Aðalnámsskrá fyrir grunnskóla
Föstudaginn 21. apríl 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það eitt hvernig til þessa þingfundar er stofnað og hvenær hann ber upp er því miður talandi dæmi um stöðu menntunar og menningarmála í landinu. Það var ekki gert ráð fyrir því að þingfundur yrði þennan dag og virtist sem flestir þingmenn hefðu reiknað með að svo yrði ekki. Jafnvel var það svo á miðvikudaginn að ljóst var að fjölmargir þingmenn höfðu þegar lýst því yfir að þeir væru uppteknir við önnur verkefni eða yrðu utan bæjar eða annað slíkt þannig að ljóst var að þessi fundur var ekki tekinn mjög alvarlega. Ég verð að segja að ég á bágt með að sjá að ef hér væri á dagskrá einhverjar álíka, eigum við að kalla það áætlanir í einhverjum verklegum framkvæmdum eða einhverju sem lyti að peningamálum væri þannig að málum staðið. Ég efast ekki um að þá væru fleiri hér viðstaddir.
    Það virðist nánast sem svo að hér sé stofnað til fundar til þess að tveir hæstv. ráðherrar, annar fyrrv., hinn núv., geti ræðst við og ekkert nema gott um það að segja en spurning hvort það hefði ekki bara átt að gerast undir hlýlegri og persónulegri aðstæðum en hér úr ræðustól á Alþingi með nokkrar hræður í sal þannig að samskiptin væru eðlilegri og líkari því sem gerist í öðrum mannlegum samskiptum.
    Það plagg sem hér er til umræðu er auðvitað aðalnámsskrá grunnskóla. Þó að það sé orðað svo að það sé skýrsla um undirbúning og efni aðalnámsskrár fyrir grunnskóla þá liggja þessi drög fyrir og þau hljóta að vera viðfangsefnið.
    Ekki ætla ég mér að blanda mér í nánast innanhúsdeilur, við skulum segja í menntmrn., eða milli tveggja ráðherra. Það er svo sem eðlilegt að þá greini á um eitthvað svo ólíkar forsendur sem þeir hafa. Og báðir njóta þeir þess að hafa verið og að vera innanbúðarmenn og geta þess vegna deilt um atriði sem kannski eru ekki öðrum eins ljós og þeim.
    Eftir því sem ég hef vit til og hef aflað mér upplýsinga um eru þessi drög að aðalnámsskrá sem hér eru lögð fram hið merkasta plagg og löngu tímabært. Er með þessari aðalnámsskrá e.t.v. komin sú stoð sem grunnskólalögin gera ráð fyrir, þ.e. að þarna styður hvað annað, að þau markmið sem sett eru í lögunum eru þarna útfærð í nánari skilgreiningum. Og ef maður ber þetta tvennt saman er greinilegt að þar stefnir að sama marki.
    Það mætti eflaust fara mörgum orðum um einstaka kafla þessa plaggs, bæði hvað varðar almenn markmið og síðan hverja námsgrein, en þar held ég, þegar kemur að námsgreinunum, að þurfi meiri faglega þekkingu en ég þykist hafa yfir að ráða og get lítið sagt annað en það að við lestur er greinilegur metnaður í hverju orði og hverri grein og tilgangur alls staðar mjög góður, þ.e. alls staðar er lögð mikil áhersla á þroska einstaklings og að nám skuli miðast við hæfni einstaklings og getu og reynt að koma til móts við hvern nemanda með sem fjölbreyttustum hætti sem er útlistað mjög vandlega fyrir hverja grein.
    En eins og ég sagði, mér finnst umfjöllun um

hverja grein vera frekar það sem fagfólk tekst á um og finnur e.t.v. á því einstaka annmarka, bæði í lýsingu námsefnis og markmiða. Fyrir leikmann kemur þetta allt mjög vel fyrir sjónir og ég hef í rauninni engu við það að bæta eða út á að setja að svo komnu máli.
