Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Frsm. iðnn. (Karl Steinar Guðnason):
    Hæstv. forseti. Iðnn. hefur fjallað um málið og kallaði til fundar við sig forstjóra Járnblendiverksmiðjunnar, Jón Sigurðsson. Á fundinum var rætt á hvern hátt það frv. sem hér liggur fyrir getur orðið til styrktar því atvinnulífi sem fjallað er um að verksmiðjan taki þátt í.
    Það kom fram í máli hans að mjög margt er á döfinni, að fyrirhugað er að Járnblendiverksmiðjan taki þátt í því að búa til lífvænlegan rekstur. Hann nefndi mörg dæmi um það og sagði líka að óskaplega margir hefðu nálgast verksmiðjustjórnina í því skyni að fá styrk til verkefna eða til að fá þátttöku verksmiðjunnar í ýmsum verkefnum. Hann nefndi þar t.d. ræktun Miðjarðarhafsfisks í 25--30 gráðu vatni sem er þá affallsvatn eða á Kaliforníuskel sem lifir við 14--15 gráðu hita. Hann sagði frá því að hagnaður á verksmiðjunni hefði sl. ár orðið 487 millj. kr. Í ár væri kominn 270 millj. kr. hagnaður og líklegt að á miðju ári muni hagnaðurinn nema þeirri upphæð sem var á síðasta ári.
    Þá var og rætt um rafmagn til verksmiðjunnar og að verksmiðjan greiðir lægra rafmagnsverð en t.d. álverið. Hann upplýsti að samningur járnblendisins við Landsvirkjun er þannig gerður að komist eignarhlutfall verksmiðjunnar yfir 40% breytist samningurinn á þann hátt að rafmagnsverðið hækkar. Það gerðist einmitt um áramótin og munu því greiðslur til Landsvirkjunar verða hærri en á síðasta ári.
    Það kom og fram að það rafmagn sem Járnblendiverksmiðjan fær er varaafl og oft hefur komið fyrir þegar illa hefur árað í rafmagnsbúskap okkar Íslendinga að rafmagnið hefur verið tekið af með örskömmum eða engum fyrirvara.
    Eignarhlutfall ríkisins í verksmiðjunni er 55%. Útlendingar eiga afganginn eða Elkem, norskt fyrirtæki, og Sumitomo, japanskt fyrirtæki, og hugsunin með þessu frv. er að halda arðinum innan landsins. Ef arðurinn yrði greiddur út færu 45% af honum til útlanda, en með því móti sem er greint í frv. mun takast að fjárfesta í þekkingu, fjárfesta í fólki og stjórnun, en Járnblendiverksmiðjan og starfsliðið þar hefur náð undraverðum árangri hvað varðar tækni, hvað varðar ýmsar framfarir á þeim sviðum. Var það að heyra á nefndarmönnum að menn binda miklar vonir við frv., verði það að lögum, binda miklar vonir við hlutverk Járnblendiverksmiðjunnar sem er sennilega það fyrirtæki í dag hér á Íslandi sem stendur hvað best og á hvað besta möguleika að koma til hjálpar öðrum atvinnugreinum hér á landi.
    En niðurstaða nefndarinnar varð mjög samhljóða og hún er sú að nefndin mælir með samþykkt frv.