Utanríkismál
Mánudaginn 24. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég legg hér fram til umræðu á þskj. 908 skýrslu um störf norrænu ráðherranefndarinnar á síðasta starfstímabili, þ.e. á milli þinga Norðurlandaráðs, en ég gegni störfum samstarfsráðherra í núverandi ríkisstjórn Í ráðuneyti Þorsteins Pálssonar gegndi hv. 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, þeim störfum. Samstarfsráðherra til aðstoðar er skrifstofa Norðurlandamála í utanrrn. Þar eru tveir starfsmenn.
    Í skýrslunni sem liggur fyrir þingheimi er gerð grein fyrir nokkrum mikilvægum þáttum í starfi ráðherranefndarinnar á síðustu missirum, en þessi missiri hafa einmitt verið tími breytinga og nýsköpunar í norrænni samvinnu. Norræn samvinna hefur á þessum tíma í vaxandi mæli beinst að því að styrkja stöðu Norðurlanda út á við.
    Ég vil annars vegar nefna sérstaklega aukna áherslu á umhverfismál sem m.a. kom fram á aukaþingi Norðurlandaráðs um þau efni, en þingið var haldið á Helsingjaeyri í Danmörku um miðjan nóvember sl. Þar var samþykkt norræn umhverfisverndaráætlun og sérstök áætlun um varnir gegn mengun sjávar.
    Hins vegar vil ég sérstaklega minnast á stóraukna umfjöllun á vettvangi Norðurlandaráðs um afstöðu Norðurlandaríkja gagnvart þeim breytingum sem verða í Evrópu vegna þróunarinnar innan Evrópubandalagsins. Sérstakt aukaþing Norðurlandaráðs verður haldið um efnið Norðurlönd og Evrópa næsta haust.
    Sífellt fleiri umhverfisslys hafa snert Norðurlandabúa á undanförnum árum. Ég nefni Tsjernóbíl-kjarnorkuslysið, ég nefni ofvöxt þörunga vð vesturströnd Skandinavíu í fyrravor, ég nefni skógardauða og súrnun vatna, vaxandi tíðni sjúkdóma sem rekja má til óheilnæms umhverfis, offjölgun vöðusels og fjölgun sníkjudýra í fiski. Ég nefni mengun sjávar sem við vorum svo rækilega minnt á fyrir nokkrum dögum þegar kjarnorkuknúinn og kjarnorkuvopnaður kafbátur fórst á norðurslóðum. Hér þarf tafarlausar og markvissar aðgerðir og þær eru þegar hafnar á vegum Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar. Ég minni á samþykktir aukaþingsins á Helsingjaeyri í nóvember sl. um mengun sjávar, en þar var þó aðeins fjallað um fyrstu skrefin. Hér heima þurfum við að ná markvissari stjórn á umhverfisvernd og stjfrv. um umhverfisráðuneyti er þáttur í því.
    Fyrir okkur Íslendinga er baráttan gegn mengun sjávar hin nýja landhelgisbarátta. Í þeirri baráttu er Norðurlandasamstarfið mjög mikilvægur vettvangur. Á næsta þingi Norðurlandaráðs hér í Reykjavík að ári verður mál málanna endurskoðun á norrænu áætluninni um varnir gegn mengun sjávar. Við Íslendingar verðum að búa okkur vel undir það verk.
    Varðandi afstöðu Norðurlanda gagnvart þeim breytingum sem verða nú í Evrópu, einkum myndun svonefnds innri markaðar Evrópubandalagsríkja árið 1992, er þess að geta að sérstakur starfshópur á vegum samstarfsráðherranna vinnur nú að áætlun þar

sem grunnur verður lagður að þeim ákvörðunum sem taka verður á næstu árum og þeim aðgerðum sem grípa þarf til til þess að styrkja stöðu Norðurlanda í stjórnmála- og efnahagsþróun Vestur-Evrópu. Niðurstöður þessa starfshóps munu liggja fyrir í lok maímánaðar eða í byrjun júnímánaðar í mynd starfsáætlunar fyrir árin 1989--1992. Ráðherranefndin mun svo leggja fram endanlega tillögu um starfsáætlun um þessi viðfangsefni fyrir aukaþing Norðurlandaráðs sem háð verður á Álandseyjum í nóvember nk.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, við þetta tækifæri að rekja einstök atriði í skýrslu minni og þaðan af síður mun ég freista þess að segja ítarlega frá yfirlitsskýrslu ráðherranefndarinnar um árið 1988, en sú skýrsla var send Norðurlandaráði í desember 1988 og er 341 blaðsíða að lengd. Þar er gerð ítarleg grein fyrir hinni fjölþættu norrænu samvinnu. Á árinu setti það mikinn svip á starfsemina að norræn samvinna beinist nú í vaxandi mæli út á við vegna þróunarinnar í Evrópu og að umhverfismálum eins og ég hef þegar nefnt, en jafnhliða hefur hin hefðbundna starfsemi sem snertir nær öll svið þjóðlífsins haldið áfram af fullum krafti.