    Hitt kemst maður ekki hjá að hugleiða við lestur þessarar skýrslu eða þessarar námsskrár, hversu óralöng leið virðist vera frá þeim orðum sem þar standa og þeim veruleika sem við svo búum við í skólastarfi. Ég á sjálf mörg börn í skóla, náttúrlega ekki í öllum aldursflokkum en mörgum, og ég verð því miður að segja það að ég mundi ekki kannast við þetta sem lýsingu þess náms sem börnin stunda, því miður. Með því er ég ekki að kasta rýrð á það starf sem hér hefur verið unnið og þau orð sem hér hafa verið sett á blað því að vissulega er markmið til að stefna að göfugt og þarft. Ég vona því að orð mín skiljist ekki á þann veg að það sé eins og hver annar hégómi að setja niður á blað þau markmið sem maður vill ná einhvern tíma í framtíðinni. Það breytir því þó ekki að maður verður hugsi við lestur þessarar námsskrár og það er ekki laust við að örlítið vonleysi eða jafnvel svartsýni nái nokkrum tökum á manni þegar maður sér í rauninni hversu óralangt er í land með að eins vel sé staðið hér að menntun eins og við sjálfsagt flest vildum, a.m.k. í orði, hvernig svo sem er nú staðið að framkvæmd.
    Ég fékk fyrir nokkrum dögum í hendur skýrslu frá hæstv. menntmrh. sem ég hafði að vísu beðið eftir í hátt á annað ár. Sú skýrsla er um stöðu lista- og verkmenntagreina, heimilisfræði og íþróttakennslu í skólum landsins. Sú skýrsla segir margt og merkilegt um það ástand sem ríkir í skólamálum þó að hún vissulega taki aðeins á hluta námsefnis í skólum, en í þeim greinum sem þarna um ræðir er ástandið slíkt að það er til háborinnar skammar. Þarna er þó um að ræða fög sem fá veglegan sess hér í þessari námsskrá og er síst gert lægra undir höfði en öðrum fögum. Og í raun þegar maður les þann kafla sem heitir ,,Hlutverk og meginmarkmið grunnskóla`` sem fjallar almennt um starfshætti skólanna, skólann og tengsl hans við samfélagið, menningu og þjóðfélag og skólann sem vettvang menntunar og þroska nemenda, markmið menntunar og heilbrigða ábyrgð í umgengni við líf og umhverfi. Í þessum kafla
er aftur og aftur lögð áhersla á örvun ýmissa þeirra eiginleika sem ekki verða e.t.v. mældir endanlega, hvorki í einkunnum né peningum, en eru þó bæði hér í þessum drögum og víða annars staðar talinn sá grundvöllur sem sé æskilegur bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélag eða samfélag. Þeir eiginleikar, svo sem eins og samábyrgð, skilningur á umhverfi og öðrum þegnum þjóðfélagsins, þroskun sköpunargáfu, örvun fagurskyns o.s.frv., hér mætti finna orð þar að lútandi á hverri síðu, verða kannski best þroskaðir einmitt með kennslu í þeim greinum sem ég taldi upp áðan en fara svo halloka eins og raun ber vitni í skólakerfinu.
    Fróðlegt væri að vísu að fá sams konar upplýsingar

um aðrar greinar, en þá væri náttúrlega um að ræða gagngera heildarúttekt á skólakerfinu öllu. Slíkt er ekki auðvelt viðfangs og auðvitað er engin tilviljun að ég og aðrir skýrslubeiðendur leituðu eftir upplýsingum einmitt í þessum greinum. Það er auðvitað gert vegna þess að það vita allir sem eitthvað til þekkja hversu skarðan hlut þær bera frá borði. Ég nefni þetta einungis sem dæmi um það hve langt er á milli orðs og æðis. Það er auðvitað margt sem veldur, þessar greinar eru e.t.v. kostnaðarsamar, þær útheimta sérstaka aðstöðu í skólanum, aðstöðu til kennslu og þær útheimta líka sérþekkingu kennara. En samkvæmt þessari skýrslu er miklu ábótavant í öllum þessum þáttum.
