hann stýrir og tæknilegra framkvæmda þyrfti þetta að vera með þessum hætti. En honum er alveg ljóst hvert álit nefndarinnar er að því er varðar þetta mál.
    Það voru uppi um það hugmyndir að flytja brtt. við þennan þátt frv., en frá því var horfið vegna þess að menn töldu vegna afstöðu siglingamálastjóra að það væri rétt að hafa þetta með þessum hætti. En að sjálfsögðu ítrekum við þá skoðun okkar að það verði farið með fullri gát í þessum efnum og það er sérstaklega áréttað.
    Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Skúli Alexandersson muni gera grein fyrir sínum viðhorfum á eftir, en ég vildi taka þetta sérstaklega fram vegna þess að nefndin var að mér fannst mjög einhuga um að hér yrði að skoða mál mjög vel.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir.