Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Benedikt Bogason:
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna að hafa hemil á mælsku minni. Nú í ár eru 45 ár síðan við Íslendingar öðluðumst fullt sjálfstæði og tókum þar með í eigin hendur alla stjórn utanríkismála okkar. Heimsstyrjöldin síðari var í algleymingi. Ísland hersetið af bandamönnum en gamla herraþjóðin, Danir, mátti þola hersetu Þjóðverja. Stríðinu lauk ári síðar og heimurinn sat eftir á rústum dauða og eyðileggingar. Siðmenningin hafði beðið skipbrot. En ekki átti fyrir sigurvegurunum eða öðrum að liggja að setjast á friðarstól. Upp hófst kalda stríðið, einkum milli ofríkisstefnu kommúnistaríkjanna undir harðstjórn Stalíns og hins vestræna heims sem smám saman hafði þroskast frá fyrri tíma nýlendukúgunar.
    Allt fram undir síðustu ár hafa þjóðir heims orðið að búa við ógnarjafnvægi stigvaxandi vopnakapphlaups, að loksins er tekið að rofa til og veruleg slökun orðið. Enn þá búa þjóðir heims við það ástand að aðeins hluti sprengjubirgða kjarnorkuveldanna getur þurrkað út allt mannkyn auk alls kyns stórvirkra drápstækja, svo sem sýkla- og efnavopna. Hefðbundnar byssur og sprengjur, skriðdrekar og byssubátar eru nú aðeins barnaleikföng marskálkanna í samanburði við ósköpin og sverð og spjót fyrri alda eins og naglasköfur þótt iðulega yrði mikið mannfall við notkun þeirra. En eitt er víst: Milli heimsstyrjaldanna tveggja á öldinni liðu aðeins 22 ár, en nú hefur liðið tvöfaldur sá tími án þess að stríðsátök hér og þar um heim hafi náð að breiðast út.
    Á sama tíma og fyrrnefnd spenna hefur ríkt hér á jörðu hafa orðið meiri tækniframfarir en í allri mannkynssögunni áður. Þessar framfarir hafa m.a. leitt til þess að almenn samskipti milli þjóða hafa margfaldast, menningarleg sem viðskiptaleg. Óbreyttir borgarar ferðast heimshorna á milli og viðskipti blómgast milli andfætlinga á jörðinni, samanber vaxandi viðskipti okkar við Japana.
    Inn í þessa þróun sem á undan er lýst lendum við Íslendingar, tæplega búnir að rjúfa aldalanga einangrun hér norður við Dumbshaf. Samhliða hraðri uppbyggingu frá því að heita bjargálna til þess velferðarríkis sem við búum við í dag höfum við orðið að fastmóta okkar stefnu gagnvart umheiminum sem svo að segja hefur hvolfst yfir okkur á þessum tíma. Við höfum orðið að mæta ,,læpuskaps ódyggðum eikjum með flæða``, eins og skáldið sagði, í ríkulegum straumum. En hvernig hefur til tekist? Nokkuð vel, finnst mér, ef á heildina er litið.
    Eftir bitra reynslu heimsstyrjaldarinnar hurfum við frá hlutleysisstefnu 1949 og skipuðum okkur í hóp vestrænna lýðræðisríkja er við gengum í NATO. Í kjölfarið gerðum við svo varnarsamning við Bandaríkin 1951. Þetta var að sjálfsögðu hitamál í umróti kalda stríðsins, en mikill meiri hluti þjóðarinnar vildi fara þessa leið þá og æ síðan.
    Snörp andstaða herverndarandstæðinga fyrstu árin hefur smám saman veikst, Keflavíkurgöngur orðið þreyttari og fámennari og hafa svo lagst af nú síðustu ár. Stefna stjórnvalda hefur verið að forðast sem mest

árekstra vegna veru varnarliðsins og æ fleiri Íslendingar viðurkennt nauðsyn á vörnum í válegum heimi. Á hinn bóginn hefur verið mikil tregða hjá stjórnvöldum að gera ýmsar breytingar miðað við breyttar forsendur, svo sem í sambandi við verktakavinnu og tengingu almannavarna við varnarkerfi NATO. Það má segja að við svo að segja stukkum inn á vettvang heimsmálanna er við gerðumst fullgildir aðilar að Sameinuðu þjóðunum 19. nóv. 1946. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður 26. júní 1945 í San Francisco, í lok ráðstefnu þar, og gekk í gildi 24. október sama ár.
    Þjóðabandalagið sem stofnað var eftir fyrri heimsstyrjöld reyndist gagnslaust þegar á reyndi, en nú skyldi gengið þannig frá hlutunum að til gagns mætti verða. Það hefur svo sannarlega orðið þó að oft hafi blásið á móti. Grundvallaratriðin felast í sáttmálanum sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Vér hinar Sameinuðu þjóðir staðráðnar í
    að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið,
    að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða hvort sem stórar eru eða smáar,
    að skapa skilyrði fyrir því að hægt sé að halda uppi réttlæti og virðingu fyrir skyldum þeim er af samningum leiðir og öllum heimildum þjóðréttar að stuðla að félagslegum framförum og bættum lífskjörum án frelsisskerðingar,
    og ætlum í þessu skyni að sýna umburðarlyndi og lifa saman í friði svo sem góðum nágrönnum sæmir,
    að sameina mátt vorn til að varðveita heimsfrið og öryggi,
    að tryggja það með samþykkt grundvallarreglna og skipulagsstofnun að vopnavaldi skuli eigi beita nema í þágu sameiginlegra hagsmuna og starfrækja alþjóðaskipulag til eflingar fjárhagslegum og félagslegum framförum allra þjóða
    höfum við orðið ásáttar um að sameina krafta vora til að ná þessu markmiði.
    Því hafa ríkisstjórnir vorar, hver um sig, fyrir milligöngu fulltrúa er saman eru komnir í borginni San Francisco og lagt hafa fram umboðsskjöl sín er reynst hafa í góðu og réttu lagi komið sér saman um þennan sáttmála hinna Sameinuðu þjóða og stofnað hér með alþjóðabandalag sem bera skal heitið hinar Sameinuðu þjóðir.``
    Utanríkisstefna okkar hefur verið í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna og svo er enn. Í bakgrunni er hin nána samvinna Norðurlandanna svo og þátttaka í ýmsum samtökum Evrópuþjóða.
    Virðulegi forseti. Ég hef reynt hér í almennum orðum að lýsa þeim grundvelli sem blasti við okkur borgaraflokksfólki er við mótuðum stefnu okkar í utanríkismálum fyrir kosningarnar 1987 og áréttuðum á landsfundi um haustið.
    Nú þegar skýrsla hæstv. utanrrh., Jóns Baldvins Hannibalssonar, er til umræðu tel ég rétt, með leyfi

forseta, að lesa helstu atriðin úr utanríkisstefnu okkar undir fyrirsögninni ,,Alþjóða- og öryggismál``.
    ,,Gæta þarf fullrar reisnar í samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir, læra það besta af þeim og miðla því besta frá okkur til þeirra á öllum sviðum mannlegra samskipta. Ísland á samstöðu með öðrum vestrænum þjóðum vegna menningar og sögu þjóðarinnar.
    Mikilvægt er að taka þátt í samstarfi Sameinuðu þjóðanna og norrænni samvinnu.
    Efla þarf viðskipta- og tækniþátt utanríkisþjónustunnar. Í ljósi örra framfara í allri samskiptatækni ber að hafa skipulag utanríkisþjónustunnar í stöðugri endurskoðun. Þess sé gætt að fjölga kjörræðismönnum á helstu markaðssvæðum þjóðarinnar og fleiri kjörræðismenn tilnefndir á væntanlegum markaðssvæðum.
    Ísland er aðili að varnarbandalagi vestrænna þjóða, NATO. Eðlilegt er að varnarsamningurinn við Bandaríkin verði endurskoðaður með reglulegu millibili. Lögð verði ríkari áhersla en áður á almannavarnir og öryggismál Íslendinganna sjálfra í varnarsamstarfinu. Almannavörnum ríkisins verði gert kleift að sinna lögboðnum verkefnum sínum og nægur sérhæfður starfsmannafjöldi verði tryggður til þess.
    Hjálpar- og björgunarsveitum verði tryggður starfsvettvangur, t.d. með niðurfellingu aðflutningsgjalda á búnaði. Auk þess skulu starfsskilyrði Landhelgisgæslu og lögreglu bætt og starfsemi þeirra tryggð. Komið verði á fót sameiginlegri þjálfunarstöð allra aðila sem vinna að almannavörnum.