    Það er annað sem vekur athygli við lestur þessarar námsskrár og það er þær ströngu kröfur sem gerðar eru til kennara. Það er í rauninni nærri endalaus listi ef maður dundaði sér við það dágóða stund að skrifa niður þau lýsingarorð sem koma fyrir þegar verið er að lýsa þeim eiginleikum sem góður kennari á að búa yfir. Því eru engin takmörk sett hversu fullkominn hann skal vera, bæði sem einstaklingur og faglega. Svo nokkur dæmi séu tekin, af handahófi í þeirri röð sem þau birtust við lestur námsskrárinnar:
    Hann á m.a. að vera jákvæður, hlýlegur, traustvekjandi, hjálpsamur, hvetjandi, skilningsríkur, hugmyndaríkur. Hann á að sinna hverju barni sem einstaklingi, kynna sér persónulega hagi hans, vandamál, getu, hæfileika og áhuga og sinna síðan hverjum nemanda í samræmi við þessa þekkingu á honum sem einstaklingi. Hann á að ganga á undan með góðu fordæmi í öllum hlutum. Hann þarf að vera jafnréttissinnaður, víðsýnn. Hann má ekki mismuna nokkrum, hvorki eftir kynferði, búsetu, litarhætti, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu. Hann á að hafa gott og náið samstarf við heimili og foreldra. Hann á að taka virkan þátt í allri skipulagningu innra starfs skólans. Sín eigin störf skal hann sífellt endurmeta. Hann á að endurmennta sig, fylgjast vel með. Hann á stöðugt að endurskoða og endurmeta bæði með tilliti til þarfa einstaklings og þjóðfélags og svo mætti lengi áfram telja.
    Ef þessu er öllu safnað saman þá er nánast mættur þarna sá fyrirmyndareinstaklingur sem við vildum gjarnan sjá, ekki bara sem kennara heldur alls staðar. ( Gr ipið fram í: Og á Alþingi.) Á Alþingi m.a. Sem sagt: Mjög jákvæðir og góðir, mannlegir eiginleikar og faglegir.
    En þá verður manni aftur hugsað til þess hvernig þetta er svo metið í raun. Því það er nú einu sinni svo að þegar kemur svo að því fyrir þjóðfélagið að meta þennan einstakling sem við gerum allar þessar kröfur til, þegar kemur að því að meta hann til fjár, þá er útkoman harla lítil og ekki til að státa af. Kannski er það bara þannig að okkur gengur svona illa að meta nokkra eiginleika sem ekki verða, eins og ég sagði áðan, mældir annaðhvort í stigum eða með einhverjum öðrum áþreifanlegum og skiljanlegum hætti.
    Ég efast satt að segja um að það sé nokkur stétt

sem við leggjum aðra eins ábyrgð á eins og kennarastéttin. Við höfum nánast afhent kennurum stóran hluta uppeldis barna okkar og þar af leiðandi framtíð þessa lands. Kennarar hafa unnið og vinna enn gríðarlega óeigingjarnt og mikið starf til þess að rísa undir þeim kröfum sem við gerum til þeirra og til að rísa undir þeirri ábyrgð sem þeim er lögð á herðar.
    Þeir leggja mikið af mörkum til að móta og þróa skólastarf og reyna að breyta og bæta, nemendum og samfélaginu öllu til hagsbóta. Þetta hafa þeir oftar en ekki unnið af áhuganum einum og ábyrgðartilfinningu en ekki vegna þess að þeir hafi setið við það löngum stundum á góðum launum.
    Íslenskir kennara eiga í dag í kjarabaráttu og þess sér engin merki í viðbrögðum stjórnvalda við þeirri kjarabaráttu að þau kunni að meta alla þá eiginleika og alla þá þekkingu sem þeim er ætlað að hafa hér í þessu plaggi. Því hlýtur maður að spyrja: Hvar og hvernig á að koma þessu öllu til framkvæmda? Hvar er tíminn? Hvar eru peningarnir? Hvar er aðstaðan? Hvar er viljinn?
    Nú hefur það verið svo að nú um langt skeið, einn og hálfan áratug, að það fjármagn sem fer í skólastarf á Íslandi er nokkurn veginn óbreytt hlutfall af því fé sem er til skiptanna. Það hlutfall hefur verið nánast óbreytt núna um mjög langan tíma þrátt fyrir síauknar kröfur sem við gerum öll til menntunar, þrátt fyrir aukna nauðsyn þess að vel sé að verki staðið í síbreytilegu og flóknu samfélagi sem gerir miklar þekkingarkröfur til einstaklinganna og miklar kröfur um hæfni og getu þeirra þegar til starfa kemur. Þrátt fyrir að
þetta hlutfall hafi verið nánast óbreytt svo lengi, þá er núna boðaður niðurskurður, 4% niðurskurður, án þess að nokkrar upplýsingar hafi fengist um það hvar þessi niðurskurður eigi að koma fram.
