Sjúkraliðar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja nokkur orð um tilurð þessa máls. Þannig hagar til að Kvennalistinn á ekki fulltrúa í heilbr.- og trn. en við höfum þar áheyrnarfulltrúa sem er sú sem hér stendur og hefur einu sinni verið boðuð á fund hjá heilbr.- og trn. þar sem aðilar frá bæði Félagi sjúkraliða og hjúkrunarfélögunum mættu til viðtals við nefndina.
    Það varð strax ljóst að þarna bar talsvert mikið í milli og málið var kannski miklu víðtækara heldur en kemur fram í þessu frv., snerist að miklu leyti um starfssvið sjúkraliða og hver réttindi þeirra og skyldur væru og menntunarmál sjúkraliða og margt fleira tengdist þessu máli.
    Ég vil líka taka það fram að til viðbótar við þennan fund, sem haldinn var á vegum heilbr.- og trn., höfum við í Kvennalistanum haft náið samstarf við báðar stéttir sem hér eiga hlut að máli og reynt að glöggva okkur á því hvað þarna ber í milli og hvað mætti til sátta verða. Ég hef ítrekað beðið um að vera kölluð á fundi hjá heilbr.- og trn. og formaður nefndarinnar hefur jafnítrekað gefið loforð um að ég yrði kölluð þangað en nú er hér allt í einu komin brtt. inn á borð til þingmanna ásamt nál. frá nefndinni og var ég hvergi nærri þegar sá fundur var haldinn, var ekki boðuð á hann og þar af leiðandi hefur mér ekki gefist kostur á að bera þessa lausn undir þessi stéttarfélög og vildi gjarnan gera það áður en málið verður til lykta leitt endanlega hér í deildinni. Og fyrst annað hefur ekki dugað til, þá vil ég fara fram á það héðan úr ræðustól að ég verði framvegis boðuð á fundi nefndarinnar þannig að mér gefist kostur á að fylgjast með þessu mjög svo viðkvæma máli.