Kvöld- og næturfundir
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Forseti (Kjartan Jóhannsson):
    Í tilefni orða hv. 11. þm. Reykn. og fyrirspurnar til forseta, þá er það nú reyndar mín tilfinning þó að ég hafi ekki fyrir augum nein töluleg gögn að ekki sé öllu meira um næturfundi nú í þessari deild á þessu þingi heldur en hafi verið á undanförnum þingum. En eins og ég segi: Um það hef ég ekki töluleg gögn. Mér reyndari menn kunna kannski betur frá því að greina.
    Vitaskuld er ljóst að hætt er við að eitthvað þunnskipaðra verði á nætur- og kvöldfundum heldur en á þeim fundum sem haldnir eru á venjulegum tíma. Hins vegar tel ég mig sem forseta hafa gert talsmönnum flokkanna og framsögumönnum mála í gær grein fyrir því hvernig ég mæti aðstæður til þess að menn fengju að mæla fyrir málum sínum með hliðsjón af því álagi sem er í deildinni. Ég taldi mig hafa náð samstöðu um það eða það var a.m.k. stórmótmælalaust að því er mér sýndist að það verklag yrði viðhaft sem síðan varð ofan á, að leitast við að tæma þá dagskrá sem fyrir fundinum lá í gær.
    En ég vil vitaskuld af þessu tilefni hvetja þingmenn til þess að sækja þingfundi vel þegar þeir eru haldnir og leitast við af fremsta megni að sitja þingfundi hvenær sólarhringsins sem til þeirra er boðað þó að ég telji það skyldu mína að leitast við að þeir standi ekki fram á nætur nema í algjörum undantekningartilvikum.