    Nú er ég ekki að lasta það að til skóla séu gerðar kröfur jafnt og til allra annarra um það að halda vel á fjármálum og að alls staðar þar sem því verði við komið sitji sparnaður og hagsýni í fyrirrúmi. En í fyrsta lagi hafa engar yfirlýsingar verið gefnar um það hvar eigi að skera niður og í öðru lagi finnst manni ekki þannig ástatt í íslenskum skólum að þeir megi við miklum niðurskurði. Þvert á móti verður krafa flestra í samfélaginu sterkari og sterkari um lengingu skóladags.
    Hér hafa hvað eftir annað verið nefndar tölur um hvaða kostnaður t.d. fylgdi því að kom hér á einsetnum samfelldum skóladegi, sem er manni nánast hulin ráðgáta af hverju hefur ekki verið komið á fyrir löngu. Það hefur engri annarri þjóð dottið í hug að standa þannig að menntun að það væri einhver íhlaupastarfsemi nokkra klukkutíma á dag. En það getur ekki verið á dagskrá á næstunni að koma þarna til móts við þarfir nemenda, foreldra og samfélagsins alls, því ekki verður það gert með 4% niðurskurði. Maður eygir því ekki, a.m.k. ekki í náinni framtíð, nokkra möguleika á því að þessi aðalnámsskrá verði mikið meira heldur en fögur orð á bók.
    Ég vil ítreka aftur að ég lasta það alls ekki að

plagg sem þetta skuli samansett og skuli gefið út öllum til halds og trausts en einungis undirstrika aftur að það varpar skýru ljósi á þann reginmun sem þarna er á milli markmiða og raunveruleikans.
    Ég held ég þurfi ekkert í rauninni að fjölyrða meira um orsakir þess hversu mikill munur er þarna á orði og æði því að í raun og veru kemur það allt að sama punkti hvort sem það birtist í of stórum bekkjum, of litlum húsum, of lítilli aðstöðu, of fáum kennurum, of fáum kennurum með réttindi í viðkomandi greinum o.s.frv., allt dregst þetta saman í einn punkt að lokum og það er hvaða fjármagn skólarnir hafa til umráða. Og þar eru ekki nein teikn á lofti um meiri peninga í bráð, nema síður sé.
    Glöggt dæmi um það hvernig kennarar hafa reynt að bregðast við við vondu ástandi er t.d. sú gífurlega vinna sem kennarar leggja í gerð námsefnis sökum þess hve mikill skortur er á góðum námsgögnum. En það fer ekki fram hjá manni sem foreldri sem fær daglega mörg börn heim úr skóla með verkefnin í töskunni að þetta er, ef hægt er að orða það þannig, heimatilbúið að stórum hluta til. Endalaus blöð, blöð og aftur blöð, fjölrituð, ljósrituð, og þar af leiðandi eru þau hvorki falleg á að horfa eða skemmtileg að handfjatla vegna þess hvað þetta er gert af miklum vanefnum, en eru þó viðbrögð við ástandi og það auðvitað jákvæð viðbrögð og jákvæð viðleitni, en talandi dæmi um hve illa er komið þegar einhvers konar pappírsframleiðsla frá degi til dags eru úrræði sem kennarar verða að grípa til í æ ríkara mæli. Auðvitað er það alltaf svo að kennarar búa til námsefni og búa til verkefni, en ég held að þetta blaðaflóð sem við foreldrar þekkjum núna á heimilunum sé ekki jákvæð birtingarmynd þess að kennarar stuðli að því að námsefni sé lifandi og síungt, heldur dæmi um neyðarúræði. Fyrir utan að maður hugsar stundum sem svo: Hvar eiga börnin að læra að handfjalla bækur ef ekki er lengur um það að ræða að þau fái bækur í skólum til að hafa á milli handanna og lesa frá upphafi til enda? Hvar eiga þau þá að læra það á þessum ljósvakatímum?
    Ég ætla ekki að vera að tíunda hér lengur þá ágalla sem finna má á skólakerfi og framkvæmd þess eða ágæti þessa plaggs, en vil einungis ítreka hér að lokum að það þjóðfélag er á villigötum sem metur ekki undirstöðu sína meira en raun ber vitni og þá dugir ekki að setja einhver orð niður á blað.