    Stuðlað verði að eðlilegum viðskiptum varnarliðsins við Íslendinga, t.d. með því að þeir kaupi framleiðsluvörur og þjónustu af Íslendingum. Alþingi beiti sér fyrir því að öll verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli verði tekin til endurskoðunar.
    Sjálfsagt er að taka þátt í öllum umræðum um afvopnunarmál er leitt geta til varanlegs friðar og eyðingar kjarnorkuvopna.
    Borgfl. fagnar fram komnum hugmyndum um alþjóðlegt friðarsetur á Íslandi. Borgfl. fagnar samkomulagi stórveldanna um fækkun gereyðingarvopna og árangri þeim sem þegar hefur náðst í afvopnunarmálum. En jafnframt lýsir flokkurinn sérstökum áhyggjum af stóraukinni hættu sem leiðir af umferð með kjarnorkuvopn á úthöfunum. Því hvetur Borgfl. til þess að Íslendingar beiti sér fyrir því að koma í veg fyrir umferð með kjarnorkuvopn um Norður-Atlantshaf. Mengunarslys í úthöfum eru slík ógn að einskis má láta ófreistað til að koma í veg fyrir þau.``
    Þrátt fyrir margvíslegar sveiflur á flestum sviðum stjórnmála hefur ríkt stefnufesta og verið sæmilegur friður um utanríkismálin. Þessi skýrsla hæstv. utanrrh. ber með sér að ekki er um neina grundvallarbreytingu að ræða frá stefnu fyrri ríkisstjórnar. Skýrslan er mjög ítarleg og vel úr garði gerð sem slík. Í stórum dráttum fellur stefnan í utanríkis- og varnarmálum að stefnu okkar í Borgfl., enda kannski auðvelt að fóta sig í þeirri slökun sem orðið hefur í alþjóðamálum allt frá

árinu 1985. Þau langþráðu straumhvörf hafa glætt vonir heims um nýrri og betri veröld þótt ógnir kjarnorkuvígbúnaðar, efna- og sýklavopna og sívaxandi mengun valdi þungum áhyggjum. Auk þess er það mörgum áhyggjuefni að vaxandi skuldasöfnun þróunarríkja við iðnríki hefur nú á þessum áratugum smám saman leitt til þess að allar efnahagslegar framfarir hafa stöðvast víða í þróunarríkjunum, sem eiga fullt í fangi með að greiða vexti, hvað þá afborganir af uppsöfnuðum ríkisskuldum. En þessi staða gæti valdið alvarlegri kreppu víða um lönd, ekki síst í iðnríkjunum sjálfum.
    Það fer vel á því að á 40 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna á liðnu ári skuli aukin mannréttindi fylgja vígbúnaðarslökun og efnahagsframförum í sumum ríkjum Austur-Evrópu. Og það er tímanna tákn að sósíaldemókratískur utanrrh., vinstra megin við miðju með marxískum bakgrunni, skuli í skýrslu sinni (neðst á bls. 8) hafa fengið beint í æð í heimsókn sinni í Póllandi opinskáa viðurkenningu á því að miðstýrt hagkerfi marx-leninísmans, sem þröngvað var upp á Pólverja á árunum eftir stríð, væri höfuðástæðan fyrir efnahagslegum ógöngum þeirra nú.
    Við fögnum þeim ásetningi að auka þróunaraðstoð við vanþróaðar þjóðir, fikra sig að því 0,7% markmiði, þ.e. 0,7% af þjóðarframleiðslu sem OECD, Efnahags-
og framfarastofnun Norður-Evrópu, þ.e. lönd OECD hafa sett sér. Hins vegar þarf að marka ákveðna stefnu um hvernig aðstoðin er veitt, að við veitum þjóðunum hlutdeild í þekkingu okkar og reynslu í þeim efnum sem við skörum fram úr, svo sem allt varðandi útgerð og fiskvinnslu, orkunýtingu, vatnsöflun o.fl., með því að kosta sérfræðinga og búnað á staðinn en forðast að senda peninga nema um neyðarhjálp sé að ræða og þá fremur íslensk matvæli og fatnað.
