Frumvarp til stjórnarskipunarlaga
Miðvikudaginn 19. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér er tekið á dagskrá frv. til stjórnarskipunarlaga, en eins og kunnugt er eru ákvæði stjórnarskrárinnar með þeim hætti að þegar Alþingi hefur samþykkt frv. til breytinga eða viðauka á stjórnarskránni ber að rjúfa Alþingi þegar í stað. Nú háttar svo til að í allmörg ár hefur starfað stjórnarskrárnefnd, að ég hygg samkvæmt ályktun Alþingis, og allir þingflokkar hafa átt aðild að nefndinni. Það frv. sem hér er flutt er flutt af helstu forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna sem sitja utan ríkisstjórnar ásamt fjórum öðrum hv. þm. Það er flutt af formanni þingflokks Framsfl. sem veitir núv. hæstv. ríkisstjórn formlega forustu, það er flutt af hæstv. forseta sameinaðs Alþingis og forseta þessarar hv. deildar. Ætla má með því hverjir flm. eru að ríkisstjórnarflokkarnir leggi á það mikla áherslu að taka málin úr höndum stjórnarskrárnefndar sem þeir eiga aðild að því að nauðsyn beri til að afgreiða á þessu þingi tillögur til breytinga og viðauka á stjórnarskránni sem aftur mundu leiða til tafarlauss þingrofs.
    Áður en þessi umræða hefst þykir mér þó nauðsynlegt með tilliti til þess að ríkisstjórnin stefnir að þinglausnum 6. maí og mörg mál eru enn óafgreidd að fá upplýsingar um það frá flm. og hæstv. ríkisstjórn hvort það er ætlan flm. og hæstv. ríkisstjórnar að afgreiða frv. á þessu þingi og rjúfa þá þing þegar í stað. Ég tel að það sé mikilvægt að fyrir því sé full vissa áður en umræðan hefst hver ætlan flm. og hæstv. ríkisstjórnar er í þessu efni.