    Á 37. þingi Norðurlandaráðs, sem haldið var dagana 27. febr. til 3. mars 1989 í Stokkhólmi, voru bornar upp tíu ráðherranefndartillögur.
     1. Tillaga um norrænan samning um almannaskráningu.
     2. Tillaga um norrænan samning um vinnuvernd.
     3. Tillaga um samstarfsáætlun á sviði neytendamála.
     4. Tillaga um framkvæmdaáætlun um norrænt samstarf á sviði jafnréttismála.
     5. Tillaga um framkvæmdaáætlun um varnir gegn krabbameini.
     6. Tillaga um endurskoðaða norræna ferðamálaáætlun.
     7. Tillaga um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992 með heitinu ,,Öflugri Norðurlönd``.
     8. Tillaga um áætlun um norræna orkumálasamvinnu árin 1989--1992.
     9. Tillaga um samstarfsáætlun um sjávarútvegsmál.
    10. Tillaga um breytingar á menningarmálasamningnum.
    Allar þessar tillögur voru vandlega undirbúnar af embættismannanefndum ráðherranefndarinnar, auk þess sem viðkomandi fastanefndir Norðurlandaráðs fjölluðu um þær. Á 37. þinginu í Stokkhólmi voru tillögurnar allar samþykktar. Í skýrslunni sem dreift hefur verið í þinginu á þskj. 908 er þessum tíu
tillögum lýst í örstuttu máli. Ég mun ekki fjalla frekar um efni þeirra en vísa til skýrslunnar.
    Þá kem ég að því að í ráðherranefndinni hefur verið um það fjallað að hvaða verkefnum skuli einkum unnið í því skyni að styrkja Norðurlöndin inn á við og þar verður áherslan lögð á þessi atriði:
    1. Norðurlönd sem heimamarkað, þ.e. halda áfram því starfi að ryðja úr vegi tálmum gegn viðskiptum milli Norðurlandanna.

    2. Norðurlönd sem sameiginlegan markað fyrir flutningaþjónustu.
    3. Eflingu norræns samstarfs á sviði menningar- og menntamála, og loks
    4. þegnréttindi Norðurlandabúa, þ.e. gagnkvæm réttindi þeirra sem upprunnir eru í öðru Norðurlandaríki en því ríki sem þeir búa í.
    Þetta eru þau mál sem snúa að því að efla innviði hins norræna samstarfs, en þá hefur ráðherranefndin einnig fjallað um hvernig best megi tryggja áhrif Norðurlandanna á þróun mála í Evrópu á þeim sviðum þar sem þau hafa verið í fararbroddi. Ég nefni þar fyrst og fremst umhverfisvernd, vinnuvernd og neytendamál, en þessi þrjú verksvið verða þau sem Norðurlöndin sameiginlega munu leggja áherslu á til þess að hafa áhrif á þá þróun sem verður í Evrópu á næstu árum. Þetta felur alls ekki í sér að Norðurlöndin muni ekki hvert fyrir sig og um farveg EFTA freista þess að ná sem bestum árangri á viðskiptasviðinu og Norðurlandasamvinnan kemur alls ekki í stað þeirra leiða til þess að treysta sem best samband okkar við önnur Evrópuríki heldur eru þetta þau þrjú svið sem samstarfsráðherrarnir hafa komið sér saman um og Norðurlandaráð að séu vænlegust og best til þess fallin að Norðurlönd geti mótað þá þróun sem verður í Evrópu á næstu árum.
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki orðlengja frekar um starf norrænu ráðherranefndarinnar á liðnu ári, en minni á að við hljótum öll, sem Norðurlönd byggjum, einhuga að taka þátt í efnahagssamvinnu Vestur-Evrópuríkja. Við verðum jafnframt að kappkosta að dragast ekki aftur úr stórþjóðunum á sviði tækni og vísinda. En við verðum jafnframt að slá skjaldborg um hina norrænu þjóðfélagsgerð sem á rætur sínar í sameiginlegum menningararfi, lýðræðishefð og umhyggju fyrir þeim sem minna mega sín í lífsbaráttunni. Ég vona að skýrsla mín sýni að norræna ráðherranefndin hafi haft þetta að leiðarljósi í sínum störfum.