    Hvalamálið hefur mætt mikið á okkur Íslendingum og þrátt fyrir deildar skoðanir um vísindaáætlun okkar er ljóst að við verðum nú að fylgja fast eftir stefnu þeirri sem ríkisstjórnin hefur fylgt, mæta ofbeldi grænfriðunga með festu í hvala- og selamálum. Hins vegar ber okkur að virða baráttu þessara samtaka fyrir bættu umhverfi. Við eigum allt undir því að okkur takist að halda hvers konar mengun frá fiskimiðum okkar, landi, legi og lofti. En það hefur komið fram hjá erlendum vinum okkar og viðskiptavinum að allt of lítið hefur verið gert af hálfu stjórnvalda á Íslandi til að kynna málstað okkar erlendis. Á þessu ætti ríkisstjórnin að gera bragarbót, t.d. með því að kaupa kvikmynd Magnúsar Guðmundssonar um grænfriðunga og dreifa henni sem víðast. Af hverju ekki að ráða hann til að skipuleggja kynningarherferð? Hann virðist kunna það vel.
    Aukin hlutdeild okkar í þróun áætlana varðandi varnir landsins er mikilvægt mál, svo og þátttaka okkar í rekstri ratsjár- og fjarskiptastöðva. Einnig er leitast við að auka virkni okkar í starfi Atlantshafsbandalagsins, auka fræðslu og upplýsingar,

hætta öllum feluleik og beina athyglinni að almannavörnum fólksins í landinu gegn hvers konar vá. Endurnýja þarf form verktöku fyrir varnarliðið og auka kaup varnarliðsins á íslenskum vörum og þjónustu. Sérstaklega þarf að færa alla hönnun mannvirkja til Íslendinga. Við þekkjum best aðstæður í okkar landi og getum leyst öll almenn tæknimál.
    Bygging fullkomins varaflugvallar á vegum NATO á Íslandi virðist hálfgert feimnismál hjá ríkisstjórninni, sennilega vegna þröngra sjónarmiða sumra alþýðubandalagsmanna eins og kom reyndar fram hjá síðasta ræðumanni --- og skilst mér að hann hafi talað bara mjög stutt um það mál miðað við allt sem hann hefði viljað sagt hafa. En könnun á málinu ætti engan að skaða.
    Það skref að færa utanríkisviðskiptin til utanrrn. árið 1987 var framfaraspor. Við þróun hins nýja fyrirkomulags er nauðsynlegt að hafa í huga það yfirlýsta markmið ríkisstjórnarinnar að laga íslenskt atvinnulíf að breyttum viðskiptaháttum vegna sameiginlegs markaðar Efnahagsbandalagsins og tryggja viðskiptastöðuna, ekki síst í gegnum EFTA, en án þess að ganga í bandalagið. Stórefla þarf viðskipti við lönd utan Efnahagsbandalagsins og kanna möguleika á fríverslunarsamningi við Bandaríkin.
    Lega landsins á miðju Atlantshafi hefur gífurlega kosti varðandi viðskiptamöguleika í allar áttir. Innganga í EB mundi í einu vetfangi stórskaða þá stöðu auk ýmissa annarra grundvallaratriða varðandi frelsi og menningu smáþjóðar sem ég ætla ekki að fara út í að sinni. Í stórum dráttum verðum við með dugmiklu sölu- og markaðskerfi að ná jákvæðum viðskiptajöfnuði næstu árin. Grundvöllur þess er að sjálfsögðu einnig efnahagslegt jafnvægi innan lands. Það þarf að afnema alla sjálfvirkni vísitalna og skrá gengið rétt miðað við stöðu innlends samkeppnisiðnaðar, ekki síður en við stöðu útflutningsgreina þannig að atvinnurekstur geti skilað hagnaði hér á landi og sitji við sama borð og erlendir keppinautar. Ef þetta er gert kvíði ég engu um nánustu framtíð Íslands.
    Virðulegi forseti. Ég hef stiklað á stóru varðandi skýrslu utanrrh. sem er eins og áður sagði vel úr garði gerð. Það er meginatriðið í öllum erlendum samskiptum okkar að við Íslendingar erum í engu eftirbátar nágrannaþjóða og því fyrr sem við losum okkur við arf okkar frá fyrri tíma yfirráða Dana, minnimáttarkenndina, þeim mun hressari verðum við. Fámennið og strjálbýlið sem fyrir nokkrum áratugum var okkur fjötur um fót í alþjóðlegri samkeppni er nú á tímum upplýsingaskipta og hugvits kostur. Hagkvæmni stærðarinnar á iðnaðaröld nýtist aðeins að takmörkuðu leyti í dag. Því getum við búið okkur og afkomendum okkar glæsta framtíð ef við aðeins kunnum fótum okkar forráð.